,

Samstarf komið á við Skálholtsstað

Fyrir um það bil mánuði skruppu nokkur úr stjórn Prentsöguseturs austur í Skálholt, skoðuðu aðstæður undir leiðsögn Kristjáns Björnssonar vígslubiskups og ræddum við hann um hugsanlega samvinnu Pss og Skálholtsstaðar. Þær samræður voru sérlega jákvæðar og vingjarnlegar. Í ljós kom mikill áhugi sr. Kristjáns á málefninu og í framhaldi af því skrifaði formaður Prentsöguseturs, Heimir Br. Jóhannsson formleg bréf til Skálholtsfélagsins og vígslubiskupsins. Nú er árangurinn kominn í ljós.
Á lokadegi Skálholthátíðar  21. júlí sl., kynnti sr. Kristján Björnsson vígslubiskup formlega vilja biskupsstóls, Skálholtsstaðar, til samvinnu við Prentsögusetur. Setrið verður með aðstöðu í fjósinu, sem nú er laust til starfsemi eftir að kúabúskapur var lagður þar niður. Þetta eru mjög merk tíðindi og fagnaðarefni fyrir okkur sem unnið höfum að framgangi Prentsöguseturs. Þeir Haukur Már Haraldsson, Svanur Jóhannesson og Þorsteinn Veturliðason mættu til fundarins fyrir hönd stjórnar Prentsöguseturs. Nú er bara að bretta upp ermar og láta drauminn rætast. Fjósið í Skálholti, þar sem Oddur Gottskálksson kúldraðist og þýddi Nýja testamentið á íslensku við ylinn frá kúnum. Hvar ætti Prentsögusetur fremur heima?