Prentsmiðja Hallgríms Benediktssonar
Reykjavík 1920–1940
Hallgrímur Benediktsson (1879-1940) prentari var einn af stofnendum Gutenbergs-prentsmiðjunnar 1904. Hann keypti Prentsmiðju „Vestra“ á Ísafirði árið 1920 og þar með gömlu Ísafoldarhraðpressuna, flutti hana til Reykjavíkur og setti hana upp í Bergsstaðastræti 19 og starfrækti til dánardægurs.
Þessi prentsmiðja prentaði m.a. Alþýðublaðið í nokkur ár, er hann leigði þeim Guðmundi J. Guðmundssyni (1899-1959) og Tómasi Albertssyni (1896-1955) prentsmiðjuna.
Á seinustu árum prentsmiðjunnar t.d. 1935 og 1936 eru bækur sem voru prentaðar í henni sagðar prentaðar í Prentsmiðjunni á Bergstaðastræti 19.
Einkaprentsmiðja Prentarans
Reykjavík 1920
Þessi prentsmiðja var sérstök að því leyti, að hún var ekki raunveruleg prentsmiðja, sem gekk dags daglega, heldur var henni komið upp í vinnudeilu prentara í Reykjavík 1920. Það var sunnudaginn 4. janúar 1920 sem prentsmiðjueigendur í Reykjavík gáfu út Fréttablað Morgunblaðsins og Vísis og prentarar svöruðu þá með aukablaði af Prentaranum sama dag, en það var sagt prentað í Einkaprentsmiðju Prentarans, hvar svo sem hún hefur verið til húsa. Hins vegar var Fréttablað Morgunblaðsins og Vísis unnið af prentsmiðjustjórunum og nemum í Ísafoldarprentsmiðju. Það var strax farið að undirbúa verkfall og kosin verkfallsnefnd sem kölluð var „Brauðnefndin“. Í henni voru sjö prentarar úr stærstu prentsmiðjunum. Einnig var leitað til útlanda eftir stuðningi og var Steingrímur Guðmundsson seinna forstjóri Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg milligöngumaður félagsins og gekk hann á fund Dansk Typograf Forbund sem studdi íslenska félaga sína dyggilega í þessari deilu.
Þetta var tímamótadeila á margan hátt. Aðalmálið var að koma á átta stunda vinnudegi, en Oddur Björnsson prentsmiðjueigandi á Akureyri hafði boðið prenturum samninga við sig um þetta mál.
Kröfur prentara voru: 40% kauphækkun, hærra aukavinnuálag, átta stunda vinnudagur, sex daga sumarleyfi, og tólf veikindadagar á ári.
Prentsmiðjueigendur í Reykjavík gengu strax að launahækkuninni, en það sem stóð aðallega í þeim var stytting vinnudagsins.
Verkfall hófst og 5. janúar skarst forsætisráðherra í leikinn, en án árangurs. Hann kom því samt til leiðar að stjórnir félaganna hittust og samkomulag náðist um miðlunartillögu sem var samþykkt í báðum félögum og samningar síðan undirritaðir 6. janúar og vinna hófst daginn eftir.
Það sem náðist fram í verkfallinu var eftirfarandi:
1. 40% hækkun allra launa.
2. Aukavinna greidd með 35% álagi.
3. Sunnudaga- og helgidagavinna greidd með 55% álagi.
4. Veikindadagar urðu sex í senn og alls tólf dagar á ári.
5. Sex daga sumarfrí.
6. Uppsagnarfrestur styttur úr tveimur mánuðum í eina viku.
7. Skýlaust loforð um átta stunda vinnudag frá nýári 1921.
Prentsmiðjan Acta
Reykjavík 1919–1936
Guðbjörn Guðmundsson (1894-1983) prentari var einn af stofnendum Prentsmiðjunnar Acta. Fór utan árið 1919 til að kaupa vélar og áhöld til prentsmiðjunnar og var svo prentsmiðjustjóri þar frá 1919 til 1936. Guðbjörn starfaði mikið að félagsmálum prentara og var m.a. formaður Byggingasamvinnufélags prentara frá stofnun 1944-1958. Var heiðursfélagi HÍP og seinna FBM eftir að það var stofnað. Jón Þórðarson (1890-1982) prentari var líka einn af stofnendum Acta og gegndi þar setjara- og gjaldkerastörfum.
Prentsmiðja Austurlands
Seyðisfirði 1919–1924
Á árinu 1919 var stofnað hlutafélag á Seyðisfirði sem hét Prentsmiðjufélag Austurlands. Það hafði það markmið að koma á fót prentsmiðju og hefja útgáfu vikublaðs sem átti að heita Austurland. Forsvarsmenn hlutafélagsins voru: Stefán Th. Jónsson (1865–1937) úrsmiður og kaupmaður, Eyjólfur Jónsson (1869–1944) ljósmyndari, klæðskeri og bankastjóri og Jón Jónsson (1874–1958) í Firði. Keypt var ný prentsmiðja frá Þýskalandi, en mikill dráttur varð á afhendingu hennar sem átti að vera 1. september. Það tókst því ekki að koma út fyrsta blaðinu fyrr en á nýársdag 1. janúar 1920. Ritstjóri var ráðinn Guðmundur G. Hagalín (1898–1985), en forstöðumaður prentsmiðjunnar var Guðmundur Helgi Pétursson (1895–1943) prentari.
Prentsmiðjufélagið festi kaup á fremur litlu húsi að Borgarhóli á Fjarðaröldu, en byggja varð skúr fyrir pappír og skurðarhníf. Steypt var undir stóru prentvélina og komið fyrir leturkössum, en leturbúnaður var nokkuð góður. Keypt var lítil prentvél fyrir smáprent, prófarkapressa, rifgötunarvél og vírheftivél. Prentsmiðjan sinnti bæði bóka- og blaðaprentun auk ýmiss konar smáprents. Blaðið Austurland var prentað þarna fram á sumarið 1922, en þá leysti annað blað, Austanfari það af hólmi og Guðmundur G. Hagalín var ritstjóri þess. Það kom aðeins út fram í október 1923, en þá tók blaðið Hænir við og kom út fram á árið 1930 undir ritstjórn Sigurðar Arngrímssonar (1885–1962).
Sigurður Þ. Guðmundsson (1899–1958) prentari, sem hafði unnið í Prentsmiðju Austurlands frá 1919, keypti prentsmiðjuna 1924 og rak hana sem einkafyrirtæki undir heitinu Prentsmiðja Sigurðar Þ. Guðmundssonar til ársins 1934 og var hún til húsa alla tíð á sama stað, Borgarhóli á Seyðisfirði.
Prentsmiðja Þjóðólfs
Haga í Sandvíkurhreppi og Selfossi 1919–1920
Nú hefst nýr kafli í prentsmiðjusögu Árnesinga. Fyrri heimsstyrjöldinni er lokið og seint á árinu 1918 lést hinn djarfi forystumaður Árnesinga, Gestur Einarsson á Hæli úr Spænsku veikinni aðeins 38 ára að aldri. Það er komið fram í júni 1919. Prentsmiðja Suðurlands er flutt að bænum Haga í Sandvíkurhreppi, sem er nálægt Selfossi og þar er farið að prenta Þjóðólf að nýju. Að útgáfunni standa „Nokkrir Árnesingar“, en ekki er getið um nein nöfn og heldur ekki hver er prentari, en ritstjóri er Einar E. Sæmundsen (1885–1953) skógarvörður. Fyrsta blaðið kom út 27. júní 1919 og það er strax augljóst að þarna er um sömu prentsmiðju að ræða og var á Eyrarbakka 1910–1917. Alla vega er letrið það sama og var notað í gömlu prentsmiðjunni. Þetta er dálítið undarlegur prentsmiðjustaður, á sveitabæ, en sjálfsagt hefur húsnæðið hentað betur en það sem prentað var í á Eyrarbakka.
Í þessu fyrsta blaði Þjóðólfs sem prentað er í Haga er sagt að nú hafi margir menn heitið blaðinu stuðningi, en áður hafi aðeins einn bóndi staðið straum af kostnaði þess, þ.e. Gestur Einarsson á Hæli sem nú sé fallinn frá. Þjóðólfur er sagður afgreiddur fyrst um sinn í Haga í Sandvíkurhreppi og bendir það orðalag til þess að þetta sé til bráðabirgða. Þeir sem helst skrifuðu í blaðið voru ritstjórinn Einar E. Sæmundsen og Freysteinn Gunnarsson (1892–1976) sem skrifaði um Skólamálið. Í síðasta blaðinu sem prentað er í Haga 16. september 1919 er kvartað undan því að prentsmiðjan hafi alltaf verið í lamasessi, meira og minna bilað hvað eftir annað og því ómögulegt að prenta, en það er vonast til þess að hún komist í lag. Það er talað um að færri blöð hafi komið út en ætlað var og þess vegna hafi árgangur blaðsins verið lækkaður úr 5 kr. í 3 kr. Prentuð voru aðeins 5 tbl. af Þjóðólfi í prentsmiðjunni í Haga. Þá var prentsmiðjan flutt á Selfoss. Í lítilli frétt á bls. 3 (23) í Þjóðólfi 18. okt. 1919, í fyrsta blaðinu sem prentað er á nýja staðnum segir:
„Bankaútibúið á Selfossi er nú komið í sjálfsábúð. Er stofnunin nú flutt í nýbyggt hús, er bankinn lét reisa í sumar, norðan við flutningabrautina, nokkur hundruð faðma austur frá Ölfusárbrúnni. Byggingin er væn að viðum og rúmgóð, tvílyft, að grunnmáli um 14 x 24 álnir. Kjallari er undir öllu húsinu og er Prentsmiðja Þjóðólfs nú flutt þangað. Hefir flutningurinn frá Haga í þetta sinn valdið drætti á útkomu blaðsins.“
Í Landsbankaútibúinu á Selfossi voru síðan prentuð næstu sjö tölublöð Þjóðólfs á tímabilinu 18. október 1919 til 21. janúar 1920. Ritstjórinn var sá sami og í Haga, Einar E. Sæmundsen, en hann kom mjög við sögu Suðurlands. Þessi blöð voru jafnframt síðustu blöð þessa Þjóðólfs. Þeir sem skrifuðu helst í þessi síðustu blöð Þjóðólfs voru: Eiríkur Einarsson frá Hæli (1885–1951) þingmaður Árnesinga, Gísli Skúlason (1877–1942) prestur í Stokkseyrarprestakalli, Gunnar Sigurðsson frá Selalæk (1888–1962) og séra Magnús Helgason (1857–1940) skólastjóri Kennaraskólans í Reykjavík.
Prentverkið sem var orðið frekar lúið þegar það kom í Landsbankahúsið á Selfossi var nú ekki notað í nokkur ár, en það sem næst er vitað um það er að Guðjón Ó. Guðjónsson (1901–1992) prentari var orðinn eigandi að því og flutti það til Reykjavíkur að Laufásvegi 15 og byrjaði að prenta þar í febrúar 1926. Í júní sama ár flutti hann það til Vestmannaeyja og stofnaði Prentsmiðju Guðjónsbræðra, en síðan gekk það kaupum og sölum í Vestmannaeyjum næstu árin og sameinaðist Eyjaprentsmiðjunni árið 1930. Það má búast við því að lausaletrið sem Jón Ólafsson (1850–1916) keypti til Aldar-prentsmiðjunnar 1897 hafi verið orðið lélegt þegar hér var komið sögu, en það var upphafið að þessari prentsmiðju sem víða fór.
Prentsmiðja Vestmannaeyja
Vestmannaeyjum 1917–1924
Gísli J. Johnsen (1881–1965), kaupmaður í Vestmannaeyjum, keypti prentsmiðju þá af Þ.Þ. Clementz (1880–1955) prentara í Reykjavík árið 1917, sem var að stofni til Prentsmiðjan Skuld sem Jón Ólafsson (1850–1916) flutti til Eskifjarðar frá Kaupmannahöfn 1877. Þessi prentsmiðja gekk síðan kaupum og sölum þar til hún lenti í Vestmannaeyjum og var fyrsta prentsmiðjan þar.
Í prentsmiðjunni var fyrst prentað blaðið Skeggi og kom fyrsta blaðið út 27. október 1917. Gísli réð Kristján Guðjónsson (1892–1945) sem prentara, en Pál Bjarnason (1884–1938) skólastjóra á Stokkseyri sem ritstjóra. Skeggi kom út til ársins 1920, en þá lagðist rekstur prentsmiðjunnar niður um skeið eða til ársins 1923. Um haustið 1923 var byrjað að gefa út blaðið Skjöld. Það blað hafði að höfuðmarkmiði að fella Karl Einarsson (1872–1970) sýslumann frá þingmennsku. Karl var á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri (1914–1923) og var gerð hörð hríð að honum í Skildi og féll hann við næstu kosningar. Jóhann Þ. Jósefsson (1886–1961) kaupmaður varð þá alþingismaður Vestmanneyinga 1923–1959, fyrst fyrir Borgaraflokkinn eldri, síðan Íhaldsflokkinn og síðast Sjálfstæðisflokkinn. Ritstjóri var Páll V.G. Kolka (1895–1971) læknir, en prentari var Valdimar B. Hersir (1891–1936). Skjöldur kom út til 1924.
Ingibergur Friðriksson (1909–1964) frá Batavíu sem fór að vinna í prentsmiðjunni haustið 1924, lýsti starfseminni svo í grein um Vestmannaeyjaprent eftir Jóh. Gunnar Ólafsson, í bókinni Helgakver Rv. 1976. — „Hún var eign Gísla J. Johnsens konsúls og var til húsa í austurendanum á Edinborgarloftinu, þar sem Gísli var verslunarstjóri. Aðalvélin var stór og mikil fyrirferðar. Var henni snúið með handafli, en tveir menn voru við vélina þegar prentað var og snéri annar svinghjólinu, en hinn lagði pappírinn í. Oftast snéri henni sami maðurinn, Jóhann Gíslason (1883–1944) í Hlíðarhúsi og söng við raust ef vel gekk. Þá var til lítil vél, sem ætluð var fyrir allt smáprent. Prófarkapressa og skurðarhnífur voru einnig og voru allar þessar vélar knúðar með handafli. Nokkuð var til af letri, en það var frekar úr sér gengið enda hafði það lent í bruna hjá Davíð Östlund árið 1910, þegar Prentsmiðja Frækorna brann í Þingholtsstræti 23.“
Bæði blöðin Skeggi og Skjöldur sem komu samtals út í fjögur ár voru prentuð í Prentsmiðju Vestmannaeyja. Gísli mun hafa átt prentsmiðjuna til ársins 1930, en stundum var hún leigð út og var þá yfirleitt breytt um nafn á henni.
Siglufjarðarprentsmiðja
Siglufirði 1916–2005
Prentfélag Siglufjarðar var stofnað í nóvember 1916 og jafnframt keyptur prentbúnaður frá Kaupmannahöfn og vikublaðinu Fram var hleypt af stokkunum. Ritstjórar blaðsins voru þeir Friðbjörn Níelsson (1887–1952) og Hannes Jónasson (1877–1957).
Friðbjörn var einn af þeim sem mótuðu Siglufjörð meðan sveit varð að kaupstað. Hann var kaupmaður og var meðal annars bæjargjaldkeri á Siglufirði. Hannes var bæjarskáld og bóksali. Prentsmiðjan var til húsa á neðri hæð hússins að Grundargötu 2 og fyrsti prentarinn var Helgi Björnsson frá Akureyri. Nemandi hjá honum var Vilhjálmur Hjartarson en hann tók við af Helga sem flutti burt árið 1919. Vilhjálmur keypti síðan prentverkið 1922 en veiktist ári seinna og seldi þá Hinrik Thorarensen lækni prentsmiðjuna sem rak hana áfram á Grundargötu um tíma en flutti hana síðan í steinhús á Norðurgötu. Það hús brann til kaldra kola 1925 og upplag blaðsins Framtíðin sem Hinrik gaf út glataðist svo það blað er mjög sjaldgæft og ekki til heilt neins staðar. Sama ár keypti Hinrik nýtt prentverk í Kaupmannahöfn og lét setja það upp í Lækjargfötu 4, en Angantýr Ásgrímsson (1904–1947) var ráðinn prentari. Hinrik rak það í áratug en Sigurjón Sæmundsson (1912–2005) keypti prentsmiðjuna 1935 og starfrækti allt til dánardægurs, ásamt viðamikilli bóka- og tímaritaútgáfu.
Sigurjón var prentari að iðn. Hann var bæjarstjóri á Siglufirði um skeið, söng með Karlakórnum Vísi og átti þátt í að stofna þar tónlistarskóla. Eftir að Sigurjón lést var prentsmiðjan varðveitt í nokkur ár eins og hún leit út þegar hún hætti og meiningin að gera hana að safni, en það varð aldrei að veruleika og vélar og tæki fóru á Iðnminjasafnið á Akureyri.
Prentsmiðja Njarðar
Ísafirði 1916–1933
Árið 1916 keyptu nokkrir menn á Ísafirði prentsmiðju Magnúsar Ólafssonar og hófu útgáfu blaðsins Njarðar, en prentsmiðjan var látin heita eftir því og kölluð Prentsmiðja Njarðar. Ritstjóri blaðsins var sr. Guðmundur Guðmundsson (1859–1935) frá Gufudal. Hann hafði fengið lausn frá embætti og flust til Ísafjarðar og kenndi þar fyrst við barnaskólann og var erindreki Stórstúku Íslands en varð síðan forstöðumaður brauðgerðarhúss á Ísafirði. Nokkrir þeirra er stóðu að þessum prentsmiðjukaupum, drógu sig út úr þeim vegna stjórnmálalegs ágreinings. Eignaðist sr. Guðmundur því smátt og smátt prentsmiðjuna að mestu einn.
Blaðið Njörður hætti að koma út 1921. Var prentsmiðjan þá að mestu aðgerðarlaus til 1923, að blaðið Skutull byrjaði. Var sr. Guðmundur ritstjóri þess til 1925. Árið 1933 keypti Jónas Tómasson (1881–1967) bóksali Prentsmiðju Njarðar og sameinaði hana Prentsmiðju Vestfirðinga, sem hann keypti þá líka. Þessa prentsmiðju rak hann síðan áfram sem Prentstofuna Ísrún.
Prentarar sem störfuðu við Prentsmiðju Njarðar voru: Magnús Ólafsson (1875–1967), Óskar Guðnason (1906–1976), Sigurþór Árnason prentnemi (1907–1984), Júlíus Sigurðsson (1894–1960) og Óskar Jensen (1906–2009). Óskar Jensen var færeyskur að uppruna, fæddur á Ísafirði, en fór í fóstur til Þórshafnar 8 ára gamall og nam þar prentiðn. Fluttist aftur til Íslands um tvítugt og vann m.a. í Prentsmiðju Njarðar og síðan í Prentstofunni Ísrúnu í mörg ár.
Prentsmiðja Þ. Þ. Clementz
Reykjavík 1915–1917
Þorkell Þorkelsson Clementz (1880–1955) vélfræðingur, sonur Þorkels Þorkelssonar Clementz prentara (1837–1881), keypti prentsmiðju Sveins Oddssonar 1915 og rak hana í Reykjavík til 1917. Hún var þá seld til Vestmannaeyja og var fyrsta prentsmiðjan þar. Þessi prentsmiðja var þá komin mjög til ára sinna, en hún var upphaflega keypt ný til Eskifjarðar af Jóni Ólafssyni 1876 til að prenta blaðið Skuld, en var síðan seld til Seyðisfjarðar 1883.
Prentsmiðjan Rún
Reykjavík 1914–1917
Hlutafélagið Lögrétta setti upp þessa prentsmiðju og fékk til hennar fyrstu setjaravélina sem kom til landsins, svo og fyrstu hraðpressuna með sjálfíleggjara. Prentsmiðjustjóri var Jakob Kristjánsson (1887–1964), sem einnig var fyrsti íslenski vélsetjarinn hér á landi. Hann fór 1912 til Danmerkur á lýðháskólann í Askov, en síðan var hann setjari hjá S.L. Møller í Kaupmannahöfn. Hann hóf síðan nám við Linotype-skólann í Lundúnum, til undirbúnings að stofnun Prentsmiðjunnar Rúnar. Árið 1917 keypti svo Félagsprentsmiðjan Prentsmiðjuna Rún og tók við starfsfólki þess.