Skýrsla formanns um starf Prentsöguseturs árið 2017

Á aðalfundi Prentsöguseturs 18. mars í fyrra var kjörin fimm manna stjórn félagsins og tveir í varastjórn. Sá sem hér stendur, Haukur Már Haraldsson, var kosinn formaður í sérstakri kosningu og þau Heimir Jóhannesson varaformaður, Þóra Elfa Björnsson ritari, Svanur Jóhannesson gjaldkeri og Þórleifur V. Friðriksson meðstjórnandi. Þau Bjargey Gígja Gísladóttir og Baldvin Heimisson voru kosin í varastjórn.

Þá voru þeir Ólafur Stoltsenwald og Simon Knight kjörnir skoðunarmenn reikninga.

Sú vinnuregla hefur tíðkast að varamenn í srjórn eru boðaðir á stjórnarfundi.

 

Fundir

Frá síðasta aðalfundi hafa verið haldnir fjórir stjórnarfundir. Samskipti stjórnarmanna hafa þó verið mun meiri. Við ræðum mikið saman í síma, ráðum ráðum okkar yfir kaffibolla með fólki sem við höldum að geti ráðið okkur heilt eða við spjöllum saman með netpósti.

Sem dæmi má nefna að ég átti fund með sveitarstjóranum á Hvolsvelli, Ísleifi Gylfa Pálmasyni í endaðan júní um hugsanlega aðkomu Prentsöguseturs í það safnaumhverfi sem hefur þróast þar á staðnum. Eiginlega má segja að sveitarstjórinn hafi boðið mér í opinbera heimsókn á Hvolsvöll, þar sem hann kynnti sýndi mér starfseminni og kynnti mig fyrir öllum safnstjórum á staðnum. Hann var reyndar býsna jákvæður í garð hugsanlegs samstarfs. Hvolsvöllur er þó í það lengsta frá höfuðborgarsvæðinu fyrir minn smekk, en ég tel þó að við verðum að hafa augun opin fyrir öllum möguleikum sem upp kunna að koma. Ekki síst þar sem ljóst virðist vera að hugmyndin um setrið á Eyrarbakka virðast úr sögunni í upprunalegri mynd.

Rétt er þó að ítreka það hér að við höfum verið fullvissuð um að þau tæki sem eru í geymslu í Gónhóli á Eyrarbakka séu og verði örugg og megi vera í húsnæðinu þar eftir okkar þörfum.

Þá má einnig nefna að við Svanur Jóhannesson gjaldkeri fórum á fimmtudaginn á fund með tveimur af forystufólki Árborgar á Selfossi, þeim Ástu og Kristjáni. Þar ræddum við um möguleika Prentsöguseturs á aðstöðu í nýjum gömlum miðbæ Selfoss, sem framkvæmdir hefjast við í næsta mánuði. Á fundinum kom fram að uppbyggingin sú byggist á fjárhagslegum bakhjörlum þeirra sem þar verða gjaldgengir. Ég tel reyndar að ástæða sé til að skoða þetta mál betur og þá jafnvel í samstarfi við t.d. Samtök iðnaðarins, Menntamálaráðuneytið og jafnvel skoða hvort stærstu prentsmiðjur landsins væru hugsanlega til í að stofna formlegan fjárhagslegan bakhjarl Prentsöguseturs í þessu skyni.

 

Húsnæðismálin

eru satt að segja mjög erfið. Okkur vantar ekki tæki, þeim fjölgar í sífellu og nú er svo komið að við erum að verða uppiskroppa með geymslurými. Til að geta þegið þau tæki sem okkur er sífellt að bjóðast tókum við á leigu bílskúr við Rósarima í Grafarvogi og hann er að fyllast. En það er ljóst að við getum ekki bætt við okkur leiguhúsnæði. Höfum ekki efni á því.

Þannig að það er ljóst að húsnæðismálin eru það sem við verðum að leggja aukna áherslu á í komandi framtíð. Þau hafa vissulega verið efst á blaði hingað til, en betur má ef duga skal.

Um nokkurt skeið hefur verið til umræðu í stjórn Prentsöguseturs að opna eins konar mini-safn í húsnæði Bókamiðstöðvarinnar við Laugaveg, þar sem Heimir, varaformaður okkar, hefur safnað gömlum vélum og tækjum. Stefnt er að því að það verði opnað í byrjun sumars. Þetta er sérstakt fagnaðarefni.

 

Vefsvæðið

Að lokum er ástæða til að minna á vefsvæði Prentsöguseturs, www.prentsögusetur.is. Og ekki síður að þakka Páli Svanssyni fyrir hans vinnu í þágu hans. Eins og þig flest vitið er þar rakin prentsaga Íslands, hér á landi og erlendis, þ.e.a.s. þær prentsmiðjur sem helst prentuðu fyrir Íslendinga. Einnig einstök fyrirtæki frá upphafi til 21. aldar.

Ég vil þakka hér í lokin meðstjórnarmönnum mínum samstarfið á liðnum árum. Mikill samhugur hefur verið innan þessa hóps og áhuginn á málefninu ómældur.

Á sama hátt er ástæða til að þakka þann áhuga sem félagsmenn – og reyndar einstaklingar utan þess – hafa sýnt Prentsögusetri, með símhringingum, ábendingum um tæki og fyrirspurnum.