Borgarprent
Reykjavík 1946–1978
Borgarprent var stofnað 1. janúar 1946 af þremur prenturum: Garðari Sigurðssyni (1917–2013), Óla Vestmann Einarssyni (1916–1994) og Þorláki Guðmundssyni (1917–1999). Garðar var prentsmiðjustjóri frá upphafi og til 1978 að prentsmiðjan var seld. Árið 1958 stofnaði Þorlákur eigin prentsmiðju undir sínu nafni, en Óli fór sama ár að kenna við Iðnskólann í Reykjavík og undirbúa verklega kennslu við skólann sem hófst þetta ár. Garðar vann hjá Vinnueftirliti ríkisins 1981–1995.
Prentsmiðja Þjóðviljans
Reykjavík 1945–1972–1992
Dagblaðið Þjóðviljinn hóf að koma út árið 1936 og var fyrst prentað í „Jesúprenti“, Prentsmiðju Jóns Helgasonar til 1938. Síðan var Þjóðviljinn prentaður í Víkingsprenti. Húsnæðið þar var svo lítið að blaðamennirnir kölluðu það „dárakistuna“.
Þá tóku nokkrir frammámenn í sósíalistahreyfingunni sig saman og keyptu Skólavörðustíg 19 fyrir blaðið. Þar var Þjóðviljinn fyrst prentaður 27. júní 1945 í prentsmiðju sem bar nafn blaðsins. Steinþór Guðmundsson (1890–1973) kennari, Árni Einarsson (1907–1979), Stefán Ögmundsson (1909–1989) og Kristinn E. Andrésson (1901–1973) lögðu þar hönd á plóg ásamt þúsundum annarra sem styrktu blaðið fjárhagslega.
Fjöldasamtök mynduðust mjög fljótt um hús og útkomu Þjóðviljans og happdrætti hans var árlegur viðburður. Árni Einarsson var fyrsti framkvæmdastjórinn, en 1948–1958 var Stefán Ögmundsson framkvæmdastjóri. Þá var byrjað að prenta meira en Þjóðviljann, bæði blöð og bækur. Eiður Bergmann (1915–1999) byrjaði að vinna við blaðið 1949 en varð framkvæmdastjóri 1963 og gegndi því starfi í meira en tvo áratugi.
Prentsmiðja Þjóðviljans var síðan til húsa að Skólavörðustíg 19 þar til prentsmiðjur dagblaðanna í Reykjavík: Tímans, Vísis, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins sameinuðust 1972 í Blaðaprenti að Síðumúla 14. Í upphafi annaðist Blaðaprent alla vinnslu blaðanna fjögurra. Þegar frá leið færðist setning, umbrot, útlitshönnun og upplíming, til blaðanna sjálfra, sem síðan var send í Blaðaprent til ljósmyndunar.
Þjóðviljinn lét síðan byggja sitt eigið hús í Síðumúla 6 á árunum 1974–1976 og var þá flutt þangað með ritstjórnarskrifstofur, auk blaðamennsku og afgreiðslu. Einnig fór þar fram forvinnsla blaðsins að nokkru, setning, umbrot, og útlitshönnun. Rekstrarerfiðleikar voru miklir á næstu árum eins og hjá öðrum blöðum og var húsið að Síðumúla 6 að lokum selt og flutt sunnar í Síðumúla 35 þar sem blaðið var síðustu árin, en síðasta blaðið kom út þann 31. janúar 1992. Blaðaprent flutti 1989 að Lynghálsi 9 en Prentsmiðjan Oddi keypti síðan tæki Blaðaprents árið 1990 og þar var Þjóðviljinn prentaður þar til yfir lauk 1992.
Prentsmiðja Guðmundar Jóhannssonar
Reykjavík 1945–1981
Guðmundur Ágúst Jóhannsson (1899–1981) var fjölmenntaður bókagerðarmaður. Hann hóf nám í setningu í Félagsprentsmiðjunni, en fór til Kanada í miðju námi og lauk við námið í Lögbergsprentsmiðju í Winnipeg. Hann lærði síðan prentmyndagerð og var með meistarabréf í þeirri iðn. Guðmundur vann um tíma við prentun í Bandaríkjunum, m.a. í Chicago. Hann kom þá til Íslands og vann í tvö ár í Herbertsprenti en fór aftur út til Vesturheims og var þar í tvö ár.
Hann kom síðan heim og setti á stofn prentmyndagerð. Þá stofnaði hann Lithoprent með Einari Þorgrímssyni árið 1938, en þegar slitnaði upp úr þeirra samstarfi ári seinna fór Guðmundur að vinna í Eddu og síðan í Skálholtsprenti. Árið 1945 stofnaði hann sína eigin prentsmiðju sem hann nefndi Prentsmiðju Guðmundar Jóhannssonar og starfrækti hana til dánardægurs.
Prentsmiðja Austurlands
Seyðisfirði 1945–1950
Sigurður Þ. Guðmundsson (1899–1958) prentari vann í Prentsmiðju Austurlands á Seyðisfirði 1919–1934. Hann fluttist til Reykjavíkur það ár og vann um tíu ára skeið í Félagsprentsmiðjunni og Hólum. Árið 1944 fluttist hann aftur til Seyðisfjarðar og var þá stofnað hlutafélagið Prentsmiðja Austurlands, með nýjum vélum. Lárus Jóhannesson (1898–1977), alþingismaður Seyðfirðinga, var einn af stofnendum. Sigurður var þar forstjóri 1945–1950 en flutti þá prentsmiðjuna með sér til Reykjavíkur og var hún til húsa að Hverfisgötu 78 til ársins 1953 en var þá seld Félagsprentsmiðjunni.
Hrappseyjarprent
Reykjavík 1945–1947
Þessi prentsmiðja var stofnuð í Reykjavík með vélum Prentverks Akraness sem þangað fóru og Vilhjálmur Svan Jóhannsson prentari fylgdi með og var prentsmiðjustjóri til 1947. Prentsmiðjan var til húsa í Skerjafirði á Hörpugötu 13–14, en Vilhjálmur Svan bjó í húsinu nr. 14. Skrifstofan var í Kirkjuhvoli, en framkvæmdastjóri var Grímur Gíslason (1913–1979), sem var líka annar tveggja framkvæmdastjóra Íslendingasagnaútgáfunnar, hinn var Gunnar Steindórsson (1918–1966). Eitthvað mun Hrappseyjarprent hafa prentað af bókum útgáfunnar, en mikið samstarf var á milli þessara aðila á þessum árum og getur Guðni Jónsson prófessor þess í formála fyrir Nafnaskrá Íslendinga sagna, XIII. bindi.
Árið 1947 var prentsmiðjunni skipt í tvennt. Önnur var nefnd Snorraprent en hin Prentfell og fékk Vilhjálmur Svan þann helming og rak hana til 1965 (Sjá: Snorraprent og Prentverk Akraness 1942–1946). Steinar Sigurjónsson (1928–1992) skáld lærði prentun í Hrappseyjarprenti í eitt ár 1946, en lauk síðan námi í Prentverki Akraness 1950.
Prentsmiðjan Eyrún
Vestmannaeyjum 1944–
Prentsmiðjan Eyrún var stofnuð sem hlutafélag 25. október 1944. Á árunum upp úr 1940 var aðeins ein prentsmiðja starfrækt í Vestmannaeyjum, sem heita mátti að bundin væri einum stjórnmálaflokki. Þýddi það í reynd að blöð annarra flokka urðu að leita til Reykjavíkur um prentun. Allir stjórnmálaflokkarnir, verkalýðsfélög og nokkrir einstaklingar í Eyjum bundust þá samtökum um að koma þessari prentsmiðju á fót og lögðu fram fé í það fyrirtæki. Var síðan unnið að því að koma starfseminni á laggirnar, panta vélar, tæki og pappír og ráða fólk til starfa. Húsnæði fékk prentsmiðjan að Heimagötu 15.
Fyrstu stjórn prentsmiðjunnar skipuðu þessir menn: Gísli Gíslason (1917–1980) formaður, Sveinn Guðmundsson, Sigurður Guttormsson, Magnús Bergsson og Einar Guttormsson. Prentsmiðjustjóri var ráðinn Gunnar Sigurmundsson (1908–1991) frá júní 1945. Árið 1948 keypti fyrirtækið Eyjaprentsmiðjuna og eignaðist þar með fyrstu setjaravélina sem keypt var til Eyja 1941.
Prentsmiðjan Eyrún annaðist síðan blaðaprentun allt þar til eldgosið hófst 1973. Þar voru t.d. prentuð blöðin Víðir fyrir sjálfstæðismenn og Eyjablaðið fyrir vinstri menn. Til gamans má geta þess að árið 1949 var ritstjóri og ábyrgðarmaður Eyjablaðsins Einar Bragi Sigurðsson skáld og rithöfundur, en ritstjóri Víðis var þá nafni hans Einar Sigurðsson ríki, útgerðarmaður í Eyjum.
Í eldsumbrotunum sem byrjuðu 23. janúar 1973 fór hús prentsmiðjunnar, Heimagata 15, undir hraun og eyðilögðust þá allar vélar og tæki. Stjórn fyrirtækisins lét samt engan bilbug á sér finna og opnaði aftur að Hlíðarvegi 7 með nýjum og fullkomnum vélum árið eftir. Fyrsta blað Eyjablaðsins sem prentað var í nýju prentsmiðjunni eftir gos kom út 7. júní 1974. Gunnar Sigurmundsson var áfram prentsmiðjustjóri til 1977, en þá tók við Óskar Ólafsson (1951–) prentsmiður og var til 1991. Guðmundur Eyjólfsson (1958–) tók þá við og var til 1995, en Gísli Hjartarson (1967–) hefur verið prentsmiðjustjóri síðan.
Prentsmiðjan Oddi
Reykjavík 1943–2019
Stofndagur fyrirtækisins var 9. október 1943, en það voru þeir Baldur Eyþórsson (1917–1982) prentari og Finnbogi Rútur Valdimarsson (1906–1989) fv. ritstjóri Alþýðublaðsins, sem voru aðaldrifkraftarnir að stofnun þess. Prentararnir Björgvin Benediktsson (1917–1984) og Ellert Ág. Magnússon (1913–1997) unnu líka að undirbúningnum, en auk þeirra kom Arngrímur Kristjánsson (1900–1959) skólastjóri til samstarfs við þá félaga.
Nokkur aðdragandi hafði verið að stofnun prentsmiðjunnar. Baldur hafði unnið að stofnun prentsmiðju á vegum Hins íslenska prentarafélags, sem átti að heita „Prentarinn“, en sú prentsmiðja varð aldrei að veruleika vegna þess að félagsfundur felldi tillögu um aukaskattgjald félaganna vegna vélakaupanna. Þær voru síðan seldar til Alþýðuprentsmiðjunnar.
Finnbogi Rútur Valdimarsson sem þá var framkvæmdastjóri Menningar- og fræðslusambands alþýðu hugði á stórfellda bókaútgáfu. Hann hafði pantað vélar frá Bandaríkjunum á svipuðum tíma og þeir Baldur ákváðu að stofna prentsmiðju um þær vélar. Í bók Gylfa Gröndal Við byggðum nýjan bæ, sem eru endurminningar Huldu Jakobsdóttur konu Finnboga, segir í myndatexta (28. mynd) að Finnbogi hafi stofnað Prentsmiðjuna Odda í húsi sem myndin er af og stóð rétt hjá Marbakka sem var heimili þeirra. Það má vel vera að þarna hafi verið haldinn undirbúningsfundur að stofnun Odda, en formlegur stofnfundur Prentsmiðjunnar Odda hf. var haldinn í húsinu að Freyjugötu 41, þann 9. október 1943. Viku áður var undirritaður samningur um stofnun hlutafélags um rekstur prentsmiðju.
Á fundinum á Freyjugötu var gengið frá öllum formsatriðum, félaginu gefið nafn og kosið í stjórn. Húsið var í eigu Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara og prentsmiðjan fékk til afnota hluta af vinnustofu hans. Finnbogi Rútur gegndi lykilhlutverki við stofnunina. Hann hafði fjármagn og var stærsti hluthafi í upphafi. Stofnendur voru: Finnbogi Rútur Valdimarsson, Baldur Eyþórsson, Björgvin Benediktsson, Ellert Ág. Magnússon, Arngrímur Kristjánsson, Sigvaldi Kristjánsson, Kjartan Ólafsson, Skúli Árnason, Guðmundur M. Marteinsson, Hannibal Valdimarsson og Alþýðuhús Ísafjarðar hf.
Eftir eitt ár flutti Prentsmiðjan Oddi yfir Skólavörðuholtið í leiguhúsnæði að Grettisgötu 16. Stuttu seinna var húsnæðið keypt. Finnbogi Rútur seldi sinn hlut í Odda að tveimur árum liðnum og Ellert Ágúst seldi líka sinn hlut árið 1950. Þá kom Gísli Gíslason (1917–1980) stórkaupmaður inn sem hluthafi. Gísli var síðan stjórnarformaður fyrirtækisins frá árinu 1953 og til dánardægurs 1980. Þeir Baldur og Gísli voru systrasynir. Baldur var prentsmiðjustjóri frá upphafi og til dánardægurs 1982. Þá tók sonur hans Þorgeir Baldursson (1942–) við, og varð hann forstjóri Kvosar, móðurfélags Odda, en sonur hans Baldur varð framkvæmdastjóri innlendrar starfsemi.
Sveinabókbandið, sem var til húsa í Borgartúni 4, var sameinað starfseminni um 1947 en flutti á Grettisgötuna 1952. Grettisgata 18 var keypt 1964 en umsvifin höfðu aukist gríðarlega. Oddi keypti öll hlutabréf Sveinabókbandsins 1970 og síðan hefur bókbandið verið ein af deildum fyrirtækisins. Árið 1967 var flutt á Bræðraborgarstíg 7, þar sem fyrirtækið var rekið í mörg ár, en 1981 var flutt á Höfðabakka 7, þar sem nýtt prentsmiðjuhús hafði verið byggt, og þar er það rekið enn þann dag í dag.
Prentsmiðjan Oddi hafði haft mörg járn í eldinum hin síðari ár: Árið 1986 keypti Oddi Blaðaprent og 1989 var stofnað fyrirtækið Oddi Printing Corporation í New York til að leita markvisst verkefna í Bandaríkjunum. G. Ben-Edda var keypt af Iðnþróunarsjóði 1994 og það rekið áfram sem sérstakt fyrirtæki en nafninu breytt í Grafík árið 1997. Prentsmiðjan Oddi Poland var stofnað 1995 með vélum úr Blaðaprenti. Þá var Umbúðamiðstöðin keypt árið 1996 og Grafík tók yfir Skákprent árið 1998. Aldamótaárið keypti Oddi Steindórsprent-Gutenberg og Grafík keypti Offsetþjónustuna sama ár. Umbúðamiðstöðin og Kassagerð Reykjavíkur sameinuðust árið 2000 og hét nú Kassagerðin hf. Oddi eignaðist Kassagerðina að fullu árið 2001. Grafík og Gutenberg voru sameinuð undir nafni Gutenberg árið 2002.
Eignarhaldsfélagið Kvos var stofnað 2006 og varð móðurfélag Odda. Sama ár var framleiðsla Odda og Gutenbergs sameinuð undir merkjum OPM og Oddi keypti Infopress smiðjuna í Rúmeníu. Árið 2007 var framleiðsla Kassagerðarinnar sameinuð OPM, Prentun.com sett á laggirnar, Delta+ í Búlgaríu keypt og sameinað Infopress undir merkjum Infopress Group-IPG. Árið 2008 sameinuðust Oddi, Kassagerðin, Gutenberg og Prentun.com undir merkjum Odda. Þá var Oddi Föroyar stofnað þetta ár og sá það um umbúðasölu í Færeyjum. Sama ár var nýtt prentsmiðjuhús tekið í notkun í Póllandi, en þar voru 50 starfsmenn. Delta+ í Búlgaríu var selt, en IPG Hungary tók til starfa, en var selt árið 2009.
Árið 2012 keypti Oddi Plastprent af Framtakssjóði Íslands og árið 2013 var rekstur þess sameinaður Odda. Starfsmannafjöldi hjá fyrirtækjunum náði hámarki á þessum árum og var kominn yfir 400 manns, en starfsmönnum fækkaði ört og voru um 120 í byrjun árs 2019.
Árið 2015 voru Oddi ehf, Kassagerðin og Plastprent sameinuð undir Oddi prentun og umbúðir. Þremur árum seinna var Plastprenti og Kassagerðinni lokað og framleiðsla fyrirtækjanna færð til erlendra samstarfsaðila. Í lok janúar 2019 var tekin sú ákvörðun að skipta fyrirtækinu í tvo hluta, prentun og umbúðir. Nefndist prenthlutinn Prentsmiðjan Oddi og var framleiðslufyrirtæki. Umbúðahlutinn hét Kassagerð Reykjavíkur og var innflutningsfyrirtæki. Kristján Geir Gunnarsson (1971–) var forstjóri þeirra beggja.
Á undanförnum áratugum hefur Prentsmiðjan Oddi fengið ýmsar viðurkenningar: Árið 1997 hlaut fyrirtækið umhverfisviðurkenningu Reykjavíkurborgar og árið 2009 „Kuðunginn“ umhverfisverðlaun Umhverfisráðuneytisins. Sama ár í desember fékk Prentsmiðjan Oddi, Svansvottun – Norræna umhverfismerkisins. Í Bandaríkjunum fékk fyrirtækið viðurkenninguna: Premier Print Awards, bæði árið 2010 og 2012, fyrir fallega prentun.
Þann 20. mars 2019 keypti Prentmet alla prentvinnslu Odda ásamt tækjum með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda. Þann 20. nóvember voru kaupin samþykkt af SKE. Þar með var lokið æviskeiði Prentsmiðjunnar Odda, sem stofnuð var 1943 og var ein af stærstu prentsmiðjum á Norðurlöndum um skeið. Nafn nýju prentsmiðjunnar er Prentmet Oddi og starfsmenn um 100 talsins.
Litróf og Litróf-Hagprent
Reykjavík 1943–2004 og 2004–
Prentmyndastofan Litróf var stofnuð árið 1943 af prentmyndasmiðunum Eymundi Magnússyni (1913–2009) og Ingimundi Eyjólfssyni (1910–1968). Ingimundur seldi Eymundi fljótlega sinn hlut og rak Eymundur fyrirtækið einn til ársins 1982.
Fyrst var prentmyndastofan til húsa að Grettisgötu 51, en var svo flutt í Einholt. Þegar tölvutæknin hélt innreið sína þróaðist starfsemin út í rekstur hefðbundinnar prentsmiðju undir stjórn nýs eiganda, Konráðs Inga Jónssonar (1956–). Árið 2004 keypti Litróf prentsmiðjuna Hagprent og sameinaði rekstur þessara tveggja gamalgrónu fyrirtækja. Litróf er nú staðsett að Vatnagörðum 14 í Reykjavík. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 20 manns og er það eingöngu fagfólk með margra ára starfsreynslu að baki.
Fyrirtækið hefur yfir að ráða þremur Heidelberg Speedmaster fjöllita prentvélum af nýjustu gerð ásamt vélum fyrir smáprent, eyðublaðaprentun, stönsun, möppugerð o.fl. Prentsmiðjan er með stafræna prentdeild og tvo Canon plotterprentara, sem prenta allt að 1 metri á breidd og langt eftir þörfum. Í mars 2013 hlaut Litróf Svansvottun — Norræna umhverfismerkisins.
Skálholtsprentsmiðja
Reykjavík 1942–1946
Skálholtsprentsmiðja var stofnuð árið 1942 og var Kristján Sæmundsson (1910–1994) prentari einn af stofnendum hennar og veitti henni forstöðu þar til hún hætti árið 1946. Skálholtsprentsmiðja var fyrst og fremst bókaútgáfufyrirtæki, en Kristján átti sér þann draum að eiga hlut að útgáfu góðra og ódýrra bóka. Það sagði Eiríkur Eiríksson prentari á Akureyri, hálfbróðir hans, um hann í minningargrein.
Þegar Kristján hætti prentsmiðjurekstri 1946 fór hann í söngnám til Stokkhólms, en fór að vinna í Ísafoldarprentsmiðju þegar hann kom til baka og seinna vann hann í Leiftri.
Prentsmiðjan Hólar
Reykjavík og Seltjarnarnesi 1942–1986
Prentsmiðjan Hólar var upphaflega stofnuð árið 1942 af fjölmennu hlutafélagi fyrir forgöngu Kristins E. Andréssonar (1901–1973) og var prentsmiðjan þá hluti af bókmenntafélaginu Máli og menningu. Fyrirtækið var til húsa að Óðinsgötu 13.
Hafsteinn Guðmundsson (1912–1999) var ráðinn prentsmiðjustjóri fyrir tilstuðlan Stefáns Ögmundssonar prentara, en þeir höfðu unnið saman í Ísafold. Hólabókbandið var stofnað fjórum árum síðar árið 1946. Ári seinna var byggt hús yfir starfsemina að Þingholtsstræti 27, en Hafsteinn lét af störfum fyrir félagið 1967 og stofnaði þá Prenthús Hafsteins Guðmundssonar að Bygggarði á Seltjarnarnesi. Þegar sú prentsmiðja var lögð niður 1973 var Prentsmiðjan Hólar flutt þangað ásamt bókbandinu og var fyrirtækið rekið í Bygggarði til ársins 1986 er það varð gjaldþrota.