Leirárgarðar við Leirá
Leirársveit 1795-1814
Björn Gottskálksson (1765-1852) bókbindari keypti ásamt öðrum Hrappseyjarprentsmiðju árið 1793 og var hún flutt að Leirárgörðum 1795. Magnús Stephensen (1762-1833) var einn af eigendum hennar og náði þar fljótt yfirráðum enda bjó hann á Leirárgörðum á þessum árum. Prentun þar stóð með mestum blóma á fyrstu árum starfseminnar, en síðan fór að dofna yfir henni upp úr aldamótunum. Hólaprentsmiðjan var sameinuð prentsmiðjunni 1799 og var því aðeins ein prentsmiðja starfrækt í landinu til ársins 1852 þegar Prentsmiðja Norður- og Austurumdæmisins var stofnsett á Akureyri.
Eitt af því sem prentað var í Leirárgarðaprentsmiðju 1809 voru fyrirmæli Jörundar Hundadagakonungs varðandi stjórn landsins. Ólafur Pálmason (1934-) mag.art. samdi ritgerð til meistaraprófs í íslenskum fræðum 1963, (vélritað eintak í vörslu Lbs-Hbs) um tímabil Magnúsar Stephensen ásamt skrá yfir bækur sem prentaðar voru að Leirárgörðum frá upphafi 1795 og þar til Magnús féll frá 1833.
Árið 1814 var prentsmiðjan að Leirárgörðum flutt að Beitistöðum. Ástæðurnar voru margar. Ein var sú að prentsmiðjuhúsið á Leirárgörðum hrundi vegna flóða í Leirá. Önnur var gengisfall dönsku krónunnar og því erfið staða að flytja prentsmiðjuna til Viðeyjar. Þess vegna var ákveðið að byggja nýtt prentsmiðjuhús á Beitistöðum þar sem prentarinn Guðmundur Skagfjörð átti heima. Þriðja ástæðan var sú að Guðmundur vildi ekki fara af jörð sinni þar sem hann var með búskap því hann var líka bóndi, en hafði prentstörfin í hjáverkum eins og títt var á þessum tíma.
Guðmundur var mikils metinn prentari, átti langan starfsaldur í sinni grein, en hann starfaði í 60 ár við prentun, m.a. á Hólum, Hrappsey og Kaupmannahöfn – og var yfirprentari í Leirárgörðum og í Viðey. Hann var því einn af merkustu frumherjum íslenskrar prentlistar.
Poppska prentsmiðja
Kaupmannahöfn 1786-1838*
Árið 1786 stofnaði Sebastian Popp (1754-1828) prentari sína eigin prentsmiðju í Rosengaarden 115 í Kaupmannahöfn. S. Popp var frá Noregi en nam prentiðn í Kaupmannahöfn hjá J. R. Thiele. Prentsmiðja Popps hét á dönsku „det Poppska officin“ sem útleggst á íslensku: Poppska prentsmiðja. Hún dafnaði vel og Popp flutti með hana í eigið húsnæði 1791 í Stóra Fíólstræti 179. Fimm árum síðar átti hann fimm prentpressur og var með 24 manneskjur í vinnu. Hann flutti síðan árið 1798 í Østergade 54 og árið 1810 í nr. 72 í sömu götu. Um aldamótin 1800 var Poppska prentsmiðja orðin ein af þremur stærstu prentsmiðjunum í Kaupmannahöfn. Hinar voru Schultz og Seidelin.
Sonur Sebastians, Hartvig Frederik Popp, tók svo við af föður sínum 1815 og rak fyrirtækið til dd. 1829. Faðir hans hafði látist árið áður, svo ekkja Hartvig tók við og rak fyrirtækið í nokkur ár. Hún réð sem framkvæmdastjóra Johan Jørgensen Jomtu (1791-1866). Hann var lærður vefari og lögfræðingur, hafði verið leikari og stundað ritstörf. Þegar hann hætti hjá ekkjunni 1835 var prentsmiðjan afhent J. G. Salomon eins og segir í heimildinni, en Jørgensen keypti letursteypu prentsmiðjunnar, en gaf það líka upp á bátinn og snéri sér eftir þetta eingöngu að ritstörfum.
Bækur eru til úr prentsmiðjunni frá 1838 og er líklegt að þær séu með því síðasta sem prentað var þar. Nafn J. G. Salomons er á einni bókinni. Mörg af ritum danska málfræðingsins Rasmus Kristjáns Rasks (1787-1832) voru prentuð í Poppsku prentsmiðju, en Rask hafði sérstök tengsl við Ísland og hafði lært íslensku af bókinni Heimskringlu.
*Ekki er vitað fyrir víst hvenær Poppska prentsmiðja hætti en ekki er ólíklegt að það hafi verið um 1838 því ekki er hægt að finna bækur með hennar nafni eftir það ártal.
Prentsmiðja J. H. Schultz
Kaupmannahöfn (1661) 1783-
Árið 1783 keypti Johan Frederik Schultz (1756-1817) litla prentsmiðju í Kaupmannahöfn og byrjaði að gefa út bækur. Prentsmiðjan stækkaði ört og árið 1795 keypti hann Høpfners háskólaprentsmiðju en hún rakti aldur sinn aftur til 1661. Um 1800 var prentsmiðjan orðin sú stærsta í Kaupmannahöfn með tilheyrandi forlagi og bókaverslun.1Salmonsens Konversationsleksikon. 1915-1930 Christian Blangstrup, Johs. Brøndum-Nielsen og Palle Raunkjær. København: J. H. Schultz Forlagsboghandel.
Eftir að Johan Frederik dó rak ekkja hans fyrirtækið áfram og sonur þeirra, Jens Hostrup Schultz (1782-1849), yfirtók reksturinn 1821 og gaf fyrirtækinu það nafn sem það hefur síðan borið. 1868 tók fyrirtækið við prentun á Ríkisdagstíðindum og varð upp úr því stærsta prentsmiðja landsins. Fyrirtækinu var breytt í hlutafélag árið 1906 og varð brátt stærsta prentsmiðjan á Norðurlöndum með 150 manna starfsliði.2Petersen, Fr. Schausen lektor. 1951. Vor tids Leksikon: Bind 19, s. 97. Schultz. J. H. , Bogtrykkeri. Redigeret af Hansen, A.P. København: Aschehaug Dansk Forlag. J. H. Schultz stofnaði einnig bókaútgáfu og sérhæfði sig í útgáfu á stórum ritverkum og fékk útgáfuréttinn á Salmonsens Konversationsleksikon 1910 og gaf út í 25 bindum á árunum 1915-1930. Á stríðsárunum 1941-1943 gaf fyrirtækið út Sögu Danmerkur í 6 bindum.
Haldið var upp á 300 ára afmæli fyrirtækisins árið 1961. Sama ár var Ole Trock-Jansen (1923-) ráðinn ritari stjórnar, en hann var útlærður prentari frá Schultz en fór síðan í framhaldsnám til Stokkhólms, Englands og Bandaríkjanna. Fyrirtækið flutti til Møntergården í miðborg Kaupmannahafnar 1963 samtímis því að Ole Trock-Jansen var útnefndur tæknilegur forstjóri. Hann varð síðan framkvæmdastjóri 1967 og eignaðist þá meirihlutann í fyrirtækinu. Tíu árum seinna varð hann eini eigandi fyrirtækisins.3http://www.denstoredanske.dk/Kunst_og_kultur/Bog-_og_biblioteksv%C3%A6sen/Boghandel_og_forlag/Schultz
1986 var samsteypunni deilt upp í fjölda dótturfélaga í eigu Schultz Holding, sem aftur er eign Schultz-sjóðsins. Á þessum árum gekk fyrirtækið í gegnum miklar tæknibreytingar og fjárfesti í nýjum offsetprentvélum og tölvutækni. Møntergården var selt 1988 og fyrirtækið flutti til Valby. Til að tryggja þróunina innan samsteypunnar keypti Schultz fyrirtækið SynergiData árið 1996 og nokkru seinna nettæknifyrirtækið Dansk Internet Selskab. Árið 1998 fékk Schultz Norræna umhverfismerkið Svaninn og 2004 evrópsku umhverfisvottunina EMAS.
Síðustu ár hafa verið miklar breytingar innan dótturfélaga samsteypunnar og leitað meira inn á svið tölvutækni. Starfsmenn samsteypunnar voru um 250 árið 2007. Dótturfélagið Schultz Grafisk var yfirtekið af Rosendahl-samsteypunni 2009. Haldið var upp á 350 ára afmæli Schultz árið 2011.
Tilvísanir
1. | ↩ | Salmonsens Konversationsleksikon. 1915-1930 Christian Blangstrup, Johs. Brøndum-Nielsen og Palle Raunkjær. København: J. H. Schultz Forlagsboghandel. |
2. | ↩ | Petersen, Fr. Schausen lektor. 1951. Vor tids Leksikon: Bind 19, s. 97. Schultz. J. H. , Bogtrykkeri. Redigeret af Hansen, A.P. København: Aschehaug Dansk Forlag. |
3. | ↩ | http://www.denstoredanske.dk/Kunst_og_kultur/Bog-_og_biblioteksv%C3%A6sen/Boghandel_og_forlag/Schultz |