Johan Jørgensen Jomtu.

Johan Jørgensen Jomtu.

Poppska prentsmiðja

Kaupmannahöfn 1786-1838*

Árið 1786 stofnaði Sebastian Popp (1754-1828) prentari sína eigin prentsmiðju í Rosengaarden 115 í Kaupmannahöfn. S. Popp var frá Noregi en nam prentiðn í Kaupmannahöfn hjá J. R. Thiele. Prentsmiðja Popps hét á dönsku „det Poppska officin“ sem útleggst á íslensku: Poppska prentsmiðja. Hún dafnaði vel og Popp flutti með hana í eigið húsnæði 1791 í Stóra Fíólstræti 179. Fimm árum síðar átti hann fimm prentpressur og var með 24 manneskjur í vinnu. Hann flutti síðan árið 1798 í Østergade 54 og árið 1810 í nr. 72 í sömu götu. Um aldamótin 1800 var Poppska prentsmiðja orðin ein af þremur stærstu prentsmiðjunum í Kaupmannahöfn. Hinar voru Schultz og Seidelin.

Sonur Sebastians, Hartvig Frederik Popp, tók svo við af föður sínum 1815 og rak fyrirtækið til dd. 1829. Faðir hans hafði látist árið áður, svo ekkja Hartvig tók við og rak fyrirtækið í nokkur ár. Hún réð sem framkvæmdastjóra Johan Jørgensen Jomtu (1791-1866). Hann var lærður vefari og lögfræðingur, hafði verið leikari og stundað ritstörf. Þegar hann hætti hjá ekkjunni 1835 var prentsmiðjan afhent J. G. Salomon eins og segir í heimildinni, en Jørgensen keypti letursteypu prentsmiðjunnar, en gaf það líka upp á bátinn og snéri sér eftir þetta eingöngu að ritstörfum.

Bækur eru til úr prentsmiðjunni frá 1838 og er líklegt að þær séu með því síðasta sem prentað var þar. Nafn J. G. Salomons er á einni bókinni. Mörg af ritum danska málfræðingsins Rasmus Kristjáns Rasks (1787-1832) voru prentuð í Poppsku prentsmiðju, en Rask hafði sérstök tengsl við Ísland og hafði lært íslensku af bókinni Heimskringlu.

*Ekki er vitað fyrir víst hvenær Poppska prentsmiðja hætti en ekki er ólíklegt að það hafi verið um 1838 því ekki er hægt að finna bækur með hennar nafni eftir það ártal.