Magnús Stephensen.

Magnús Stephensen.

Leirárgarðar við Leirá

Leirársveit 1795-1814

Björn Gottskálksson (1765-1852) bókbindari keypti ásamt öðrum Hrappseyjarprentsmiðju árið 1793 og var hún flutt að Leirárgörðum 1795. Magnús Stephensen (1762-1833) var einn af eigendum hennar og náði þar fljótt yfirráðum enda bjó hann á Leirárgörðum á þessum árum.  Prentun þar stóð með mestum blóma á fyrstu árum starfseminnar, en síðan fór að dofna yfir henni upp úr aldamótunum. Hólaprentsmiðjan var sameinuð prentsmiðjunni 1799 og var því aðeins ein prentsmiðja starfrækt í landinu til ársins 1852 þegar Prentsmiðja Norður- og Austurumdæmisins var stofnsett á Akureyri.

Eitt af því sem prentað var í Leirárgarðaprentsmiðju 1809 voru fyrirmæli Jörundar Hundadagakonungs varðandi stjórn landsins. Ólafur Pálmason (1934-) mag.art. samdi ritgerð til meistaraprófs í íslenskum fræðum 1963, (vélritað eintak í vörslu Lbs-Hbs) um tímabil Magnúsar Stephensen ásamt skrá yfir bækur sem prentaðar voru að Leirárgörðum frá upphafi 1795 og þar til Magnús féll frá 1833.

Árið 1814 var prentsmiðjan að Leirárgörðum flutt að Beitistöðum. Ástæðurnar voru margar. Ein var sú að prentsmiðjuhúsið á Leirárgörðum hrundi vegna flóða í Leirá. Önnur var gengisfall dönsku krónunnar og því erfið staða að flytja prentsmiðjuna til Viðeyjar. Þess vegna var ákveðið að byggja nýtt prentsmiðjuhús á Beitistöðum þar sem prentarinn Guðmundur Skagfjörð átti heima. Þriðja ástæðan var sú að Guðmundur vildi ekki fara af jörð sinni þar sem hann var með búskap því hann var líka bóndi, en hafði prentstörfin í hjáverkum eins og títt var á þessum tíma.

Guðmundur var mikils metinn prentari, átti langan starfsaldur í sinni grein, en hann starfaði í 60 ár við prentun, m.a. á Hólum, Hrappsey og Kaupmannahöfn – og var yfirprentari í Leirárgörðum og í Viðey. Hann var því einn af merkustu frumherjum íslenskrar prentlistar.