Ellert Ágúst Magnússon:

Ég hafði aldrei áður komið inn í prentsmiðju



Eins og hjá flestum unglingum sem luku barnaskólaprófi um sama leyti og ég (1927) var ekki um auðugan garð að gresja með atvinnu. Það sem bauðst var fiskbreiðsla að sumri þegar sólin skein (tímakaup minnir mig að verið hafi 25 aurar) eða sveitavinna þar sem unglingurinn var næstum eingöngu matvinnungur. Fjórtán ára komst ég að hjá kaupmanni sem sendisveinn og innanbúðarmaður. En hugur minn stóð til þess að verða trésmiður. Ástæða þess var aðallega sú að tvo síðustu vetur mína í barnaskólanum var kennd þar smíði og kennarinn Guðjón Guðjónsson, síðar skólastjóri, var ötull og skemmtilegur og kveikti áhuga okkar drengjanna á trésmíði og a.m.k. þrír bekkjarbræður mínir urðu síðar ágætir húsgagnasmiðir. Smávegis athuganir voru gerðar á því hvort unnt myndi að fá nemapláss fyrir mig í trésmíði en án árangurs.

Svo er það einn dag um það leyti sem dagblaðið Vísir kom úr prentun að ég er kominn að dyrum prentsmiðjunnar ásamt félaga mínum sem sendur hafði verið til að kaupa blaðið fyrir starfsfólk fyrirtækisins sem hann var sendill hjá. Þegar við flettum blaðinu rákumst við á auglýsingu frá Félagsprentsmiðjunni þar sem óskað var eftir nemanda. Kunninginn lagði fast að mér að fara upp á skrifstofuna og leita upplýsinga. Þegar þangað kom var ég leiddur fyrir prentsmiðjustjórann Steindór heitinn Gunnarson. Hann spurði mig nokkurra spurninga sem ég svaraði greiðlega en að því búnu fékk hann mér bók, blað og skriffæri og bað mig skrifa svo sem þrjár línur upp úr bókinni. Með þessu einfalda prófi gekk Steindór úr skugga um það að ég var bæði læs og skrifandi. Síðan sagði hann mér að spyrja foreldra mína hvort þau væru samþykk því að ég lærði prentverk og að fengnu samþykki þeirra skyldi ég ræða aftur við sig. Þetta gekk allt eftir, faðir minn og móðir voru mjög fegin þessu framtaki mínu og ég ræddi síðan aftur við Steindór.

Ég var svo ráðinn til prentnáms til reynslu í þrjá mánuði og nám mitt hófst í Félagsprentsmiðjunni 1. maí 1928. Sá dagur er mér ævinlega minnisstæður. Ég hafði aldrei áður komið inn í prentsmiðju og þekkti því ekkert til starfa þar og því síður vissi ég hvernig störf skiptust. Skrifstofustúlkan spurði mig að því að morgni þessa fyrsta dags hvort ég ætti að læra í setjarasal eða vélasal en ég gat ekki svarað því þar sem ég þekkti ekki muninn. Mér var svo vísað til verkstjórans í setjarasal, Þorvaldar Þorkelssonar, og honum sagt að ég væri nýr nemi. Hann leiddi mig að stórum leturkassa og sýndi mér hvernig hástöfum, lágstöfum, tölustöfum og greinarmerkjum var raðað íhann. Því næst fékk hann mér leturhaka og handrit, sýndi mér rétt handtök og sagði mér að „læra á kassann“, það er að segja læra niðurröðun letursins í hann. Við þessa iðju leið dagurinn svo fljótt að ýta varð við mér þegar vinnu skyldi hætt.

Um verknámið mætti segja að hefðin væri sú að þar næmi hver af öðrum, yngri nemar af eldri nemum og þeir af sveinunum en verkstjórinn leiðbeindi og var ávallt reiðubúinn með holl ráð og leiðréttingar. Um Þorvald Þorkelsson yfirprentara má með sanni segja að hann var snillingur í verkstjórn og notaði ævinlega þá aðferð að biðja menn að gera þetta eða hitt eins og um greiða við hann væri að ræða. Náminu vatt vel fram því að töluverð keppni og metingur var milli nemanna, var þar bæði um að tefla flýti í setningu miðað við línufjölda við ákveðið tímamark og vinnuvöndun, áferð leturflatar, ekki of gleitt né þétt milli orða í línu og einnig voru villur taldar o.s.frv.

Það kom í ljós þegar ég kynntist nemum í öðrum prentsmiðjum að ráðning mín og Jóhannesar hafði brotið hefð sem virðist hafa verið ráðandi í vali prentnema, nefnilega sú að þeir höfðu flestir verið sendisveinar í prentsmiðjunum í ár eða svo áður en þeir urðu nemar. Það sýndist líka vera regla í Félagsprentsmiðjunni og víðar að yngsti neminn væri eins konar varasendill og rukkari. Þetta fannst mér ljúf kvöð því að þá var maður frjáls um stundu og úti við, hitti vinina á förnum vegi o.s.frv. Að vísu fékk ég ávítur ef ferðin hafði dregist á langinn sem stundum kom fyrir. Mest voru þetta sendiferðir með prófarkir vítt og breitt og gjaldkeri prentsmiðjunnar stakk þá stundum á mann tveimur eða þremur reikningum um leið „til að nota ferðina“. Reikningunum fylgdi sú leiðbeining „að vera ýtinn en kurteis“. Mér þótti ævinlega leiðinlegt að rukka, fannst sá starfi næstum eins og betl.

Talsvert var handsett af beinu lesmáli í Félagsprentsmiðjunniá námsárum mínum auk þess sem allt letur sem stærra var en meginmál blaða og tímarita var sett úr lausaletri. Prentsmiðjan átti og notaði þrjár setningarvélar af Linotype-gerð til setningar á Vísi, öðrum blöðum, tímaritum og bókum. Vélar þessar voru á mismunandi aldri, sú elsta var fyrsta vélin sem til Íslands kom, svokölluð Rúnar-vél, en hún hafði aðeins 14 stafi í „magasíni“ en hinar höfðu 20 stafi. Yngsta vélin var tiltölulega ný. Vélsetjarar voru sex og unnu á tvískiptum vöktum, dagvakt frá kl. 8–17 og kvöldvakt frá kl. 17–24.

Þegar þriggja mánaða reynslutíma mínum var lokið kom dálítið babb í bátinn. Ég hef víst verið stór og þroskaður eftir aldri og Steindóri prentsmiðjustjóra hafði láðst að spyrja um aldur minn en ég var aðeins 15 ára þegar reynslutíma lauk. En svo vildi til að HÍP var nýlega farið að ganga eftir því að enginn byrjaði í prentnámi nema orðinn væri fullra 16 ára. Það varð að samkomulagi milli okkar Steindórs að þegja um aldur minn og námssamningurinn var gerður og hljóðaði upp á 4 ½ árs nám í setningu.

Það var einnig regla á þessu tímabili að ekki mátti taka nýjan lærling í prentverki nema þegar sveinn útskrifaðist. Samkvæmt þessari reglu vorum við ráðnir tveir nemar í setningu í Félagsprentsmiðjunni með hálfs árs millibili, Jóhannes heitinn Jóhannesson og ég. Það varð okkar starf á námstímanum að annast setningu auglýsinga í Vísi (aðrar en smáauglýsingar), setja fyrirsagnir, sjá um umbrot blaðsins og koma síðan fullbúnum síðunum niður í prentsalinn í pressuna. Keppst var við að ljúka frágangi blaðsins fyrir kl. 1 e.h.. Vísis-prentvélin var hæggeng og handílögð en tvær konur önnuðust ílagningu blaðsins þann tíma sem ég þekkti til, Jakobína Benediktsdóttir oftast nær og Súsanna Ásgeirsdóttir, þegar hin var forfölluð eða í fríum. Að lokinni prentun Vísis voru letursíðurnar þvegnar úr sápulút og ef þetta var vandlega gert var ekki mikill skítur eða prentsverta á letrinu. En heldur þótti okkur óþrifalegt verk „að leggja blaðið af“.

Ritstjórar Vísis á þessum árum voru Páll Steingrímsson og Baldur Sveinsson en þeir voru báðir snjallir og góðir íslenskumenn. Þó höfðu báðir ýmsar sérviskur um réttritun og man ég t.d. að annar vildi rita hef og hefur, Landspítali og Landsími, en hinn taldi réttara að rita hefi og hefir, Landsspítali og Landssími og fleira var þessu líkt sem vildi koma niður á prófarkalestri. Ýmsir voru aðstoðarmenn þeirra og man ég best eftir Magnúsi Björnssyni náttúrufræðingi og Axel Thorsteinsson sem var mjög lengi viðloðandi Vísi og ritaði margt í blaðið. Margir voru fastagestir hjá ritstjórunum en meðal þeirra voru skáld og listamenn sem bæði skröfuðu við ritstjórana og skrifuðu í Vísi. Þeirra á meðal var Jóhannes Sveinsson Kjarval og Jón Magnússon skáld. Einn aðaleigandi blaðsins, Jakob Möller, birtist stundum þegar mikið virtist liggja við í pólitíkinni. Jón Sigurpálsson var auglýsingastjóri Vísis, duglegur maður og háttvís. Þegar mikið var af auglýsingum var hann vanur að segja: „Gott blað í dag“. En þá var lesmál kannski ein síða eða svo.

Mér fannst ritstjórarnir ekki vera „sensasjóns“-blaðamenn og var að reyna að koma því til leiðar að stækka letrið í fyrirsögnum greina en ritstjórarnir aftóku slíkt. Svo gerðist atburður sem ég hélt að myndi verða „slegið upp“ á síðum Vísis, sem var fyrstur með þá frétt: Maður hafði verið myrtur í Reykjavík. Ég gerði mér í hugarlund hvernig fyrirsögn slíkrar fréttar myndi hljóða og fannst sjálfsagt að hún yrði yfir þvera blaðsíðuna. En þegar ritstjórarnir höfðu velt þessu máli fyrir sér og tekið ákvörðun kom fyrirsögnin og var aðeins eitt orð: Slys, og fréttin sjálf var svo sem hálfur dálkur lesmáls.

Við setningu auglýsinga í Vísi reyndum við að sjálfsögðu að vanda okkur og fara sem best að óskum viðskiptamanna. Auglýsingum fylgdu oft fyrirmæli um gerð þeirra og jafnvel á stundum teikning. Til dæmis um þetta man ég að frá Hljóðfærahúsinu hljóðuðu fyrirmælin á þessa leið á dönsku: „fede kraftige typer og bred, sort ramme“. Kvikmyndahúsin tvö, Gamla Bíó og Nýja Bíó, fylgdust nokkuð nákvæmlega með sínum auglýsingum. Ólafur Jónsson sýningarstjóri sá oftast um auglýsingar Nýja Bíós en hann var sérlega kátur og skemmtilegur maður. Gamla Bíó sendi sínar auglýsingar yfir götuna og var jafnan rækilega tekið fram um stærð þeirra í sentímetrum. Ef okkur varð það á að gera þær stærri en fyrirmælin sögðu til um þá kallaði Bíó-Petersen okkur setjarana „sentimetra-þjófa“ og þótti okkur það illt viðurnefni. Auglýsingar bíóanna voru oftast eindálka en þó var brugðið út af því þegar stórmyndir voru sýndar. Eitt var það fyrirtæki sem ég man sérstaklega eftir að auglýsti drjúgt í Vísi á þessum árum en það var Þórður Sveinsson & Co. Það hafði m.a. umboð fyrir Teofani-sigarettur og auglýsti þær o.fl. Ég lagði mig fram um að gera þessu fyrirtæki til hæfis en það launaði með því að senda okkur Vísis-setjurum tvisvar sinnum 5 kg. poka fullan af appelsínum. Það voru kátir piltar sem útdeildu þessu góðgæti milli setjaranna.

Vinnutími var átta stundir sex daga vikunnar. Matartími var ein klukkustund um hádegi, kl. 12–13, en kaffitímar voru engir á námstíma mínum. Við Jóhannes, sem unnum við umbrot Vísis, gátum þó ekki farið í mat fyrr en blaðið var komið í pressuna. Að þessu var náttúrulega mikið óhagræði, ekki síst fyrir mæður okkar sem þurftu að bíða með hádegismatinn til kl. 13.30 eða lengur. Um þetta var þó lítið fengist og við litum á þetta eins og hverja aðra kvöð sem við yrðum að hafa nauðugir viljugir. Stimpilklukka var í prentsmiðjunni sem mældi vinnutímann og ef frávik var meira en 25 mínútur frá réttum vinnutíma var það dregið frá kaupi. Óhætt mun að fullyrða að við nemarnir höfðum verið prentsmiðjunni ódýr vinnukraftur því að kaupið var mjög lágt og ég held að enginn hefði getað fleytt fram lífinu á því hjálparlaust. Flestir þeir nemar sem ég var kunnugur voru í heimili foreldra sinna og höfðu þar mat og húsaskjól. Fyrsta ár mitt í námi hafði ég í kaup 20 kr. á viku, annað árið 30 kr. á viku, þriðja árið fékk ég greiddar 40 kr. á viku, á fjórða námsárinu var kaupið orðið 50 kr. á viku og síðasta hálfa árið voru mér greiddar 52 kr. á viku. Mig minnir að sumarleyfi hafi verið 6 virkir dagar, a.m.k. síðari árin. Eins er um borgaða veikindadaga, ég held þeir hafi verið samningsbundnir tólf dagar á ári. Ég var alvarlega veikur í tvo mánuði á fjórða ári námstímans og var mér þá sent kaupið heim vikulega en því miður man ég ekki nú hve lengi það var en það mun þó hafa verið lengur en samningar gerðu ráð fyrir. Þótt prentsmiðjustjórinn, Steindór Gunnarsson, héldi sig nokkuð stíft við skráða samninga og vildi halda uppi góðum aga var hann drengur góður og hjálpsamur ef til hans var leitað eða hann taldi hjálpar þörf.

Jafnframt verklega náminu í prentsmiðjunni stundaði ég nám í bóklegum greinum og teikningu í Iðnskólanum í Reykjavík. Hann var á þessum tíma eingöngu kvöldskóli og námstíminn var fjögur ár. Kennslan stóð mánuðina október og fram til loka aprílmánaðar. Skólatíminn hófst kl. 18 og stóð til kl. 21 og 22 sex daga vikunnar svo að þetta var langur og strangur vinnudagur að vetrinum, frá kl. 8 að morgni til kl. 9 eða 10 að kvöldi. Vinnu í prentsmiðjunni lauk kl. 17 svo að við höfðum aðeins eina klukkustund til að fara heim, snyrta okkur, skipta um föt og komast í Iðnskólann í Lækjargötu. Námsgreinar voru þessar; íslenska, málfræði og réttritun, reikningur, danska, teikning, flatarmálsteikning og fríhendisteikning sem við prentnemarnir höfðum þar sem engin iðnteikning var þá kennd í okkar grein. Með okkur prentnemunum í fríhendisteiknitímunum voru einnig aðrir nemar sem eins var ástatt svo sem bókbindarar og bakarar. Trésmiðir og járnsmiðir fengu hins vegar rúmmálsteikningu og aðra teikningu sem þeirra störfum tilheyrði. Á fjórða ári var einnig kennt ágrip af eðlis- og efnafræði. Námsgeta manna var mjög misjöfn og einnig aldursdreifing þar sem hinir yngstu á fyrsta ári voru 16 ára en þeir elstu 20–22 ára. Námsefni í íslensku, reikningi og dönsku var í fyrsta bekk miðað við algert byrjunarnám eða upprifjun frá síðustu bekkjum barnaskóla. Kennarar voru þessir; íslenskukennari minn var alla veturna Sigurður Skúlason magister, reikningskennari á fyrsta vetri var Sigurður Sigurðsson frá Kálfafelli en hina þrjá Finnur Thorlacius, síðar bóksali, flatarmálsteikningu kenndi Sigurður Ólason verkfræðingur en fríhendisteikningu kenndi listamaðurinn Björn Björnsson en eðlis- og efnafræði kenndi skólastjórinn, Helgi H. Eiríksson.

Á þeim sjö árum sem ég starfaði í Félagsprentsmiðjunni var hún ein stærsta prentsmiðja landsins og raunar lengi þar á eftir. Steindór Gunnarsson hafði mikinn metnað í sambandi við prentverkið og vildi veg Félagsprentsmiðjunnar sem mestan. Hann keppti að fjölbreytni í vélum og tækjum eftir því sem efni og tækifæri gáfust til. Hann innleiddi fyrstur gerð gúmmístimpla hér á landi og var fyrirtækið einrátt á því sviði um langt skeið. Sömuleiðis keypti hann til prentsmiðjunnar litla vél sem prentaði og bjó til sigli. Mótin fyrir siglin varð að grafa í stál, var það erfið og vandasöm vinna sem Björn Halldórsson leturgrafi annaðist. Þá keypti Steindór einnig til prentsmiðjunnar svokallaða strikunarvél sem prentaði höfðubókarform og aðrar stórar bækur fyrir bókhald, eins og það var fært á þeim tíma. Sérstakur farvi var notaður í þessa vél sem leystur var upp í spíritus. Áhersla var lögð á vöndun smáprents (axidens) og var einn setjari alla daga við setningu þeirra verka eingöngu Axel M. Ström, sænskur að uppruna en hafði verið jafn lengi í þrem löndum, Svíþjóð, Danmörk og á Íslandi, 16 ár í hverju landi þegar við störfuðum saman. Hann þótti smekkvís og vandvirkur og lærðum við nemarnir margt af reynslu hans en við vorum honum oft til aðstoðar.

Eins og nærri má geta um svo stóran og fjölmennan vinnustað sem Félagsprentsmiðjuna voru verkefni þar mjög fjölbreytt, mörg blöð og tímarit og margar bækur prentaðar ár hvert. Við nemarnir unnum að sjálfsögðu við þessi verk, fyrst undir handleiðslu verkstjórans og sveina en einnig sjálfstætt snemma á námstímanum. Til gamans vil ég geta þess að á einni viku eða svo voru prentuð fjögur blöð pólitískra flokka í Félagsprentsmiðjunni. Auk Vísis voru þetta blað bændaflokksins, ritstjóri þess var Arnór Sigurjónsson, Verkalýðsblaðið, en útgáfu þess stjórnaði Brynjólfur Bjarnason og loks blað þjóðernisflokksins, Íslensk endurreisn, en Gísli Sigurbjörnsson og félagar ritstýrðu því. Aðskotaritstjórarnir höfðu ekki aðstöðu í ritstjórnarherbergi heldur urðu þeir að hýrast við borð og púlt hist og her í setjarasalnum.

Nokkru eftir að ég hafði lokið námi bar það til tíðinda að prentsmiðjan eignaðist nýjan nótnastíl (músík), tvær stærðir svokallaðs Leipzigerstíls. Fram að þeim tíma var slíkur stíll aðeinst til í einni prentsmiðju á Íslandi, Gutenberg. Hann var ættaður úr prentsmiðju Östlunds og voru þær nótur því orðnar gamlar og slitnar og auk þess ekki taldar eins stílfagrar og Leipzieger-gerðin. Nótnasetjarar í Gutenberg höfðu verið tveir, Pétur Lárusson, síðar skrifstofustjóri Alþingis, og Kristmundur Guðmundsson. Enginn setjaranna í Félagsprentsmiðjunni kunni að setja nótur þegar þetta gerðist og var þess farið á leit við mig að ég lærði nótnasetningu. Ég hafði lítið vit á tónlist og var því hikandi í svari mínu en fyrir áeggjan og með hjálp Einars Jónssonar verkstjóra í vélasal Félagsprentsmiðjunnar, sem jafnframt var áhugasamur tónlistarmaður, játaði ég þessu óvenjulega boði. Ég varð náttúrulega að fara í nám varðandi lestur nótna og undirstöðuatriði í músík. En sjálfa nótnasetninguna lærði ég svo með aðstoð Péturs Lárussonar en hann var mjög önnum kafinn maður og varð feginn þegar hann sá að ég gat unnið þetta á eigin spýtur. Mest voru það nótur fyrir einsöngslög sem ég setti fyrst í stað. Eina bókin sem ég setti úr nótnastílnum var Messusöngbók Þjóðkirkjunnar og veit ég ekki betur en hún sé enn notuð. Höfundar hennar voru Sigfús Einarsson organisti og tónskáld og Sigurður Sívertsen prófessor. Ferli mínum sem nótnasetjara lauk er ég flutti mig í Steindórsprent seinni hluta árs 1934 þegar Steindór Gunnarsson stofnaði það fyrirtæki ásamt Kristjáni A. Ágústssyni setjara, Einari Jónssyni prentara o.fl.. Við nótnasetningu í Félagsprentsmiðjunni tók þá Árni Guðlaugsson.

Mér er það sérstaklega minnisstætt við þessi vistaskipti að Steindór hafði siglt til Kaupmannahafnar til að afla sér fanga í nýju prentsmiðjuna. Hann hafði þá m.a. keypt nýjar leturgerðir sem þá voru ekki til hér og orðið að greiða sérstaklega fyrir smíði íslensku stafanna sem hafði verið nokkuð dýrt. Kaupmaðurinn hafði fullyrt að Steindórsprent yrði eina prentsmiðjan á Íslandi sem ætti þessar leturgerðir. Vonbrigði Steindórs urðu því mikil þegar í ljós kom að tvær aðrar prentsmiðjur fengu þessi letur um leið og hann.

Steindórsprent hóf starfsemi sína í Aðalstræti 4 en þar hafði nánast veri byggt yfir port og var hár veggur út að Aðalstræti látinn halda sér. Var þessi bygging á einu gólfi og að mörgu leyti hagkvæm. Fyrsta árið voru eingöngu unnin smáverk (axidens: tilföll) og ýmis smárit og blöð sem allt var handsett. En í maímánuði 1935 eignaðist prentsmiðjan sína fyrstu setningarvél sem var af Intertype-gerð en aðeins ein vél af þeirri gerð var þá til hér á landi, í Acta. 21. maí 1935 settist ég fyrst við þessa vél og hófst þá sá hluti starfsferils míns sem stóð óslitið til 1. júlí 1985, eða í hálfa öld, en alls starfaði ég við prentverk í 57 ár. Af þessum 50 ára vélsetjaratíma gekk ég vaktir í 15 ár, það var dagvakt 8 tímar kl. 8–17 og kvöldvakt kl. 17–24. Reyndar höfðum við þá reglu um mörg ár að kvöldvaktarmaður vann í hádegistímanum til að stytta kvöldvaktina til kl. 23. Það segir sig sjálft að þessi vaktavinna skapaði margt óhagræði bæði fyrir heimilin og mennina sjálfa, m.a. gagnvart félagslífi og sambandi við kunningja. Á kvöldvakt varð að hafa með sér nestisbita og kaffi eða annan drykk en til þess að neyta þess voru ætlaðar 20 mínútur um kl. 20. Mjög urðu menn leiðir á þessu bitasnarli og kaffibrúsanum enda var lengi vel engin kaffistofa eða matstaður í prentsmiðjunum og urðu menn því að neyta nestis síns hver í sínu horni.

Svo dró til þeirra tíðinda í Steindórsprenti að prentsmiðjan tekur að sér að prenta Alþýðublaðið um eins árs skeið meðan verið væri að reisa Alþýðuhúsið við Hverfisgötu 8–10. Fluttu þá fimm setjarar Alþýðuprentsmiðjunnar í Steindórsprent og höfðu með sér Typograph-setningarvél (þýsk), fyrirsagnaletur mörg, reóla (púlt) undir þau og margt annað. Urðu mikil umskipti í Steindórsprenti við þessa flutninga og prentun Alþýðublaðsins, áður var allt svo hreint að hægt hefði verið að klæðast hvítum slopp, en nú varð allt skyndilega vaðandi í skít og prentsvertu. En Alþýðublaðinu fylgdi líka mikið líf, bæði í prentverkinu og félagslega. Finnbogi Rútur Valdimarsson var ritstjóri og hann var ekki spar á að nota stór letur í fyrirsagnir og undirtitla og nú fékk ég að kynnast þeirri blaðamennsku sem ég vildi sjá í Vísi á námsárunum.
Þetta ár Alþýðublaðsins og starfsfólks þess í Steindórsprenti leið ótrúlega fljótt en þegar blaðið og fólkið flutti aftur til síns heima með sín tæki, letur og tól, var bókstaflega eins og dottið hefði bylur af húsi og hálfgerður tómthússvipur var yfir öllum. Það tók mánuði áður en Steindórsprent hafði aftur náð áttum. Margvíslega reynslu höfðum við öll hlotið, bæði fyrirmenn og starfsfólk, sumt var gott annað miður eins og gengur.

Eitt af því sem mér þótti skemmtilegt var að við komu Alþýðublaðsmanna voru ortar vísur af ýmsu tilefni, lausar við stríðni eða kerksni eins og verið hafði í Félagsprentsmiðjunni. Ég læt fylgja sem dæmi um þetta vísur sem sendar voru stúlku í prentsmiðjunni er hún lagðist í lungnabólgu:

Er hún lögst, hún litla Svana,
ljóðin dvína, ríkir sorg,

og við þráum allir hana

aftur hér í vora borg.

(Höf. Þorsteinn Halld.)



Láttu þér ekki í lífsins hryðjum

leiðast, en kipptu öllu í lag,

svo að ég á morgni miðjum

meyjunni bjóði: Góðan dag.

(Höf. Meyvant Ó. Hallgr.)



Liggur í rúmi lágt

litli Svanninn minn.
Í brjósti sínu á bágt,

blaut af tárum kinn.



En batinn kemur bráðum,

bros á rjóðri kinn

þá heimti ég úr helju

hvíta Svaninn minn.

(Höf. E. Ág. Magnúss.)

En nokkuð var það að Svana litla fékk aftur góða heilsu og Steindórsprent reis aftur úr öskustónni, stór föst verk fylltu tómarúmið sem skapast hafði, m.a. blaðið Vikan sem var eitt fyrsta blað hér á landi sem kom út litprentað. Viðskiptaskráin o.fl.

Eins og alkunna er skiptist prentgreinin í upphafi þessarar aldar í tvennt; setjara og prentara, en fram eftir öldinni voru einstaka menn sem kunnu og störfuðu við hvora tveggja greinina jöfnum höndum. Þessir menn voru oft nefndir „Svissarasverð“ (tvíeggja mun það merkja). Og a.m.k. er dæmi um einn slíkan fram á áttunda áratuginn; Guðbjörn Guðmundsson. Með komu fyrstu setningarvélarinnar í Rún verður til þriðja greinin; vélsetjarar. Setningarvélin var talin afkasta verki 3–4 handsetjara og mætti því andúð þeirra og ótta við atvinnuleysi. Í krafti þessara röksemda tókst HÍP að fá í samninga hærra kaup fyrir vélsetjara en hinar greinarnar. Þegar ég gerðist vélsetjari var námstími þessa nýja starfs 26 vikur og átti að skila á prófi ákveðnum línufjölda miðað við klukkustund en frá drógust línur sem villur voru í. Handrit skyldi vera auðlesið og greitt. Í mínu tilviki voru prófdómarar verkstjórinn í setjarasal og prentsmiðjustjórinn. Á þessum tíma (1936) var mismunur milli kaupsins þessi: Handsetjarar og prentara um 80 kr. á viku en vélsetjarar um 90 kr. á viku. Með tilkomu Alþýðublaðsvélsetjaranna hækkaði kaup okkar í Steindórsprenti um 5 kr. á viku til samræmis við yfirgreiðslu sem hinum fyrrnefndu var greidd. Þessi kaupmunur í prentarastétt stóð fram undir 1960 en eftir það þurrkaðist hann út á tiltölulega skömmum tíma. Til samanburðar við þetta kaup má geta þess að tveggja herbergja íbúð sem ég leigði á þessum tíma (1936) kostaði 90 kr. á mánuði og hitunarkostnaður hennar (kol) var til jafnaðar um 12 kr. á mánuði. Ég var síðan vélsetjari í Steindórsprenti þar til í maímánuði 1943.

Eftir harða vinnudeilu á árinu 1942 hafði komið talsvert los á mannskapinn í prentsmiðjunum. Verkefni höfðu aukist víðast hvar og eftirspurn eftir vinnuafli fylgdi í kjölfarið. Ein þeirra prentsmiðja sem auka vildi við starfslið sitt var Víkingsprent en aðaleigandi þess var Ragnar Jónsson í Smára. Þjóðviljinn var prentaður þar en Ragnar vildi auka bókaútgáfu sína. Ég fékk tilboð um vinnu í Víkingsprenti á talsvert hærra kaupi en almennt var greitt og auk þess fimm þúsund króna greiðslu fyrir vinnustaðaskiptin. Þetta var freistandi boð sem ég átti erfitt með að neita enda treystist Steindór Gunnarsson ekki til að greiða mér þau laun sem ég vildi fá ef ég yrði kyrr í Steindórsprenti. Þegar í Víkingsprent kom varð mér ljóst að þar voru setjarar nýbyrjaðir á svipuðum kjörum og ég hafði fengið.

Þessa mánuði í Víkingsprent vann ég eingöngu að setningu bóka ásamt öðrum setjara þótt fyrir kæmi að ég gripi í setningu Þjóðviljans í forföllum vélsetjara hans. Í einu slíku tilviki upplifði ég skemmtilegt atvik. Þegar ég kom til aðstoðar var aðeins einn vélsetjari af þremur á staðnum og hjá honum lá bunki af handritum. Ég bað félagann að skipta handritunum milli okkar en þau voru mjög misjafnlega greinileg, sum vélrituð en flest handskrifuð. Hann gerir þetta samviskusamlega en að lokum lætur hann í minn hlut handrit sem mikil fljótaskrift var á en með þessu ætlaði hann að reyna í mér þolrifin. Ég sá strax að þetta var handrit eftir leiðarahöfund blaðsins, Sigfús Sigurhjartarson, en hafði þó ekki orð á þessari vitneskju. Ég hafði sett margar greinar eftir Sigfús meðan hann var leiðarahöfundur Alþýðublaðsins (1936) og þekkti því vel galdurinn í stíl hans og skrift. Við kepptumst við vinnuna án þess að ræðast við uns um hægðist og setningu blaðsins var lokið. En um það leyti kom Sigfús Sigurhjartarson með próförk af grein sinni og sagði: „Svona á að hafa þetta, skrifa nógu andskoti illa og þá fær maður þetta villulaust“ en félagi minn varð heldur lágkúrulegur við þessi orð Sigfúsar.

Eins og fram kemur í ritinu Bókagerðarmenn – Prentarar hætti ég í Víkingsprenti til þess að gerast einn af stofnendum Prentsmiðjunnar Odda hf. ásamt Baldri Eyþórssyni og Björgvini Benediktssyni. Þetta er þó ekki nema hálfsögð sagan því að bæði voru stofnendur Odda fleiri og auk þess er af eðlilegum ástæðum ekki getið forsögunnar að stofnun prentsmiðjunnar. Árið 1943 er Finnbogi Rútur Valdimarsson formaður Menningar og fræðslusambands alþýðu (eldra félagið) sem hafði töluverða útgáfu með höndum. Hugmynd Finnboga Rúts mun hafa verið að auka þessi umsvif og hann vildi jafnframt að MFA ætti sína eigin prentsmiðju. Af sinni alkunnu framkvæmdasemi keypti hann því til landsins prentvél, setningarvél og letur í þessu skyni. En svo kom babb í bátinn því að meðstjórnendur hans í MFA munu ekki hafa viljað samþykkja þessi kaup. Finnbogi Rútur varð því að fjármagna þetta sjálfur ásamt nokkrum vinum sínum í Alþýðuflokknum sem sumir urðu svo eins og hann stofnendur Prentsmiðjunnar Odda hf. ásamt okkur þremur áðurnefndum prenturum. Þeir sem ég man að nefna í þessu sambandi voru; Finnbogi Rútur Valdimarsson, Arngrímur Kristjánsson skólastjóri, Adolf Björnsson bankamaður, Jón Magnússon kaupmaður, Sigvaldi Kristjánsson kennari og Skúli Árnason hagfræðingur. Tiltölulega fljótt keyptum við prentararnir þrír hluti þessara manna og áttum þannig hver um sig einn þriðja hlut í Prentsmiðjunni Odda hf. ásamt eiginkonum okkar.

Það var með áðurnefndum vélum, letrum og tækjum sem Finnbogi Rútur Valdimarsson hafði keypt sem Prentsmiðjan Oddi hóf starfsemi sína í afstúkuðu horni í Vesturenda listasafnshúss Ásmundar Sveinssonar að Freyjugötu 41 en hann var þá skilinn við fyrri konu sína, Gunnfríði, og bjó hún ein í íbúð þeirra. Þetta afstúkaða pláss sem við höfðum mun hafa verið með því allra ófullkomnasta húsnæði sem prentsmiðja hefur starfað í og hafa þó kompurnar margar verið lélegar. Fyrir framan það var listaverkasalurinn sjö metrar undir loft, fullur af listaverkum Ásmundar og lítið eða ekki upphitaður. Þarna var prentsmiðjan þó starfrækt í nærri tvö ár, þar til flutt var að Grettisgötu 16. —Starfssögu Prentsmiðjunnar Odda rek ég ekki nánar þar sem hún mun hafa komið út á prenti og er því aðgengileg.

Ég starfaði síðan í Prentsmiðjunni Odda hf. sem eigandi og einn af stjórnarmönnum þar til á árinu 1950 að ég þurfti af persónulegum ástæðum að selja minn hlut. Fór ég þá sem vélsetjari í Leiftur í 5 ár og vann einnig í Borgarprenti í eitt ár. En réðst þá aftur til Odda og starfaði þar óslitið til 1979 að ég fór sem vélsetjari í Hagprent hf. og starfaði þar síðustu 5 ár starfstíma míns og þar með lauk hinni löngu og óslitnu starfsævi minni við prentverk.

Þegar horft er til baka stendur það upp úr og er þakkarvert að prentverkið hefur veitt mér og mínum sæmilegt lífsviðurværi og hamingjuríkt líf en við eignuðumst átta börn og komum þeim til manns ásamt fóstursyni. Það er engum efa undirorpið að HÍP og ötul forysta þess um marga áratugi í íslenskri verkalýðsbaráttu á mikinn þátt í þessu. En það helgast þá af fórnfýsi og félagshyggju margra manna sem eyddu ómældum frístundum sínum í störfin fyrir bættum hag prentarastéttarinnar. Ekki aðeins fyrir mannsæmandi launum heldur einnig greiðslum í veikindum (HÍP stofnaði fyrsta sjúkrasamlag á Íslandi), auknu sumarleyfi, bættum aðbúnaði á vinnustað og styttri vinnutíma. En aukið orlof og stytting vinnutímans kölluðu líka á nýja þætti félagsstarfsins; kaup á landi til orlofsdvalar og byggingu sumarhúsa en HÍP varð einnig fyrst félaga hér á landi á þessu sviði (1941) og það sama ár eignaðist HÍP sitt fyrsta félagsheimili, Hverfisgötu 21.

Mér finnst mjög mikilvægt í mínu lífi að hafa fengið tækifæri til að vinna að þessum málum um áratugi við hlið mér eldri og reyndari manna framan af sem lögðu grunninn að því sem síðar varð og stéttin býr enn að. Meðal þess er Lífeyrissjóður prentara en ég var formaður HÍP þegar sá langþráði draumur rættist og í stjórn hans á annan áratug og bý nú við þau laun sem hann getur veitt. Þótt öll þessi störf væru ólaunuð vildi ég ekki hafa farið á mis við þann lærdóm og þroska sem þau veittu mér jafnt í blíðu og stríðu.

Á hinum síðari árum hefur mér oft orðið hugsað til orða sem greind kona lét falla við móður mína þegar hún frétti að ég væri ráðinn í prentsmiðju; „þetta er eins og að fara í menntaskóla“. Þessi orð munu spegla það álit sem fólk hafði á prentarastéttinni og Hinu íslenska prentarafélagi 1928. Sjálfum finnst mér nú og raunar ávallt að náið samstarf við marga af bestu rithöfundum og skáldum þjóðarinnar, ritstjórum, fræðimönnum og öðrum viðskiptavinum prentsmiðjanna sem ég hef starfað við hafi gefið mér þá menntun, þroska og gleði, sem gert hefur mig ánægðan og hamingjusaman í mínu starfi við prentverkið.

Að lokum vil ég geta þess að á síðara tímabili mínu sem ritari HÍP (1955–56) gerði ég tilraun til þess að taka upp á segulband minningar elstu prentaranna eftir því sem atvik og minni þeirra leyfði. Meðal þeirra sem ég ræddi við voru; Ágúst Jósefsson prentari og síðar heilbrigðisfulltrúi í Reykjavík, Jón Árnason prentari og stjörnuspekingur og Jón Einar Jónsson prentari sem vann við prentverk fram að níræðu. Auk þessara eru upptökur fleiri manna í vörslu FBM og mun Svanur Jóhannesson starfsmaður FBM geta gefið upplýsingar um þær. Einnig tók ég viðtal við Þórð Bjarnason prentara, f. 5.7.1886. Hann var þá eini prentarinn á lífi sem bæði hafði starfað í Prentverki Skúla Thoroddsen á Bessastöðum (Þjóðviljinn gamli) og í Vonarstræti 12 en var auk þess 15 ár í Vesturheimi við prentverk en kom síðan heim og starfaði í Ísafoldarprentsmiðju og Herbertsprenti. Ég læt þetta band fylgja hér með til afritunar en vil gjarnan fá það endursent við hentugleika þar sem það er mín eign.

Reykjavík 31.01.1989
Ellert Ágúst Magnússon.



Ellert Ágúst Magnússon

Ellert Ágúst Magnússon (1913–1997) var heiðursfélagi Hins íslenzka prentarafélags frá árinu 1972. Hann vann ómælt starf í þágu félagsmanna um áratugaskeið og honum voru falin fjölmörg trúnaðarstörf í þágu bókagerðarmanna. Í minningargrein um hann var þannig komizt að orði; ,,Ellert var mikill smekkmaður á fallegt handverk og ánægjan yfir að sjá vel unna prentgripi leyndi sér aldrei. Að sama skapi fór ekki fram hjá neinum að honum fannst prentverkið setja niður með ýmsum af þeim breytingum sem hafa rutt sér til rúms á síðustu áratugum”. (M.W.L) Þessi grein Ellerts Ág. sem hér birtist gefur nokkra innsýn í líf og starf bókagerðarmanns á síðustu öld. Hann var sannur heiðursmaður, trúr og traustur félagi og vinur.

Heimildarmaður: Ellert Ágúst Magnússon, f. 04.08.1913, Hólmgarði 4, Reykjavík.
Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðháttadeild og Félag bókagerðarmanna.