Snorraprent
Reykjavík 1947–1949
Hrappseyjarprentsmiðja var stofnuð 1945 í Reykjavík eftir að Vilhjálmur Svan kom með vélar sínar aftur frá Akranesi. Prentsmiðjunni var síðan skipt í tvennt árið 1947. Hét önnur prentsmiðjan Snorraprent og voru stofnendurnir þeir Gunnar Steindórsson (1918–1966) og Grímur Gíslason (1913–1979) hjá Íslendingasagnaútgáfunni og Guðmundur Á. Jóhannsson prentari.
Grímur var framkvæmdastjóri þeirrar prentsmiðju. Hin prentsmiðjan var skírð Prentfell og fékk Vilhjálmur Svan hana í sinn hlut og rak til ársins 1965, að hann seldi hana til Prentsmiðju Jóns Helgasonar.
Vilhjálmur Svan var einnig hluthafi í Íslendingasagnaútgáfunni sem stofnuð var á þessum árum og prentsmiðjur sem hann rak prentuðu eitthvað af verkum hennar.
Þegar Snorraprent hætti fóru sumar vélar prentsmiðjunnar til Vestmannaeyja en aðrar í Prentverk Guðmundar Kristjánssonar. Í Snorraprenti voru líka prentaðir Annálar og nafnaskrá en þeir voru 7. bindið í bókaflokknum Byskupa Sögur I–III og Sturlunga Saga I–III og komu þær allar út 1948, en voru endurprentaðar margoft síðar. Þetta var framhald á 12 binda útgáfu þeirra félaga á Íslendingasögunum I–XII og Nafnaskrá XIII. Þá var prentað í Snorraprenti Ævintýrið um svikaprinsinn, austurlenzk saga og teikningar eftir Halldór Pétursson í þýðingu Sesselju Guðmundsdóttur.