Siglufjarðarprentsmiðja
Siglufirði 1916–2005
Prentfélag Siglufjarðar var stofnað í nóvember 1916 og jafnframt keyptur prentbúnaður frá Kaupmannahöfn og vikublaðinu Fram var hleypt af stokkunum. Ritstjórar blaðsins voru þeir Friðbjörn Níelsson (1887–1952) og Hannes Jónasson (1877–1957).
Friðbjörn var einn af þeim sem mótuðu Siglufjörð meðan sveit varð að kaupstað. Hann var kaupmaður og var meðal annars bæjargjaldkeri á Siglufirði. Hannes var bæjarskáld og bóksali. Prentsmiðjan var til húsa á neðri hæð hússins að Grundargötu 2 og fyrsti prentarinn var Helgi Björnsson frá Akureyri. Nemandi hjá honum var Vilhjálmur Hjartarson en hann tók við af Helga sem flutti burt árið 1919. Vilhjálmur keypti síðan prentverkið 1922 en veiktist ári seinna og seldi þá Hinrik Thorarensen lækni prentsmiðjuna sem rak hana áfram á Grundargötu um tíma en flutti hana síðan í steinhús á Norðurgötu. Það hús brann til kaldra kola 1925 og upplag blaðsins Framtíðin sem Hinrik gaf út glataðist svo það blað er mjög sjaldgæft og ekki til heilt neins staðar. Sama ár keypti Hinrik nýtt prentverk í Kaupmannahöfn og lét setja það upp í Lækjargfötu 4, en Angantýr Ásgrímsson (1904–1947) var ráðinn prentari. Hinrik rak það í áratug en Sigurjón Sæmundsson (1912–2005) keypti prentsmiðjuna 1935 og starfrækti allt til dánardægurs, ásamt viðamikilli bóka- og tímaritaútgáfu.
Sigurjón var prentari að iðn. Hann var bæjarstjóri á Siglufirði um skeið, söng með Karlakórnum Vísi og átti þátt í að stofna þar tónlistarskóla. Eftir að Sigurjón lést var prentsmiðjan varðveitt í nokkur ár eins og hún leit út þegar hún hætti og meiningin að gera hana að safni, en það varð aldrei að veruleika og vélar og tæki fóru á Iðnminjasafnið á Akureyri.