Þegar unnið var að stofnun Prentsöguseturs árið 2015 kom fljótlega í ljós að einn stofnendanna, Heimir Brynjúlfur Jóhannsson, hafði hug á að láta prentsmiðju sína renna til félagsins. Heimir hafði rekið Prentsmiðju Bókamiðstöðvarinnar að Laugavegi 29b ásamt eiginkonu sinni Friðrikku Baldvinsdóttur í um 60 ár. Þar eru mörg gömul tæki, sum yfir 100 ára gömul; lausaletur, prentvélar, brotvél fyrir bókband og alls konar smátæki sem notuð voru við frágang prentgripa. Einnig má geta þess að vinnuborð, leturgeymslur og reiolar eru mjög sennilega frá Viðeyjarprentsmiðju og Leirárgörðum.
Þessi prentsmiðja hefur nú verið opnuð sem sýningarstaður fyrir almenning undir nafninu Gamla prentsmiðjan. Formlegur opnunardagur var 21. febrúar 2020, á fimm ára afmælisdegi Prentsöguseturs. Litið er á Gömlu prentsmiðjuna sem vísi að Prentsögusetri. Hún er hluti af setrinu, en stefnt er að því að hún verði sjálfbær í rekstri. Enginn aðgangseyrir verður innheimtur, en tekjur fengnar með sölu bóka og minjagripa, auk þess sem gestum er gefinn kostur á að styðja prentsmiðjuna með tilleggi í sérstakan söfnunarbauk. Slíkur háttur er gjarnan hafður á í söfnum erlendis og reynist almennt vel.