Prentverk Akraness
Akranesi 1942–1945
Ólafur B. Björnsson (1895–1959) og fleiri komu á fót prentsmiðju á Akranesi árið 1942 og voru keyptar vélar af Vilhjálmi Svan Jóhannssyni prentara sem stuttu áður (1. maí 1942) hafði stofnað prentsmiðju í Reykjavík undir sínu nafni. Vilhjálmur Svan var ráðinn prentsmiðjustjóri og varð einn af eigendum. Í október 1945 var ákveðið að selja prentsmiðjuna til Reykjavíkur í Hrappseyjarprent sem þá hafði verið stofnuð og var blaðið Akranes o.fl. prentað þar um tíma. Vélarnar sem keyptar voru af Vilhjálmi voru m.a. gömul setjaravél og gamla „hraðpressan“ frá 1879 úr Ísafold sem nú stendur uppgerð í Árbæjarsafni. Kom hún til Vilhjálms frá Prentsmiðju Hallgríms Benediktssonar, en þangað kom hún frá Vestra prentsmiðjunni á Ísafirði.