Prentstofa G. Benediktssonar
Kópavogi 1967–1994
Guðmundur Jón Benediktsson (1926–2009) prentari og prentsmiðjustjóri stofnaði Prentstofu G. Benediktssonar 1. október árið 1967. Fyrstu árin var fyrirtækið rekið í Bolholti 6, og þá bara í blýsetningu og síðar á pappír. Fyrsta prentvélin var keypt 1978, Heidelberg Sord 1-lita en síðan fjölgaði þeim og í lokin voru þær orðnar fimm talsins. Árið 1983 var fyrirtækið flutt að Nýbýlavegi 30 í Kópavogi, og var þá byggt hús yfir starfsemina. Guðmundur rak fyrirtækið til 1992. Sverrir D. Hauksson var framkvæmdastjóri 1991–1994.
Af helstu verkum sem voru unnin hjá G. Ben. má nefna Biblíuna sem kom út 1981, en hún var sett og brotin um hjá prentsmiðjunni. Þá var Hómilíubók einnig unnin þar. Þegar best lét í bókaútgáfu þá voru prentaðar þar yfir 70 bækur fyrir jólin og fór fjöldi starfsmanna mest í 50 manns. Þetta var árið 1989 eftir kaup prentsmiðjunnar á Grafík og Bókbandsstofunni Arnarfelli. Árið 1994 þurfti prentsmiðjan að selja rekstur sinn inn í Prentsmiðjuna Eddu og voru þær sameinaðar og nefndist fyrirtækið þá G. Ben.-Edda prentstofa. Starfsemin var þá flutt að Smiðjuvegi 3 í Kópavogi þar sem Prentsmiðjan Edda hafði verið til húsa áður.