Prentsmiðjur í Kaupmannahöfn

Inngangur

Þegar prentverk var komið til Íslands, og spurst hafði út hvers konar galdur var hér á ferðinni, leið ekki á löngu áður en fróðleiksfúsir og handlagnir ungir menn voru komnir þar í vinnu. Og eins og gengur ílentust sumir en aðrir gáfust upp. Svo voru þeir sem vildu læra meira um fagið og komu sér út í heim, flestir til Danmerkur, sumir sneru heim, aðrir þvældust milli landa eða settust að ytra. (Sjá lista hér að neðan)

Í Kaupmannahöfn, þangað sem flestir leituðu, voru margar prentsmiðjur. Þar kynntust menn nýjum leturtegundum, ólíkum aðferðum í prentstörfunum og verkefnin voru miklu fjölbreyttari en heima. Sumir piltanna voru góðir málamenn sem nýttist þeim vel við setninguna, aðrir þýddu og gáfu út. Margir hlutu vináttu og velvild Íslendinga fyrir vel unnin störf, en í þá daga voru höfundar eða útgefandi í beinu sambandi við starfsmenn prentsmiðjunnar.

Á 19. öld voru margir prentsveinar í Kaupmannahöfn og í sumum prentsmiðjum voru prentaðar bækur fyrir Íslendinga svo fengur var að því fyrir prentsmiðjur að hafa íslenskan setjara á sínum snærum. Um Stefán Eyjólfsson sem vann hjá S. L. Møller segir í bókinni Íslendingar í Danmörku: Hann var vel liðinn, orðlagður fyrir vandvirkni og uppáhald Hafnar-Íslendinga er við bókagerð fengust.
Annar Íslendingur vann hjá S. L. Møller um tíma en það var Ágúst Jósefsson og hefur hann sagt nokkuð frá því í ævisögu sinni sem út kom árið 1959.

Þóra Elfa Björnsson

inng-thora

Íslenskir prentnemar á erlendri grund

Hér má skoða lista yfir þá prentnema sem fóru utan til að læra betur um prentverk á árunum 1600–1890. Þeir eru fæddir á tímabilinu 1570–1876 og upplýsingarnar að mestu fengnar úr Prentaratali 1530–1950 og víðar. Sumir á þessum lista urðu þekktir fyrir störf sín í prentiðnaðinum hér heima eins og t.d. Guðmundur Skagfjörð, Björn Gottskálksson, Sigmundur Guðmundsson og Páll Sveinsson en hann var bókbindari og útgefandi i Kaupmannahöfn.

Íslenskir prentnemar á erlendri grund
NafnFæddurLærðiNám/Vinna/StaðurKom aftur
Guðmundur Finnsson1570HólumHamborgNei
Halldór Ásmundssonum 1600HólumDanzig
Brandur Jónsson1630HólumDanmörk
Magnús Eyjólfsson1665SkálholtiDanmörkNei
Marteinn Arnoddssonum 1675SkálholtiDanmörk
Henrik Kruse1689 í DkDanmörkuDanmörk?
Björn Einarsson1697KaupmannahöfnDanmörkNei
Eiríkur Guðmundsson Hoff1738HólumDanmörk
Ásmundur Einarsson1741KaupmannahöfnDanmörkNei
Magnús Móberg1748KaupmannahöfnBerlín/KaupmannahöfnDó hér
Þorsteinn Rangel Einarsson1757Hartvigs Godiche TrykkeriDanmörkNei
Guðmundur Skagfjörð1758HólumDanmörk
Björn Gottskálksson1765HrappseyDanmörk
Benedikt Halldórssond. 1777HólumDanmörkNei
Magnús Th. Jónsson1793KaupmannahöfnKaupmannahöfnNei
Helgi Helgason1807ViðeyDanmörk
Stefán Guðmundsson1814ViðeyDanmörkNei
Þorkell Þ. Clementz1817Einar ÞórðarsonDanmörk
Einar Þórðarson1818ViðeyDanmörk
Jónas Sveinson1837AkureyriDanmörk
Jón Jónsson1840BreiðabólsstaðDanmörk
Sigmundur Guðmundsson1853Einar ÞórðarsonLondon
Gunnlaugur Stefánsson1854LandsprentsmiðjanVesturheimurNei
Stefán Eyjólfsson1859S. L. MøllerKaupmannahöfnNei
Magnús Ingvarsson1864Sigmundur GuðmundssonAmeríkaNei
Oddur Sigurðsson1867Sigfús EymundssonLondonNei
Stefán Pétursson1867AkureyriVesturheimurNei
Stefán Magnússon1874Sigmundur GuðmundssonKaupmannahöfnNei
Ólafur Jóhannesson1876ÍsafoldarprentsmiðjaAmeríka/ÁstralíaNei

Kaupmannahöfn – Prentað og bundið inn fyrir Íslendinga

Eftir Svan Jóhannesson. Kort: Páll Svansson.

Vaisenhus-prentsmiðja

Vaisenhusets Bogtrykkeri — Kaupmannahöfn 1728–1831

Á árunum 1715–1728 var þessi prentsmiðja rekin undir nafninu Trúboðsskóla-prentsmiðjan (Missionskollegiets Trykkeri). Þar voru aðallega prentaðar biblíur og sálmabækur. Prentsmiðjan var undir stjórn prentarans G. F. Kisel en þar vann líka einn bókbindari frá 1717. Prentsmiðjan var til húsa í Elersskólanum í Store Kannikestræde í elsta borgarhluta Kaupmannahafnar, þar sem nú er göngugata. Árið 1727 gaf konungurinn Friðrik IV út tilskipun til Trúboðsskólans að hann skyldi styðja við stofnun munaðarleysingjaskóla í Kaupmannahöfn. Hann lagði til húsnæði fyrir starfsemina í riddaralegu háskólabyggingunum við Nytorv. Vaisenhuset opnaði 11. október 1727. Kóngurinn veitti þeim einkaleyfi fyrir verksmiðjurekstri, apóteki, prentsmiðju og bóksölu.1https://da.wikipedia.org/wiki/Det_Kongelige_Vajsenhus – Sótt í febrúar 2016 En árið eftir brann prentsmiðjan í Kaupmannahafnarbrunanum mikla 1728, þegar Háskólabókasafnið brann, alls 35.000 bindi.2https://da.wikipedia.org/wiki/Københavns_brand_1728 – Sótt í febrúar 2016 Þessi bruni var fyrirmynd Halldórs Laxness í skáldverki hans Íslandsklukkunni.

Eftir brunann var prentsmiðjan endurreist við Nytorv. Árin 1732–1757, voru prentuð 39.000 eintök af biblíunni, en það var einmitt á þeim árum sem Vaisenhus prentaði biblíuna fyrir Íslendinga, sem kom út 1747 og var kölluð Vaisenhus-biblían. Henderson-biblían, sem líka var kölluð „Grútarbiblían“ var einnig prentuð í Vaisenhúsi, en það var árið 1813.3Hið íslenzka biblíufélag. Afmælisrit 1815–1965. Rv. 1965, bls 21 og 67.

Eftir að Kisel lést 1765 tók tengdasonur hans G. G. Salicath við stjórn prentsmiðjunnar til 1781, að hann fór á eftirlaun. Eftirmaður hans hét H. C. Schrøder, en hann dó 1788. Eftir hann kom Carl Fridrich Schubart 1788–1797 og þar næst sonur hans Carl Fr. Schubart yngri 1797–1830. Vaisenhus hélt áfram framleiðslu á biblíum og sálmabókum en það endaði með því að þeir voru komnir með svo stóran lager að það horfði til vandræða. Þeir áttu rúm 90.000 eintök á lager í júní 1787. En örlögin leystu þá vandamálin af sjálfsdáðum, þegar byggingin við Nytorv brann í júní 1795.

Engin prentsmiðja í allri Kaupmannahöfn vildi nú taka að sér prentun biblíunnar svo það var ákveðið að prentsmiðjan skyldi endurbyggð á hinum gamla grunni Nytorv. Árið 1801 varð hin nýuppbyggða prentsmiðja samt að víkja fyrir nýrri ráðhúsbyggingu. Prentsmiðjan leigði sér þá húsnæði í Studiestræde og var þar til ársins 1807, þegar ný Vaisenhus-bygging var tekin í notkun við Købmagergade. Schubart yngri dó í nóvember 1830 og árið eftir var prentsmiðjan lögð niður og innanhússmunir seldir á uppboði.4Harald Ilsøe: Bogtrykkerne I København ca. 1600-1810. København 1992.

Friðrik IV. (1671-1730) Veitti Vajsenhus einkaleyfi fyrir prentsmiðju.

Friðrik IV (1671-1730) veitti Vajsenhus einkaleyfi fyrir prentsmiðjurekstri og bókaútgáfu árið 1727.

Kaupmannahafnarbruninn 1728. Gult svæði er sá hluti borgarinnar sem varð eldi að bráð. (Kort eftir Joachim Hassing)

Bruninn mikli 1728. Gula svæðið er sá hluti borgarinnar sem varð eldi að bráð. (Kort eftir Joachim Hassing)

Bókaprentsmiðja Berlinga

Det Berlingske Bogtrykkeri – Kaupmannahöfn 1733–1990

Bókaprentsmiðja Berlinga var stofnuð 1733 af Ernst Heinrich Berling (1708-1750)5Vor Tids Leksikon: Bind 3, bls. 21. Berling, Carl og Ernst Heinrich. prentara og blaðaútgefanda (Berlingske Tidende). Hann var fæddur í Meklenborg í Þýskalandi, en flutti til Danmerkur 1731. (Á sama tíma flutti bróðir hans Carl Gustaf Berling (1716-1789) til Svíþjóðar og stofnaði þar aðra bókaprentsmiðju í Lundi undir nafni Berlinga).

Prentsmiðjan í Kaupmannahöfn varð fljótlega með þeim bestu og fínustu í Danmörku. Ættin hélt stjórnartaumunum styrkum höndum og tók hver við af öðrum. Í ársbyrjun 1836 tók sonur Carl Christian Berling við fyrirtækinu. Hann hét Johan Carl Ernst Berling (1812-1871) en hann var af 4. kynslóð Berlinga. Hann hafði lært prentfagið í prentsmiðju forfeðranna, innleiddi nýjustu tækni og keypti nýjar prentvélar. Árið eftir setti hann á fót letursteypu og 1838 fékk hann þrjú einkaleyfi til að framleiða Congreve-litaprentun, hæðarprentun og vissa tegund af Stereo-typering. Við þetta bætti hann svo lithografískri stofnun, útgáfu og útstillingarfyrirtæki.

Það var á þessum árum sem Fornritafélag Norðurlanda var stofnað og lét prenta nokkrar íslenskar bækur hjá Berlingum. Má þar nefna Söguna af Helga og Grími Droplaugarsonum 1847 og var gefin út af Konráð Gíslasyni. Þá var Lögbók Íslendinga Grágás prentuð þar og útgefin af Vilhjálmi Finsen og sama félagsskap. Neðst á titilblaði þeirrar bókar stendur þó: Trykt i Brødrene Berlings Bogtrykkeri 1850.6Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga, Rv. 1995. Bls. 306-307.

Á fyrri hluta 20. aldar eða árið 1923 var Aksel Vilhelm Conrad Danielsen (1903-1968) ráðinn til fyrirtækisins og varð hann framkvæmdastjóri 1925. Hann byggði fyrirtækið upp þar til það varð ein af stærstu prentsmiðjum Kaupmannahafnar og flutti frá Pilestræde að Heimdalsgade 32. Aksel lagði mikla áherslu á að gefa út fallegar bækur og kom á samvinnu við grafíska hönnuðinn Povl Christensen, listsagnfræðinginn Christian Elling og rithöfundinn Kai Friis Møller. Á 6. og 7. áratugnum þegar Aksel stjórnaði fyrirtækinu voru gefnar út hjá Berlinger þær fallegustu bækur sem út komu í Danmörku á þessum tíma og var hann þess vegna heiðraður af félaginu Forening for boghaandværk 1965.7https://tidsskrift.dk/index.php/bogvennen/article/viewFile/54019/98623 Prentsmiðjan var lögð niður 1990.8http://www.detstoredanske.dk  – Det Berlingske Bogtrykkeri.

Johan Carl Ernst Berling.

Johan Carl Ernst Berling.

Berlingske Media á Pilestræde 34 árið 2015.

Berlingske Media á Pilestræde 34, á sama stað og Det Berlingske Bogtrykkeri var starfrækt frá 1765.

Bókaprentsmiðja J. H. Schultz

J. H. Schultz Bogtrykkeri – Kaupmannahöfn (1661) 1783-

Árið 1783 keypti Johan Frederik Schultz (1756-1817) litla prentsmiðju í Kaupmannahöfn og byrjaði að gefa út bækur. Prentsmiðjan stækkaði ört og árið 1795 keypti hann Høpfners háskólaprentsmiðju en hún rakti aldur sinn aftur til 1661. Um 1800 var prentsmiðjan orðin sú stærsta í Kaupmannahöfn með tilheyrandi forlagi og bókaverslun.

Eftir að Johan Frederik dó rak ekkja hans fyrirtækið áfram og sonur þeirra, Jens Hostrup Schultz (1782-1849), yfirtók reksturinn 1821 og gaf fyrirtækinu það nafn sem það hefur síðan borið. 1868 tók fyrirtækið við prentun á Ríkisdagstíðindum og varð upp úr því stærsta prentsmiðja landsins. Fyrirtækinu var breytt í hlutafélag árið 1906 og varð brátt stærsta prentsmiðjan á Norðurlöndum með 150 manna starfsliði.  J. H. Schultz stofnaði einnig bókaútgáfu og sérhæfði sig í útgáfu á stórum ritverkum og fékk útgáfuréttinn á Salmonsens Konversationsleksikon 1910 og gaf út í 25 bindum á árunum 1915-1930. Á stríðsárunum 1941-1943 gaf fyrirtækið út Sögu Danmerkur í 6 bindum.

Haldið var upp á 300 ára afmæli fyrirtækisins árið 1961. Sama ár var Ole Trock-Jansen (1923-) ráðinn ritari stjórnar, en hann var útlærður prentari frá Schultz en fór síðan í framhaldsnám til Stokkhólms, Englands og Bandaríkjanna. Fyrirtækið flutti til Møntergården í miðborg Kaupmannahafnar 1963 samtímis því að Ole Trock-Jansen var útnefndur tæknilegur forstjóri. Hann varð síðan framkvæmdastjóri 1967 og eignaðist þá meirihlutann í fyrirtækinu. Tíu árum seinna varð hann eini eigandi fyrirtækisins.

1986 var samsteypunni deilt upp í fjölda dótturfélaga í eigu Schultz Holding, sem aftur er eign Schultz-sjóðsins. Á þessum árum gekk fyrirtækið í gegnum miklar tæknibreytingar og fjárfesti í nýjum offsetprentvélum og tölvutækni. Møntergården var selt 1988 og fyrirtækið flutti til Valby. Til að tryggja þróunina innan samsteypunnar keypti Schultz fyrirtækið SynergiData árið 1996 og nokkru seinna nettæknifyrirtækið Dansk Internet Selskab. Árið 1998 fékk Schultz Norræna umhverfismerkið Svaninn og 2004 evrópsku umhverfisvottunina EMAS.

Síðustu ár hafa verið miklar breytingar innan dótturfélaga samsteypunnar og leitað meira inn á svið tölvutækni. Starfsmenn samsteypunnar voru um 250 árið 2007. Dótturfélagið Schultz Grafisk var yfirtekið af Rosendahl-samsteypunni 2009. Haldið var upp á 350 ára afmæli Schultz árið 2011.

Johan Frederik Schultz.

Johan Frederik Schultz.

Jens Hostrup Schultz.

Jens Hostrup Schultz.

Poppska prentsmiðja

Det Poppska officin – Kaupmannahöfn 1786-1838*

Árið 1786 stofnaði Sebastian Popp (1754-1828) prentari sína eigin prentsmiðju í Rosengaarden 115 í Kaupmannahöfn. S. Popp var frá Noregi en nam prentiðn í Kaupmannahöfn hjá J. R. Thiele. Prentsmiðja Popps hét á dönsku „det Poppska officin“ sem útleggst á íslensku: Poppska prentsmiðja. Hún dafnaði vel og Popp flutti með hana í eigið húsnæði 1791 í Store Fiolstræde 179. Fimm árum síðar átti hann fimm prentpressur og var með 24 manneskjur í vinnu. Hann flutti síðan árið 1798 í Østergade 54 og árið 1810 í nr. 72 í sömu götu. Um aldamótin 1800 var Poppska prentsmiðja orðin ein af þremur stærstu prentsmiðjunum í Kaupmannahöfn. Hinar voru Schultz og Seidelin.

Sonur Sebastians, Hartvig Frederik Popp, tók svo við af föður sínum 1815 og rak fyrirtækið til dd. 1829. Faðir hans hafði látist árið áður, svo ekkja Hartvig tók við og rak fyrirtækið í nokkur ár. Hún réð sem framkvæmdastjóra Johan Jørgensen Jomtu (1791-1866). Hann var lærður vefari og lögfræðingur, hafði verið leikari og stundað ritstörf. Þegar hann hætti hjá ekkjunni 1835 var prentsmiðjan afhent J. G. Salomon eins og segir í heimildinni, en Jørgensen keypti letursteypu prentsmiðjunnar, en gaf það líka upp á bátinn og snéri sér eftir þetta eingöngu að ritstörfum.

Bækur eru til úr prentsmiðjunni frá 1838 og er líklegt að þær séu með því síðasta sem prentað var þar. Nafn J. G. Salomons er á einni bókinni. Mörg af ritum danska málfræðingsins Rasmus Kristjáns Rasks (1787-1832) voru prentuð í Poppsku prentsmiðju, en Rask hafði sérstök tengsl við Ísland og hafði lært íslensku af bókinni Heimskringlu.

*Ekki er vitað fyrir víst hvenær Poppska prentsmiðja hætti en ekki er ólíklegt að það hafi verið um 1838 því ekki er hægt að finna bækur með hennar nafni eftir það ártal.

Johan Jørgensen Jomtu.

Johan Jørgensen Jomtu.

Prentsmiðja Þorsteins Rangel Einarssonar

Thorstein E. Rangel – Kaupmannahöfn 1811–1825

Íslenski prentarinn Þorsteinn Rangel Einarsson (1757-1826) nam prentiðn hjá prentsmiðju Hartvigs Godic í Kaupmannahöfn 1774 – 1780.9Bókagerðarmenn, Prentarahluti. Ari Gíslason. Rv. 1976. Bls. 519. Hann vann síðan við prentun í Vajsenhusets Bogtrykkeri til 1787. Þá fór hann að vinna við kertasteypun og var við það til ársins 1795, þegar hann fór að vinna aftur í faginu og var setjari hjá Prentsmiðju J. H. Schultz til 1805.

Þorsteinn Rangel Einarsson fékk prentsmiðjuleyfi 1805, en nýtti það ekki strax því hann tók við forstjórastarfinu hjá Prentsmiðju Claus (Klaus) Henrik Seidelin (1761-1811) þegar hann hætti hjá Schultz og stjórnaði henni til 1811 að hann keypti prentsmiðjuna og rak hana á Østergade 66 í Kaupmannahöfn til 1825, en þá varð hann að hætta vegna heilsuleysis.

Hjá Prentsmiðju Rangels var allmikið prentað af íslenskum bókum m.a. fyrir Hið íslenska bókmenntafélag s.s. Árbækur Jóns Espólíns.10Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga, Rv. 1995. Bls 312. Þá seldi hann prentsmiðju sína í hendur syni sínum og stjúpsyni og er sagt nánar frá þessum gjörningum hér að neðan um Prentsmiðju S. L. Møller. Stjúpsonur Rangels, Søren Lauritz Møller tók við forráðum prentsmiðjunnar og er opinber stofndagur hennar 9. febrúar 1827.11Svanur Jóhannesson: Prentsmiðjueintök, Rv. 2014. Bls 20.

Østergade árið 1840.

Østergade árið 1840.

Prentsmiðja S. L. Møller

S. L. Møller’s Bogtrykkeri – Kaupmannahöfn 1827-1983

Prentsmiðja S. L. Møller á rætur sínar að rekja til íslenska prentarans Þorsteins Rangels Einarssonar (1757-1826). Þorsteinn nam prentiðn hjá Hartvig Godiches Enkes Bogtrykkeri í Kaupmannahöfn og fékk sveinsbréf árið 1780. Hann vann síðan í nokkrum prentsmiðjum, m.a. í Vajsenhusets Bogtrykkeri og hjá J. H. Schultz en fór að vinna hjá Seidelin árið 1797.

Hann varð forstjóri þar árið 1805 eftir að Seidelin missti prentverkið vegna málaferla og rak hann það sem slíkur til ársins 1811. Þá keypti hann prentverkið og rak það til 1825 að hann seldi það vegna heilsuleysis í hendur syni sínum Einari Mogens Sophus Rangel (1784-1843) og stjúpsyni Søren Lauritz Møller (- 1872). Þeir Einar og Søren sömdu svo um það að Søren tæki við forráðum fyrirtækisins og var opinber stofndagur þess 9. febrúar 1827.

Eftir að S. L. Møller hafði fengið í hendur leyfisbréfið fyrir rekstrinum lánaði Hið íslenska bókmenntafélag honum 800 ríkisdali sem hann notaði að hluta til að borga Rangel stjúpföður sínum vegna samnings um framfærslu og að hluta til reksturs prentsmiðjunnar. Prentun á íslenskum ritum sem Þorsteinn Rangel útvegaði fyrirtækinu í hálfa öld var mjög mikilvæg fyrir rekstur þess og íslenskir setjarar voru ávallt með í starfseminni.

Johan Valdemar Møller tók við af föður sínum 1872, en hann var ekki faglærður prentari. Hann fékk því L. E. Thomsen prentara sem meðeiganda og þeir skiptu með sér verkum þannig að Møller sá um skrifstofuna og setjarasalinn en Thomsen um verkstjórn í prentsal. Árið 1899 fór L. E. Thomsen út úr fyrirtækinu. Keypt var nýtt húsnæði í Hestemøllestræde 5 og flutt þangað 1904. Synir J. V. Møller, þeir Henning og Max tóku við fyrirtækinu 1918.

Fyrirtækið dafnaði vel og starfsemin jókst, svo keypt var hentugra húsnæði að Rosenorns Allé 29 og prentsmiðjan flutt þangað 1929. Á þessum tíma höfðu þar um 100 manns atvinnu. Síðan eru liðin um 80 ár. Í dag er fyrirtækið S. L. Møller Grafisk rekið á Malmmosevej 9 A í Holte í Danmörku og það er samband á milli þess og Prentsmiðju S. L. Møller sem stofnuð var 1827. Steen Lasse Møller sem stýrir þessu nýja fyrirtæki náði að vera þar í fimmtu kynslóð áður en það var lagt niður 1983. Fyrirtæki hans S. L. Møller Grafisk vinnur nú að grafískri framleiðslu og ráðgjöf.

Søren Lauritz Møller.

Søren Lauritz Møller.

Johan Valdemar Møller.

Johan Valdemar Møller.

Prentsmiðja Bianco Luno

Bianco Lunos Bogtrykkeri – Kaupmannahöfn 1832 – 2000

Christian Peter Bianco Luno (1795-1852) var danskur prentari sem rak prentsmiðju í Kaupmannahöfn frá 1832 til dauðadags 1852.12https://da.wikipedia.org/wiki/Bianco_Luno – Sótt í febrúar 2016 Eftir að faðir hans dó ári eftir að hann fæddist flutti móðir hans til Kaupmannahafnar og þar ólst Bianco Luno upp við misjafnar aðstæður. Móðurbróðir hans kom honum í prentnám í Álaborg  þegar hann var 16 ára gamall. Hann útskrifaðist sem fullnuma sveinn í faginu 1816, en vann síðan í stuttan tíma í Kaupmannahöfn. Fór síðan ári seinna til útlanda og ferðaðist um Evrópu í ein 11 ár. Hann heimsótti Þýskaland, Sviss, Ítalíu og Ungverjaland og vann í fleiri stórum prentsmiðjum í þessum löndum. Hann kom sér allsstaðar vel með dugnaði sínum og líflegri framkomu.

Bianco Luno kom síðan aftur til Kaupmannahafnar 1828, reynslunni ríkari í sínu fagi og var nú svo heppinn 1831 að fá einkaleyfi til að reka nýja prentsmiðju, sem var sjaldgæft í þá daga. Þar sem hann hafði ekkert fjármagn hóf hann samvinnu við prentarann F. W. Schneider, og 1. janúar 1832 var Prentsmiðjan Bianco Luno & Schneider opnuð í Pilestræde 8, sem fyrsta danska prentsmiðjan sem var skipulega uppbyggð og talin fyrirmyndarprentsmiðja.

Eftir að Schneider fór út úr fyrirtækinu 1837 varð Bianco Luno einn stjórnandi. Árið eftir var flutt í rúmgóða og nýtísku vinnusali í Østergade 20. Hjá fyrirtækinu unnu nú um 40 manns og það hafði fleiri pressur en 1840 var fyrsta hraðpressan keypt. Bianco Luno var útnefndur konunglegur hirðprentari 1847. Hann hafði góð sambönd við bókmennta- og vísindasamfélagið í Danmörku, en það varð til þess að prentsmiðja hans varð ein af þeim stærstu í landinu. Þar létu rithöfundar eins og H. C. Andersen og Søren Kierkegaard prenta bækur sínar og þar var einnig prentað danska sagnfræðitímaritið Historisk Tidsskrift sem var stofnað 1840 af  Christian Molbech.

Eftir lát Bianco Luno var prentsmiðjan rekin áfram af ekkju hans undir stjórn systursonar hans, Frederik Siegfred Muhle (1829-1884) og Ferdinand Dreyer (1833-1924), sem frá 1873 varð einkaeigandi. Frá árinu 1900 eignaðist hlutafélagið A/S Carl Aller fyrirtækið og rak það áfram til aldamótaársins 2000 þegar það hætti. Carl Julius Aller (1845-1926) var steinprentari og blaðaútgefandi.

Æfiminning Gunnars Gunnarssonar, prests og prófasts að Svalbarði. Prentað hjá Bianco Luno 1875.

Æfiminning Gunnars Gunnarssonar, prests og prófasts að Svalbarði. Prentuð hjá Bianco Luno 1875.

Prentsmiðja Louis Klein

Louis Kleins Bogtrykkeri – Kaupmannahöfn 1852-1883

Það er ekki mikið af heimildum til um Louis Klein prentara í Kaupmannahöfn. Þó má finna í upplýsingum úr manntali í Kaupmannahöfn að hann hefur átt heima í Store Købmagergade 65, var fæddur 1810, giftur og átti tvær dætur.

Prentsmiðja Louis Klein var starfandi um og eftir miðja 19. öld á þeim tíma þegar Landsprentsmiðjan starfaði í Reykjavík. Hann hafði þó nokkur viðskipti við Íslendinga og á meðal helstu íslenskra bóka sem prentaðar voru hjá Klein má nefna: Þúsund og ein nótt, Mjallhvít, Sagan af Karla-Magnúsi, Hugleiðingar eftir J. P. Mynster biskup á Sjálandi, Æfiminningar Halldórs Bjarnasonar, Ferðasaga úr Noregi og Ljóðmæli Jóns Þorleifssonar prests á Ólafsvöllum.

Margar af þessum bókum gaf Páll Sveinsson (1818-1874) bókbindari út, en hann hafði mikil samskipti við prentsmiðju Louis Klein. Páll fór ungur til Kaupmannahafnar til að læra bókband, ílentist þar og vann mikið að útgáfu íslenskra bóka í Kaupmannahöfn alla sína tíð. Louis Klein studdi kórstarf á meðal prentara í Kaupmannahöfn, ásamt tveimur öðrum þekktum prentsmiðjueigendum safnaði hann fé til píanókaupa fyrir söngfélag þeirra.

Á sjötta áratug 19. aldar vann danskur prentari hjá Louis Klein. Hann hét Christian Sørensen (1818-1861), en hann fann upp setjaravél (Tacheotyp) og fékk gullverðlaun á Heimssýningunni í París 1855. Sørensen reyndi að koma vélinni í framleiðslu í Frakklandi en það mistókst. Hann snéri þá aftur heim til Danmerkur og fékk vinnu með tvær vélar sínar hjá Prentsmiðju Louis Klein við að setja blaðið Fædrelandet. Þetta mistókst líka en Sørensen varð samt sem áður heimsfrægur maður fyrir uppfinningu sína.

Christian Sørensen.

Christian Sørensen.

Tilvísanir

1. https://da.wikipedia.org/wiki/Det_Kongelige_Vajsenhus – Sótt í febrúar 2016
2. https://da.wikipedia.org/wiki/Københavns_brand_1728 – Sótt í febrúar 2016
3. Hið íslenzka biblíufélag. Afmælisrit 1815–1965. Rv. 1965, bls 21 og 67.
4. Harald Ilsøe: Bogtrykkerne I København ca. 1600-1810. København 1992.
5. Vor Tids Leksikon: Bind 3, bls. 21. Berling, Carl og Ernst Heinrich.
6. Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga, Rv. 1995. Bls. 306-307.
7. https://tidsskrift.dk/index.php/bogvennen/article/viewFile/54019/98623
8. http://www.detstoredanske.dk  – Det Berlingske Bogtrykkeri.
9. Bókagerðarmenn, Prentarahluti. Ari Gíslason. Rv. 1976. Bls. 519.
10. Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga, Rv. 1995. Bls 312.
11. Svanur Jóhannesson: Prentsmiðjueintök, Rv. 2014. Bls 20.
12. https://da.wikipedia.org/wiki/Bianco_Luno – Sótt í febrúar 2016

Aðrar prentsmiðjur

Þó hér sé aðeins rakin saga átta prentsmiðja þá leituðu Íslendingar til margra annarra, til að mynda:

J. R. Thiele (Johan Rudolph Thiele) 1770 – 1937.

Sander og Schröder 1780.

A. F. Stein (August Friderich Stein) 1787.

C. Græbe (Carl Græbe) 1809 – 1930.

J. D. Qvist (        ) 1835 – 1866.

Hlöðvi Klein  1842 – 1874.

S. Trier (     ) 1847 – 1875.

J. Cohen (       ) 1858.

J. Jørgensen & Co  1917 – 1958.