Prentsmiðjur í Kaupmannahöfn
Inngangur
Þegar prentverk var komið til Íslands, og spurst hafði út hvers konar galdur var hér á ferðinni, leið ekki á löngu áður en fróðleiksfúsir og handlagnir ungir menn voru komnir þar í vinnu. Og eins og gengur ílentust sumir en aðrir gáfust upp. Svo voru þeir sem vildu læra meira um fagið og komu sér út í heim, flestir til Danmerkur, sumir sneru heim, aðrir þvældust milli landa eða settust að ytra. (Sjá lista hér að neðan)
Í Kaupmannahöfn, þangað sem flestir leituðu, voru margar prentsmiðjur. Þar kynntust menn nýjum leturtegundum, ólíkum aðferðum í prentstörfunum og verkefnin voru miklu fjölbreyttari en heima. Sumir piltanna voru góðir málamenn sem nýttist þeim vel við setninguna, aðrir þýddu og gáfu út. Margir hlutu vináttu og velvild Íslendinga fyrir vel unnin störf, en í þá daga voru höfundar eða útgefandi í beinu sambandi við starfsmenn prentsmiðjunnar.
Á 19. öld voru margir prentsveinar í Kaupmannahöfn og í sumum prentsmiðjum voru prentaðar bækur fyrir Íslendinga svo fengur var að því fyrir prentsmiðjur að hafa íslenskan setjara á sínum snærum. Um Stefán Eyjólfsson sem vann hjá S. L. Møller segir í bókinni Íslendingar í Danmörku: Hann var vel liðinn, orðlagður fyrir vandvirkni og uppáhald Hafnar-Íslendinga er við bókagerð fengust.
Annar Íslendingur vann hjá S. L. Møller um tíma en það var Ágúst Jósefsson og hefur hann sagt nokkuð frá því í ævisögu sinni sem út kom árið 1959.
Þóra Elfa Björnsson