Prentsmiðjan Skuld
Eskifirði 1877–1880
Jón Ólafsson (1850-1916) ritstjóri og skáld var oft búinn að lenda í útistöðum við yfirvöld vegna skrifa sinna og þegar hér var komið sögu var hann tvisvar búinn að flýja til útlanda vegna þess. Fyrst samdi hann og lét prenta skammabækling um Benedikt Gröndal skáld. Síðan orti hann kvæðið Íslendingabrag sem olli miklu uppnámi í stjórnarherbúðum þegar það birtist í blaðinu Baldri. Þá gaf hann út blaðið Göngu-Hrólf í Reykjavík, en fyrir skrif hans í það var hann dæmdur í háar fjársektir og blaðið var bannað. Jón fór fyrst til Noregs en seinna til Norður-Ameríku og dvaldist þar til ársins 1875.
Hann kom síðan aftur til Íslands og fór til Eskifjarðar og gat þar ekki án blaðs verið og vantaði þá prentsmiðju. Þá fékk hann bróður sinn Pál Ólafsson skáld til að sækja um prentsmiðjuleyfi og fékk Páll það 27. maí 1876.
Jón fór þá til Kaupmannahafnar og keypti prentsmiðju sem hann kom sjálfur með siglandi á skonnortunni Sophie til Eskifjarðar árið eftir, sumardaginn fyrsta, 19. apríl 1877. Þetta var fyrsta prentvélin sem kom til Austurlands.
Blað Jóns hét Skuld, en Skuld var ein þriggja örlaganorna (sú sem ræður framtíðinni) og prentsmiðjan var skírð eftir blaðinu og hét Prentsmiðjan Skuld. Fyrsta blaðið var prentað 8. maí 1877. Skuld var fyrsta blaðið á Íslandi sem var myndskreytt, 23. júní 1880 og var myndin af Kristjáni konungi IX.
Árið 1880 var fjárhagur blaðsins orðinn það slæmur að blaðið hætti að koma út á Eskifirði og var síðasta blaðið prentað þar 16. október 1880. Jón sigldi þá af landi brott og prentarinn sem hann hafði komið með frá Kaupmannahöfn, Þ. Þ. Clementz, fór með honum. Prentsmiðjan Skuld var síðan ónotuð á Eskifirði í þrjú ár, en var þá seld til Seyðisfjarðar.