Prentsmiðja Vestmannaeyja
Vestmannaeyjum 1917–1924
Gísli J. Johnsen (1881–1965), kaupmaður í Vestmannaeyjum, keypti prentsmiðju þá af Þ.Þ. Clementz (1880–1955) prentara í Reykjavík árið 1917, sem var að stofni til Prentsmiðjan Skuld sem Jón Ólafsson (1850–1916) flutti til Eskifjarðar frá Kaupmannahöfn 1877. Þessi prentsmiðja gekk síðan kaupum og sölum þar til hún lenti í Vestmannaeyjum og var fyrsta prentsmiðjan þar.
Í prentsmiðjunni var fyrst prentað blaðið Skeggi og kom fyrsta blaðið út 27. október 1917. Gísli réð Kristján Guðjónsson (1892–1945) sem prentara, en Pál Bjarnason (1884–1938) skólastjóra á Stokkseyri sem ritstjóra. Skeggi kom út til ársins 1920, en þá lagðist rekstur prentsmiðjunnar niður um skeið eða til ársins 1923. Um haustið 1923 var byrjað að gefa út blaðið Skjöld. Það blað hafði að höfuðmarkmiði að fella Karl Einarsson (1872–1970) sýslumann frá þingmennsku. Karl var á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri (1914–1923) og var gerð hörð hríð að honum í Skildi og féll hann við næstu kosningar. Jóhann Þ. Jósefsson (1886–1961) kaupmaður varð þá alþingismaður Vestmanneyinga 1923–1959, fyrst fyrir Borgaraflokkinn eldri, síðan Íhaldsflokkinn og síðast Sjálfstæðisflokkinn. Ritstjóri var Páll V.G. Kolka (1895–1971) læknir, en prentari var Valdimar B. Hersir (1891–1936). Skjöldur kom út til 1924.
Ingibergur Friðriksson (1909–1964) frá Batavíu sem fór að vinna í prentsmiðjunni haustið 1924, lýsti starfseminni svo í grein um Vestmannaeyjaprent eftir Jóh. Gunnar Ólafsson, í bókinni Helgakver Rv. 1976. — „Hún var eign Gísla J. Johnsens konsúls og var til húsa í austurendanum á Edinborgarloftinu, þar sem Gísli var verslunarstjóri. Aðalvélin var stór og mikil fyrirferðar. Var henni snúið með handafli, en tveir menn voru við vélina þegar prentað var og snéri annar svinghjólinu, en hinn lagði pappírinn í. Oftast snéri henni sami maðurinn, Jóhann Gíslason (1883–1944) í Hlíðarhúsi og söng við raust ef vel gekk. Þá var til lítil vél, sem ætluð var fyrir allt smáprent. Prófarkapressa og skurðarhnífur voru einnig og voru allar þessar vélar knúðar með handafli. Nokkuð var til af letri, en það var frekar úr sér gengið enda hafði það lent í bruna hjá Davíð Östlund árið 1910, þegar Prentsmiðja Frækorna brann í Þingholtsstræti 23.“
Bæði blöðin Skeggi og Skjöldur sem komu samtals út í fjögur ár voru prentuð í Prentsmiðju Vestmannaeyja. Gísli mun hafa átt prentsmiðjuna til ársins 1930, en stundum var hún leigð út og var þá yfirleitt breytt um nafn á henni.