Prentsmiðja Suðurlands
Eyrarbakka 1910–1917
Ýmsir aðilar í Árnessýslu og víðar stofnuðu hlutafélag um rekstur prentsmiðju árið 1910. Það var nefnt Dægradvöl, en aðalhvatamaður að stofnun þess var Oddur Oddsson (1867–1938) á Eyrarbakka. Þeir vildu hefja útgáfu blaðs sem gæti orðið vettvangur fyrir hagsmunamál sveitanna á Suðurlandi. Þessir aðilar keyptu Prentsmiðju Hafnarfjarðar sem var upphaflega gamla Aldar-prentsmiðjan. Hún var flutt austur 19. maí 1910 og sett niður í kjallara hússins Nýjabæjar á Eyrarbakka og nefnd Prentsmiðja Suðurlands. Prentararnir Jón Helgason (1877–1961) og Karl H. Bjarnarson (1875–1957) höfðu starfrækt þessa prentsmiðju í Hafnarfirði frá 1907 og fluttust þeir með henni á Eyrarbakka.
Um svipað leyti var stofnað annað félag á Eyrarbakka, Prentarafélag Árnessýslu, og átti það að standa vörð um héraðsmál og landsmál. Það stofnaði fljótlega vikublaðið Suðurland og kom fyrsta tölublað þess út 10. júní 1910. Ritstjóri var Oddur Oddsson, en Karl H. Bjarnarson prentari tók við ritstjórn seinna á árinu. Blaðið kom nokkuð reglulega út fyrstu árin, en fjárhagurinn var erfiður og það skiptist oft um ritstjóra og prentara. Jón Helgason fór aftur til Reykjavíkur 1913 og Karl árið eftir. Árið 1915 kom blaðið ekki út í nokkra mánuði.
Prentsmiðjan var síðan flutt í kjallara hússins Skjaldbreið og Þorfinnur Kristjánsson prentari ráðinn til vinnu þetta ár. Útgáfustjórnin ákvað þá um haustið 1915 að hætta útgáfu blaðsins um áramótin 1916. Þorfinnur tók þá blaðið og prentsmiðjuna á leigu og Suðurland hóf göngu sína á ný 18. janúar 1916. Hann sá um allt sjálfur, rekstur prentsmiðjunnar og útgáfu blaðsins og var ritstjóri þess, en hafði öðru hvoru dreng sér til aðstoðar. Þetta var mikil vinna og Þorfinni tókst að halda þessu gangandi til 8. janúar 1917 er síðasta blaðið af Suðurlandi kom út. Þorfinnur hætti þá rekstri prentsmiðjunnar og útgáfu blaðsins og flutti til Kaupmannahafnar.
Rekstur Prentsmiðju Suðurlands hélt þó áfram um sinn og var nú skipt um nafn á blaðinu. Gestur Einarsson á Hæli sem hafði keypt blaðið Suðurland árið 1916 keypti nú blaðið Þjóðólf sem var elsta blað á Íslandi og hóf útgáfu þess að nýju og fyrsta blaðið af 64. árg. Þjóðólfs var prentað 30. mars 1917 í Prentsmiðju Suðurlands á Eyrarbakka.
Blaðið var svo prentað þar áfram það ár, alls 28 blöð, það síðasta 10. des. 1917. Þá varð prentsmiðjan pappírslaus vegna erfiðra samgangna í fyrri heimsstyrjöldinni. Sumar heimildir segja að prentsmiðjan hafi nú verið flutt til Reykjavíkur og ekkert hafi verið prentað þar eftir þetta (Helgakver 1976, Einar Torfason). Hins vegar segir í nýfundinni heimild (Sunnudagur fylgirit Þjóðviljans 30. tbl. 5. 12. 1965, Prentsmiðjustjóri á Eyrarbakka) að Gestur Einarsson hafi ráðið Harald Jónsson (1888–1976) prentara sem prentsmiðjustjóra hjá Prentsmiðju Suðurlands í júlí 1917 og að hann hafi unnið þar fram í mars 1918. (Stéttartal bókagerðarmanna I., bls. 324). Þá samdi Gestur við Prentsmiðjuna Gutenberg í Reykjavík um prentun Þjóðólfs og kom fyrsta blaðið út þar 23. mars 1918. Það er því nokkuð öruggt að prentsmiðjan hefur ekki verið flutt til Reykjavíkur í þetta skipti, en að öllum líkindum verið aðgerðarlaus á Eyrarbakka frá því Haraldur Jónsson hætti þar í mars 1918 og þar til hún er flutt að Haga í Flóa í júní 1919 og skiptir um nafn og heitir Prentsmiðja Þjóðólfs eftir það.