Prentsmiðja Odds Björnssonar
Akureyri 1904–1995
Prentsmiðja Odds Björnssonar hét fyrst Prentsmiðja Norðurlands en nafninu var breytt 1904. Seinna breyttist það í Prentverk Odds Björnssonar en var oft kallað POB og var stofnað til hliðar við Bókaforlag Odds Björnssonar, sem starfaði frá 1887. Oddur lauk prentnámi í Reykjavík 1884 og stundaði síðan framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Hann vann þar við prentun hjá prentsmiðjunum Ísak Koohns, S.L. Møller og J.H. Schultz til ársins 1901, en fluttist þá til Akureyrar og stofnaði þar prentsmiðju. Oddur var fyrstur allra íslenskra atvinnurekenda til að taka upp átta stunda vinnudag. Hann var kjörinn heiðursborgari Akureyrar 1935.
Prentsmiðja Odds var fyrst í Aðalstræti 17 á Akureyri, síðan í Hafnarstræti 90 og Hafnarstræti 88b. Flutti síðan að Tryggvabraut 18 árið 1977. Jakob Kristjánsson fyrsti vélsetjarinn á Íslandi starfaði í P.O.B. frá 1901 til 1909 og aftur frá 1946 þar til hann lét af störfum vegna aldurs.