Prentsmiðja Magnúsar Ólafssonar
Ísafirði 1907–1915
Magnús Ólafsson (1875–1967) prentari virðist hafa verið með eigin prentsmiðju og unnið eitthvað við prentun áfram eftir að hann hætti sem prentsmiðjustjóri í Prentsmiðju Þjóðviljans unga 1901 þar sem hann lærði. Í æviregistri hans í Stéttartali bókagerðarmanna stendur að hann hafi rekið eigin prentsmiðju 1901–1908. En hann var líka verslunarstjóri, formaður á vélbáti nokkur ár og átti hlut í útgerð með öðrum. Prentstörf stundaði hann þó jafnan öðrum þræði, stendur í Prentsmiðjusögu Vestfirðinga (1937).
Árið 1907 varð Litla prentsmiðjan eign Magnúsar Ólafssonar prentsmiðjustjóra. Prentaði hann mest ýmsa smáprentun en líka nokkur rit, svo sem: Fyrirlestur um Kristján Jónsson Fjallaskáld, eftir Guðmund Guðmundsson skáld, 1908 og Bifreiðin, þýddar sögur, eftir sama, 1909. Eins var blaðið Haukur prentað hjá Magnúsi 1906 að hluta og 1907–1909. Magnús var eini prentarinn í prentsmiðjunni, en hann tók einn nema, Guðbjart Ásgeirsson, sem var þar í tvö ár en kláraði ekki námið. Ólafur sonur hans vann þar líka nokkuð.
Magnús vann í Félagsprentsmiðjunni í Reykjavík 1912–1914 og flutti prentsmiðju sína til Reykjavíkur 1913, í því skyni að selja hana þar, ef hægt væri. Af því varð þó ekki og var hún flutt aftur vestur. Árið 1916 keyptu nokkrir menn á Ísafirði prentsmiðju Magnúsar og hófu útgáfu blaðsins Njörður, en prentsmiðjan var látin heita Prentsmiðja Njarðar.