Prentsmiðja Kaþólsku kirkjunnar
1952–1992
Fljótlega eftir að Kaþólska kirkjan hafði numið land að nýju á Íslandi var tekið til við útgáfustarfsemi til að breiða út boðskap hinnar Rómversk kaþólsku kirkju. Þannig var t.d. gefin út Kaþólsk sálmabók árið 1908 og Kaþólsk fræði árið 1922. Árið 1926 hófst útgáfa á ritinu Merki Krossins sem gefið hefur verið úr af kirkjunni allar götur síðan. 1951 kom út á vegum kirkjunnar bókin Sögur úr biblíunni, prentuð hjá Ísafoldarprentsmiðju í Reykjavík. Þegar horft er á ártalið má leiða að því líkum að kostnaður eða umstang við þessa útgáfu hafi orðið til þess að kirkjan tók það skref að koma sér upp eigin prentsmiðju til að sinna útgáfu málum sínum.
Jóhannesi Gunnarsyni biskupi hafði lengi verið ljós nauðsyn þess að kirkjan ætti sína eigin prentsmiðju, því að það var dýrt að láta prenta bækur og blöð kirkjunnar en ekki hægt að vænta neins hagnaðar af sölu þeirra. (Torfi Ólafsson „Merki krossins“ 1978)
Tók biskup nú á það ráð að stofnsetja litla prentsmiðju í húsnæði sem nýverið hafði losnað í bakhúsi við st. Franciskusspítalann í Stykkishólmi. Ástæða þess að biskup leitaði vestur í Hólm með uppsetningu á prentsmiðju er væntanlega sú að prentverk var gömul hefð hjá st. Franciskussystrum og var fyrsta prentsmiðjan á þeirra vegum stofnuð í Vanves við París árið 1889. Til að veita prentsmiðjunni forstöðu var fengin systir Rosa Sterck en hún hafði lært prentiðn af föður sínum sem átti og rak prentsmiðju í Bruxelles í Belgíu, auk þess að hljóta viðbótar þjálfun í prentsmiðju á vegum reglunnar. Systir Rósa kom til landsins sumarið 1952 og fyrsti tækjabúnaðurinn til prentverksins þá um haustið. Prentsmiðjan tók til starfa árið eftir. Húsnæðið var ekki stórt og fyrsta prentvélin var lítil og fornfáleg leturpressa með stóru svinghjóli, amerísk af gerðinni Craftsmen Machinery C.M.C Jobber, ásamt skurðarvél og heftivél. Þarna var strax árið 1953 tekið til við að prenta Merki krossins en lítið vitað um hvort og hvað annað var prentað fyrstu árin. Fljótlega var byggt við prentsmiðjuna og tækjabúnaður aukinn. Á myndum frá fyrstu árum prentsmiðjunnar má m.a. sjá stóra hæðarprentvél, cylindervél af gerðinni Albert Frankenthal-automat, sem mun framan af hafa verið aðal prentvél prentsmiðjunnar. Þá var einnig í prentsmiðjunni með tíð og tíma, gríðarstór pappírshnífur, brotvél, saumavél og allur helsti búnaður sem þurfti til að prenta og binda inn bækur.
Fyrsta bókin sem prentuð var í prentsmiðju Kaþólsku kirkjunnar var Breytin eftir Kristi en sú bók var á þeim tíma talin mest lesna bók í veröldinni á eftir Biblíunni. Bókin kom út í fjórum hlutum á árunum 1955–1962. Næst var prentuð Kaþólsk messubók, fyrst messutextar tengdir Dymbilvikunni 1958 og síðan messubókin öll í þremur hlutum árið 1959. Árið 1962 var gefin út barnabók með litmyndum: Morgunstjarna og á árunum 1962–1964 var áðurnefnd bók Sögur úr biblíunni endurútgefin.
Framan af var allt lesmál sett í höndum. Lausletri var raðað í sátur eða „satsa“ eins og það mun kallað af fagmönnum. Þetta er seinleg nákvæmnisvinna en systurnar, hjúkrunarkonur og klaustursystur, gripu flestar í það að aðstoða í prentsmiðjunni þegar á þurfti að halda meðfram annarri vinnu við spítalann. Árið 1969 var prentsmiðjuhúsið stækkað aftur og var þá fengin Intertype-setjaravél í stað lausaletursins. Létti það vinnuna og jók afköstin verulega. U.þ.b 3 tonn af blýi fóru í setninguna á ári hverju. Í prentsmiðjunni var prentað allt lesmál sem Kaþólska kirkjan gaf út en í stöku tilfellum sáu systurnar um setningu og aðra forvinnu þó prentun og bókband færi fram annarsstaðar (oft hjá prentsmiðjunni Leiftri). Á árum upp úr 1970 voru prentaðar vinsælar barnabækur með biblíusögum, 15 talsins, og stóð sú útgáfa fram á síðustu daga prentsmiðjunnar. Til eru nokkrir verðlistar og forprentaðar bókaleifaskrár sem gefa yfirsýn yfir það hvaða bækur voru prentaðar og gefnar út af kirkjunni. Systurnar prentuðu einnig allskyns smáprent fyrir fyrirtæki og einstaklinga, í Stykkishólmi og víðar, auk þess að gefa út jólakort og prenta sín eigin jólamerki um tíma.
Það voru þrjár systur sem mest störfuðu í prentsmiðjunni, þær systir Rósa, systir Petra og systir Lucille en eins og áður greinir komu margar hina systranna til aðstoðar þegar mikið var umleikis. Á árunum 1959–1970 starfaði í prentsmiðjunni, með hléum, Anna Birna Ragnardóttir sem hugðist nema bókband og starfa við það.
Eftir að prentsmiðjan var stækkuð var bætt nokkuð við vélakostinn. Árið 1980 er verið að prenta nýja Guðfræðibók í prentsmiðjunni. Þá eru í vélasalnum þrjár prentvélar, gamla Albert cylinder-vélin og tvær Heidelbergvélar, ein cylinder-vél og ein Heidelberg Tiegel eða vindmylla eins og þessar vélar munu einnig vera kallaðar. Upp úr þessu fara gömlu vélarnar að tínast út og ný tæki að ryðja sér til rúms. Um miðjan áratuginn er búið að selja stóru Heidelberg cylindervélina og rífa Albert-vélina þannig fóturinn var eftir með borðplötu ofan á. Þá var „Dígullinn“ einn eftir. Systir Rósa féll frá árið 1988 en eftir hennar dag voru það þær systir Petra og systir Lucille sem sáu um prentverkið ásamt Marc Deríveau, faglærðum prentara sem réðist til prentsmiðjunnar árið 1984.
Í kringum 1990 hélt offsettæknin innreið sína. Keypt var offset-prentvél af gerðinni RYOBI ITEK 975 CPD ásamt nauðsynlegum búnaði til myndamótagerðar, plötulýsingarskápur, myndavél, hreinsiskápur, tölva, prentari og skanni. Það hefur stytt mjög tímann frá hönnun til prentunar þegar tekið var til við að gera photopolymer-myndmót og offsetprentplötur á staðnum en áður höfðu blýmyndamótin verið unnin hjá myndamótagerðum á höfuðborgarsvæðinu eða fengnar erlendis frá.
Árið 1992 var prentsmiðjan seld til einkaaðila: Prentsmiðju Stykkishólms ehf sem stofnuð hafði verið gagngert til að viðhalda prentsmiðjuþjónustu í Stykkishólmi. Systurnar tvær störfuðu áfram hjá Prentsmiðju Stykkishólms en þegar hún var seld Prentsmiðjunni Ljósbroti árið 1997 var aðkomu þeirra að prentverkinu endanlega lokið. Prentun var hætt innan veggja st. Franciskusspítalans árið 2002 og var prentsmiðjan þá tæmd og húsnæðið tekið undir aðra starfsemi.
Bókatitlar úr verðlista yfir bækur til sölu hjá Kaþólsku kirkjunni árið 1990
Rómversk-kaþólsk messubók. – Vegurinn sannleikurinn og lífið. – Frans frá Assisí. – Breytni eftir Kristi. – Þrenningin. – Bernadette Soubirous. – Sögur úr Biblíunni. – Á efsta degi. – Förin til Lourdes. – Kristskirkja í Landakoti á ísl., ensku og þýsku. – Sátt við Guð. – Fordæmi þitt. – Ást til æfiloka. – Rósakransinn.- Þetta er kaþólska kirkjan. – Maximilian Kolbe. – Heilög Barbara. – Edith Stein. – Heilög Teresa frá Lisieux. – Morgunstjarnan. – Guð kallar á mig. – Guð kemur til fundar við okkur. – Saman í kærleika. – Komið og sjáið. – Legg þú á djúpið. – Jesús vinur minn. – Faðir vor. – Við biðjum í messu. Biblíu -barnabækur úr N.T. Biblíu -barnabækur úr G.T. – Daglegar bænir fyrir börn. – Leiðbeiningar um rósakransinn.- Betlidrengurinn Jugga. – Bréf til vina krossins. – Vasaalmanak FKL 1990. – Merki krossins. – Þorlákssaga helga.
Ægir Breiðfjörð Jóhannsson
Greinin birtist áður á vefsíðunni Gáð ofan í glatkistuna. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.
Heimildir
Lítið er um aðgengilegar frumheimildir um Prentsmiðju Kaþólsku kirkjunnar í Stykkishólmi. Annars vegar þá eru dagbækur st. Franciskussystra geymdar úti í Bruxelles og eru á frönsku ofan í kaupið. Hins vegar er fátt um gögn þar að lútandi hjá kirkjunni samkvæmt upplýsingum frá bókasafninu í Landakoti. Mest hefur því verið stuðst við upplýsingar sem finna má í áður útgefnu efni og dagblaðagreinar ásamt þeim upplýsingum sem hægt er að tína upp úr ljósmyndum og þeim eftirlegugögnum, klisjubókum og myndamótum sem ég tók til handargagns þegar prentsmiðjunni var endanlega lokað árið 2002. Einnig hefur verið rætt við nokkra aðila sem tengdust prentsmiðjunni með einum eða öðrum hætti.
Titilmynd ásamt mynd af Hr. Jóhannesi Gunnarssyni biskupi og mynd af systur Rósu í vélasalnum eru úr klisjubókum prentsmiðjunnar.
Munnlegar heimildir
Viðtal við Dr. Ómar Jóhannesson, 08.10.2020, sem átti og rak prentsmiðjuna Ljósbrot 1997–2002. Hann útvegaði góðfúslega ljósmyndir og upplýsingar um þau tæki sem voru til staðar þegar prentsmiðjan var í hans höndum.
Viðtal við Marc Deríveau, 14.10.2020. Um árin 1984–1992.
Bækur
Friðrik R Rafnar. Heilagur Frans frá Assisí. Æfi hans og starf. 2. útgáfa endurskoðuð. Útgefandi Kaþólska kirkjan á Íslandi 1979.
Sögur úr Biblíunni. Útgefandi Kaþólska kirkjan á Íslandi 1963.
Torfi Ólafsson „Merki krossins“ 1978.
Ægir Breiðfjörð Jóhannsson. Heilbrigðismál í 60 ár. Útgefandi St. Franciskusspítali 1996.
Fréttir af prentsmiðjunni í dagblöðum
Mbl.14.11.1961
Mbl. 29 10 1987
Mbl.30.03.1988
Mbl. 17.07 1988
Mbl.is 13. febrúar 2005
Tíminn 29.07.1970
Tíminn 07 11 1976
Tíminn 07.08.1982
Dagblaðið Vísir. 18.07.1987.
Af Internetinu
Wikipedia: Kaþólska kirkjan á Íslandi