Prentsmiðja J. H. Schultz
Kaupmannahöfn (1661) 1783-
Árið 1783 keypti Johan Frederik Schultz (1756-1817) litla prentsmiðju í Kaupmannahöfn og byrjaði að gefa út bækur. Prentsmiðjan stækkaði ört og árið 1795 keypti hann Høpfners háskólaprentsmiðju en hún rakti aldur sinn aftur til 1661. Um 1800 var prentsmiðjan orðin sú stærsta í Kaupmannahöfn með tilheyrandi forlagi og bókaverslun.1Salmonsens Konversationsleksikon. 1915-1930 Christian Blangstrup, Johs. Brøndum-Nielsen og Palle Raunkjær. København: J. H. Schultz Forlagsboghandel.
Eftir að Johan Frederik dó rak ekkja hans fyrirtækið áfram og sonur þeirra, Jens Hostrup Schultz (1782-1849), yfirtók reksturinn 1821 og gaf fyrirtækinu það nafn sem það hefur síðan borið. 1868 tók fyrirtækið við prentun á Ríkisdagstíðindum og varð upp úr því stærsta prentsmiðja landsins. Fyrirtækinu var breytt í hlutafélag árið 1906 og varð brátt stærsta prentsmiðjan á Norðurlöndum með 150 manna starfsliði.2Petersen, Fr. Schausen lektor. 1951. Vor tids Leksikon: Bind 19, s. 97. Schultz. J. H. , Bogtrykkeri. Redigeret af Hansen, A.P. København: Aschehaug Dansk Forlag. J. H. Schultz stofnaði einnig bókaútgáfu og sérhæfði sig í útgáfu á stórum ritverkum og fékk útgáfuréttinn á Salmonsens Konversationsleksikon 1910 og gaf út í 25 bindum á árunum 1915-1930. Á stríðsárunum 1941-1943 gaf fyrirtækið út Sögu Danmerkur í 6 bindum.
Haldið var upp á 300 ára afmæli fyrirtækisins árið 1961. Sama ár var Ole Trock-Jansen (1923-) ráðinn ritari stjórnar, en hann var útlærður prentari frá Schultz en fór síðan í framhaldsnám til Stokkhólms, Englands og Bandaríkjanna. Fyrirtækið flutti til Møntergården í miðborg Kaupmannahafnar 1963 samtímis því að Ole Trock-Jansen var útnefndur tæknilegur forstjóri. Hann varð síðan framkvæmdastjóri 1967 og eignaðist þá meirihlutann í fyrirtækinu. Tíu árum seinna varð hann eini eigandi fyrirtækisins.3http://www.denstoredanske.dk/Kunst_og_kultur/Bog-_og_biblioteksv%C3%A6sen/Boghandel_og_forlag/Schultz
1986 var samsteypunni deilt upp í fjölda dótturfélaga í eigu Schultz Holding, sem aftur er eign Schultz-sjóðsins. Á þessum árum gekk fyrirtækið í gegnum miklar tæknibreytingar og fjárfesti í nýjum offsetprentvélum og tölvutækni. Møntergården var selt 1988 og fyrirtækið flutti til Valby. Til að tryggja þróunina innan samsteypunnar keypti Schultz fyrirtækið SynergiData árið 1996 og nokkru seinna nettæknifyrirtækið Dansk Internet Selskab. Árið 1998 fékk Schultz Norræna umhverfismerkið Svaninn og 2004 evrópsku umhverfisvottunina EMAS.
Síðustu ár hafa verið miklar breytingar innan dótturfélaga samsteypunnar og leitað meira inn á svið tölvutækni. Starfsmenn samsteypunnar voru um 250 árið 2007. Dótturfélagið Schultz Grafisk var yfirtekið af Rosendahl-samsteypunni 2009. Haldið var upp á 350 ára afmæli Schultz árið 2011.