Prentsmiðja Hafnarfjarðar
Hafnarfirði 1907–1910
Jón Helgason (1877–1961) prentari og Karl H. Bjarnarson (1875–1957) keyptu Aldar-prentsmiðjuna í Reykjavík af séra Lárusi Halldórssyni Fríkirkjupresti 25. ágúst 1907 og fluttu hana til Hafnarfjarðar. Nefndu þeir hana Prentsmiðju Hafnarfjarðar. Hóf Karl þar prentnám hjá Jóni 1. október 1907, en þeir starfræktu prentsmiðjuna saman til 1910 þegar þeir seldu hana til Eyrarbakka og fluttu þangað sjálfir búferlum í maí sama ár. Þar lauk Karl námi sínu. Jón Helgason hafði hins vegar meiri reynslu af prentun. Hann lærði í Félagsprentsmiðjunni og fór síðan til Noregs og vann þar í tvö ár. Var þá í Prentsmiðju Seyðisfjarðar hjá Davíð Östlund um tíma. Gerðist þá einn af stofnendum Prentsmiðju Gutenbergs í Reykjavík og vann þar þangað til hann keypti Aldar-prentsmiðjuna með Karli H. Bjarnarsyni 1907.