Prentsmiðja Arnfirðings
Bíldudal 1901–1902
Pétur J. Thorsteinsson (1854–1929) stórútgerðarmaður á Bíldudal var svili Skúla Thoroddsens (1859–1916) sýslumanns í Ísafjarðarsýslu. Konur þeirra Ásthildur og Theodóra voru systur. Pétur stofnaði blaðið Arnfirðing á Bíldudal og kom á fót prentsmiðju þar, sem nefndist eftir blaðinu og hét Prentsmiðja Arnfirðings.
Hann hafði útvegað sér prentpressu frá Birni Jónssyni, eiganda Ísafoldar og nýtt letur frá útlöndum. Hann réð síðan Þorstein Erlingsson (1858–1914) skáld sem ritstjóra, en hann hafði verið ritstjóri Bjarka á Eskifirði árin á undan. Tilgangur Péturs með þessu var að efla menningu á suðurhluta fjarðanna og bæta í skarð Þjóðviljans, sem nú var fluttur til Bessastaða með Skúla Thoroddsen.
Arnfirðingur kom fyrst út í nóvember 1901 og var í svipuðu broti og Fréttablaðið er í dag eða 41 x 28,5 sm, sem sýnir að pressan hefur verið nokkuð stór. Hann var aðeins prentaður á Bíldudal til 10. júlí 1902, alls 22 tölublöð, en eftir það var hann prentaður í Félagsprentsmiðjunni í Reykjavík þar til hann hætti að koma út í janúar 1903.