Guðmundur R. Guðmundsson.

Guðmundur R. Guðmundsson.

Ingibjörg S. Ingjaldsdóttir.

Ingibjörg S. Ingjaldsdóttir.

Prentmet

Reykjavík 1992–2019

Hjónin Guðmundur Ragnar Guðmundsson (1967–) prentsmiður og rekstrarfræðingur og Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir (1968–) rekstrarfræðingur stofnuðu prentsmiðjuna Prentmet í apríl 1992. Fyrirtækið var þá í 50 fm leiguhúsnæði að Suðurlandsbraut 50 og var þar til 1999. Ný prentvél var keypt 1995 og staðsett í Skeifunni 6 og sama ár voru keyptar tvær litlar prentsmiðjur, G.Ó. prent (Guðmundar Óskarssonar) og Prentverk Skapta Ólafssonar og þeir urðu síðan báðir starfsmenn Prentmets.

Haustið 1999 keypti Prentmet 510 fm húsnæði í Skeifunni 6 og flutti þangað alla starfsemi sína í febrúar árið 2000. Í lok desember árið 2000 keypti Prentmet Prentberg í Kópavogi og Prentverk Akraness, sem heitir nú Prentmet Vesturlands. Í janúar 2001 var Fjölritunarstofa Daníels Halldórssonar keypt, bæði rekstur og húsnæði, en hún var á sömu hæð og Prentmet, stofnuð 1927 og elsta fjölritunarstofa landsins.

Eigið húsnæði var nú orðið 1300 fm og í desember 2002 voru starfsmenn orðnir um 50 talsins. Í mars það ár var Íslenska prentsmiðjan keypt og starfsemi hennar flutt í Skeifuna 6. Í desember keypti Prentmet 3800 fm húsnæði af DeCode að Lynghálsi 1 og var flutt í nýja húsnæðið rétt fyrir jól 2002.

Í febrúar árið 2003 keypti Prentmet Félagsbókbandið-Bókfell og nýjar vélar voru keyptar það ár fyrir umbúðagerð og prentun á þær. Prentsmiðja Suðurlands var síðan keypt árið 2006 og heitir nú Prentmet Suðurlands. Árið 2007 keypti svo Prentmet rekstur Prentsmiðju Hafnarfjarðar ehf. Öll fyrirtækin sem Prentmet hefur keypt undanfarin ár eru nú komin undir nafn Prentmets.

Prentmetsskólinn var stofnaður í september 2005. Markmið hans er að upplýsa starfsmenn Prentmets um starfsemi í öllum deildum fyrirtækisins, umhverfi, þjónustu og framleiðslu og að þeir geti orðið almennt góðir í að kynna fyrirtækið. Prentmet í Reykjavík hlaut Svansvottun — Norræna umhverfismerkisins í júlí 2011, Prentmet Suðurlands í september sama ár og Prentmet Vesturlands í nóvember 2012.

Árið 2019, 20. mars, birtist á heimasíðu Prentmets að það hefði keypt alla prentvinnslu Odda ásamt tækjum. Kaupin voru gerð með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda. 20. nóvember voru kaupin samþykkt af SKE. Nýtt nafn er Prentmet Oddi og starfsmenn eru rúmlega 100 talsins.