Prenthús Hafsteins Guðmundssonar
Seltjarnarnesi 1966–1973
Þegar Hafsteinn Guðmundsson (1912–1999) lét af störfum hjá Prentsmiðjunni Hólum árið 1966, stofnaði hann nýja prentsmiðju sem stundum var nefnd Prentsmiðjan Skarð en á bókum frá henni stóð yfirleitt Prenthús Hafsteins Guðmundssonar og var það til húsa að Bygggarði á Seltjarnarnesi. Í merki eða lógói fyrirtækisins eru reyndar bæði nöfnin. Prenthús Hafsteins Guðmundssonar í sporöskjulöguðum hring um dökkan flöt þar sem stendur Skarð og yfir eru þrír fuglar á flugi.
Auk þess að reka prentsmiðjuna mun Hafsteinn Guðmundsson hafa hannað bækur áfram fyrir Mál og menningu, Heimskringlu og önnur forlög á þessum árum.
Þá var hann líka með Bókaútgáfuna Þjóðsögu svo verkefnin voru næg fyrir prentsmiðjuna. En árið 1973 var Prenthúsið lagt niður og það kom orðsending í dagblöðum frá hlutafélaginu Skarði, sem var undirrituð af Hafsteini, að það hafi selt hlutafélaginu Hólum Prenthús Hafsteins Guðmundssonar. Jafnframt var orðsending frá Prentsmiðjunni Hólum um að þeir hafi keypt Prenthúsið og að starfsemi fyrirtækisins verði fyrst um sinn rekin bæði í Þingholtsstræti 27 og í Bygggarði á Seltjarnarnesi.