Offsetmyndir
Reykjavík 1957–
Magnús Vigfússon (1929–2017) stofnaði prentsmiðjuna Offsetmyndir 1957 ásamt Þóri Hallgrímssyni (1925–1973). Þeir ráku prentsmiðjuna saman allt til dánardægurs Þóris, 19. janúar 1973. Fyrst voru þeir til húsa að Brávallagötu 16 í kjallara, en fluttu síðan 1965 í Mjölnisholt 14. Tveir synir Magnúsar lærðu þar hjá honum iðnina: Svavar Magnússon (1951–) sem er offsetprentari og hefur unnið þar frá árinu 1968 og Ingvi Magnússon (1959–) sem er offsetljósmyndari og vann þar frá árinu 1978–1988. Árið 2006 var fyrirtækið flutt að Stórhöfða 20, en þar var það til húsa allt til ársins 2017, að Svavar flutti það heim til sín að Neðstabergi 22. Þar hefur hann aðstöðu til að vinna í sínu fagi, en vinnur auk þess í Litróf að Vatnagörðum 14.