Lárus Valberg.

Lárus Valberg.

Offsetfjölritun

Reykjavík 1977–2006

Offsetfjölritun var stofnuð árið 1977 af þremenningunum Lárusi Valberg (1951–), Leifi Aðalsteinssyni (1943–) og Gunnari Hámundarsyni (1940–2014) og var prentsmiðjan fyrst í bílskúr í Efstasundi 21 í Langholtshverfi í Reykjavík.

Lárus hafði unnið við prentvélaviðgerðir, Leifur var skriftvélavirki og Gunnar hafði unnið hjá Fjölritunarstofu Daníels Halldórssonar. Enginn þeirra var því lærður bókagerðarmaður, en tæknibreytingarnar voru örar á þessum tíma og stundum erfitt að gera kröfur um fagkunnáttu.

Ári seinna eða 1979 var flutt í Síðumúla 20 upp á 2. hæð en síðar var starfsemin flutt í Lágmúla 7, þar sem hún var í nokkur ár. Þá keyptu þeir Lárus og Leifur hlut Gunnars og fluttu fyrirtækið að Mjölnisholti 14. Árið 2003 keypti Lárus síðan hlut Leifs og var hann þá orðinn eini eigandi prentsmiðjunnar.
Á sama tíma og Kristján Ingi Einarsson í Leturprenti seldi tveimur starfsmönnum sínum, Burkna Aðalsteinssyni og Hálfdáni Gunnarssyni fyrirtækið árið 2006, keyptu þeir félagar fyrirtækið Offsetfjölritun af Lárusi Valberg. Offsetfjölritun hefur prentað mikið af námsefni fyrir ýmsa aðila á undanförnum árum.