Litróf og Litróf-Hagprent
Reykjavík 1943–2004 og 2004–
Prentmyndastofan Litróf var stofnuð árið 1943 af prentmyndasmiðunum Eymundi Magnússyni (1913–2009) og Ingimundi Eyjólfssyni (1910–1968). Ingimundur seldi Eymundi fljótlega sinn hlut og rak Eymundur fyrirtækið einn til ársins 1982.
Fyrst var prentmyndastofan til húsa að Grettisgötu 51, en var svo flutt í Einholt. Þegar tölvutæknin hélt innreið sína þróaðist starfsemin út í rekstur hefðbundinnar prentsmiðju undir stjórn nýs eiganda, Konráðs Inga Jónssonar (1956–). Árið 2004 keypti Litróf prentsmiðjuna Hagprent og sameinaði rekstur þessara tveggja gamalgrónu fyrirtækja. Litróf er nú staðsett að Vatnagörðum 14 í Reykjavík. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 20 manns og er það eingöngu fagfólk með margra ára starfsreynslu að baki.
Fyrirtækið hefur yfir að ráða þremur Heidelberg Speedmaster fjöllita prentvélum af nýjustu gerð ásamt vélum fyrir smáprent, eyðublaðaprentun, stönsun, möppugerð o.fl. Prentsmiðjan er með stafræna prentdeild og tvo Canon plotterprentara, sem prenta allt að 1 metri á breidd og langt eftir þörfum. Í mars 2013 hlaut Litróf Svansvottun — Norræna umhverfismerkisins.