Hrappseyjarprent
Reykjavík 1945–1947
Þessi prentsmiðja var stofnuð í Reykjavík með vélum Prentverks Akraness sem þangað fóru og Vilhjálmur Svan Jóhannsson prentari fylgdi með og var prentsmiðjustjóri til 1947. Prentsmiðjan var til húsa í Skerjafirði á Hörpugötu 13–14, en Vilhjálmur Svan bjó í húsinu nr. 14. Skrifstofan var í Kirkjuhvoli, en framkvæmdastjóri var Grímur Gíslason (1913–1979), sem var líka annar tveggja framkvæmdastjóra Íslendingasagnaútgáfunnar, hinn var Gunnar Steindórsson (1918–1966). Eitthvað mun Hrappseyjarprent hafa prentað af bókum útgáfunnar, en mikið samstarf var á milli þessara aðila á þessum árum og getur Guðni Jónsson prófessor þess í formála fyrir Nafnaskrá Íslendinga sagna, XIII. bindi.
Árið 1947 var prentsmiðjunni skipt í tvennt. Önnur var nefnd Snorraprent en hin Prentfell og fékk Vilhjálmur Svan þann helming og rak hana til 1965 (Sjá: Snorraprent og Prentverk Akraness 1942–1946). Steinar Sigurjónsson (1928–1992) skáld lærði prentun í Hrappseyjarprenti í eitt ár 1946, en lauk síðan námi í Prentverki Akraness 1950.