Hólaprentsmiðjan
Reykjavík 1927–1928
Það voru prentararnir Vilhelm Stefánsson (1891-1954) og Guðmundur J. Guðmundsson (1899-1959) sem stofnuðu Hólaprentsmiðjuna í mars 1927. Prentsmiðjan var til húsa í Hafnarstræti 18. Þeir auglýstu í Alþýðublaðinu 1. mars 1927, bls. 3, að prentsmiðjan mundi leysa af hendi bæði ódýrt, fljótt og vel alls konar smáprentun, sem síðan er talin upp:
Grafskriftir – Erfiljóð – Brúðkaupsljóð – Trúlofunarkort – Nafnspjöld – Borðseðlar – Þakkarkort – Kranzborðar – Happdrættismiðar – Aðgöngumiðar – Söngskrár – Sýningarskrár – Gluggaauglýsingar – Lyfseðlar – Bréfhausar – Umslög – Víxlar – Ávísanir.
Þeir félagarnir seldu síðan prentsmiðjuna 1928 til Hafnarfjarðar og Guðmundur fylgdi henni þangað (Prentsmiðja Hafnarfjarðar), en Vilhelm flutti til Vestmannaeyja og var yfirprentari hjá Prentsmiðju Gísla J. Johnsens til 1934.