Héraðsprent
Egilsstöðum 1972–
Í september 1972 flutti Þráinn Skarphéðinsson (1937–) prentari til Egilsstaða ásamt konu sinni Gunnhildi Ingvarsdóttur (1953–) prentsmið sem var fædd og uppalin þar í sveit. Þráinn flutti með sér litla prentsmiðju sem hann hugðist starfrækja þar með annarri vinnu, en aðeins Nesprent á Norðfirði var starfandi á Austurlandi á þessum tíma og hafði svo verið á undanförnum tveimur áratugum.
Fyrstu árin var prentsmiðjan í 30 fm bílskúr að Lagarási 8, en verkefnin jukust fljótt og árið 1976 var flutt í 60 fm bílskúr að Tjarnarbraut 13 þar sem Þráinn og Gunnhildur höfðu reist sér íbúðarhús. Jafnframt var vélakosturinn bættur og þau keyptu Intertype setningarvél og Johannesberg blaða- og bókapressu. Á sama tíma fóru þau að prenta Austra, blað framsóknarmanna, sem var vikublað og Þingmúla, blað sjálfstæðismanna og önnur blöð sem komu út óreglulega.
Árið 1977 keyptu Héraðsprent og Austri vél í sameiningu til myndamótagerðar og var það í fyrsta sinn sem slík vél var sett upp á Austurlandi. Húsnæðið að Tjarnarbraut 13 var orðið of lítið og byggt var nýtt prentsmiðjuhús að Tjarnarbraut 21. Flutt var inn í nýja húsið 1982 og voru þá vélar og tæki endurnýjuð. Keypt var setningartölva, stór offsetprentvél, filmuvinnslutæki og rafknúinn skurðarhnífur. Með þessum breytingum var blýprentun lögð niður í Héraðsprenti. Fyrsta blaðið sem var tölvusett og offsetprentað á Austurlandi var blaðið Gálgás, blað Alþýðubandalagsins en það kom út 23. nóvember 1982.
Lengst af var Þráinn Skarphéðinsson eini fagmenntaði starfsmaðurinn í Héraðsprenti því það gekk erfiðlega að fá þá til starfa austur á land. Ýmsir prentarar og setjarar komu þó, en helst á sumrin og voru þá stuttan tíma í einu.
Gunnhildur fór snemma að starfa í prentsmiðjunni, en hóf þar síðan nám í prentsmíði og lauk því 1996. Austurríkismaðurinn Bernhard Josef Trauner (1956–) starfaði þar 1982–1985, en hann var menntaður „lithographer“. Í dag vinna átta manns í Héraðsprenti og meirihlutinn fagmenn. Fyrirtækið hefur enn flutt sig um set og er nú staðsett að Miðvangi 1 á Egilsstöðum. Það hefur nú yfir að ráða nýjustu tækni sem völ er á: Heidelberg GTO offsetprentvél og annarri Speedmaster 74 fjögurra lita, ennfremur stafræna prentvél, Canon Imagepress C6010S, sem er sú eina sinnar tegundar á landinu. Héraðsprent gefur út Dagskrána á Austurlandi. Fyrirtækið fékk Svansvottun 2016.