Helluprent
Hellu 1978–1982
Það voru bræðurnir Bergsteinn Pálsson (1939–) prentsmiður og Kristján Karl Pálsson (1933–2012) prentari sem voru helstu hvatamenn að stofnun prentsmiðjunnar Helluprents árið 1978.
Að þessu verkefni komu líka ýmsir heimamenn, t.d. hreppsnefndarmenn, Sigurður Óskarsson formaður verkalýðsfélagsins og fyrirtækið Tjaldborg, sem var fyrirferðarmikið á staðnum um þær mundir, rak meðal annars hótel fyrir utan það að sauma tjöld fyrir landsmenn.
Bergsteinn og Kristján lögðu til prentvélarnar, en þær komu úr prentsmiðju þeirra Víkurprenti, sem þeir ráku á árunum 1976–1978. Hellumenn höfðu haft þó nokkur viðskipti við Víkurprent og lögðu þess vegna mjög að þeim bræðrum að flytja sig austur á Hellu með prentsmiðjuna. Þeir slógu til og byrjuðu á því að byggja stórt prentsmiðjuhús á staðnum og fékk þá Helluprent lán hjá Byggðastofnun til framkvæmdanna. Þegar þeir voru fluttir inn varð Kristján Pálsson prentsmiðjustjóri.
Verkefni prentsmiðjunnar var aðallega bókaprentun, en reksturinn var alltaf mjög erfiður, meðal annars vegna fjarlægðar frá Reykjavík en flutningskostnaður var mikill. Þetta ævintýri endaði svo á því að árið 1981 keypti hreppurinn húsið og 1982 var starfseminni hætt.