Formprent
Reykjavík 1970–2016
Kristinn Ingvar Jónsson (1940–) prentari og prentsmiðjustjóri nam prentun í Félagsprentsmiðjunni 1957–1961 og vann þar síðan til 1966. Var í Plastprenti til 1970, en stofnaði þá prentsmiðjuna Formprent. Kristinn byrjaði með prentsmiðjuna í litlum bílskúr að Sogavegi 118 í Reykjavík, en flutti stuttu seinna í húsnæði við Eiríksgötu. Um 1973 keypti Kristinn stóra Roland einslita prentvél af þrotabúi Lithoprents og leigði síðan húsnæðið sem það hafði verið í við Lindargötu og þar var Formprent til ársins 1979. Þá keypti hann gamla Bókfellshúsið að Hverfisgötu 78, bæði jarðhæðina, kjallarann, 2. hæð og bakhúsið og þar rak hann Formprent alla tíð þar til það hætti árið 2016, en þá seldi hann allt húsið undir hótelrekstur Reykjavík Residence.
Formprent var meðalstór prentsmiðja og störfuðu þar um átta til níu manns þegar flest var. Þeir voru með Roland einslita prentvél og aðra 4ja lita af sömu gerð. Seinna var keypt Heidelberg GTO prentvél og um tíma voru þar starfræktar rúlluprentvélar fyrir samhangandi pappír. Þar unnu lengi prentararnir Rudolf Nielsen (1950–) og Björn Árnason (1946–).