Fjölritunarstofa Daníels Halldórssonar
Reykjavík 1927–2001
Daníel Halldórsson (1891-1940) stofnaði þessa fjölritunarstofu 1927 og rak hana að Hafnarstræti 15 til dánardægurs. Þá tók ekkja hans Guðrún Ágústa Guðlaugsdóttir (1892-1948) við rekstrinum til ársins 1947 er sonur þeirra Ívar Daníelsson (1920-) tók við. Árið 1961 var fjölritunarstofan flutt að Ránargötu 19.
Ívar rak stofuna með annarri vinnu til ársins 1969, en í janúar það ár var stofnað sameignarfélag fjölskyldunnar um fyrirtækið og tók þáverandi kona hans Þorbjörg Tryggvadóttir (1922-2007) við daglegum rekstri, en Ívar varð stjórnarformaður. Árið 1985 var ráðist í að kaupa húsnæði í Skeifunni 6 og ráku síðan dóttir Ívars og Þorbjargar, Guðrún Ína og maður hennar Kristinn Valdimarsson, stofuna til ársins 2001, að Prentmet keypti hana.