Einkaprentsmiðja Prentarans
Reykjavík 1920
Þessi prentsmiðja var sérstök að því leyti, að hún var ekki raunveruleg prentsmiðja, sem gekk dags daglega, heldur var henni komið upp í vinnudeilu prentara í Reykjavík 1920. Það var sunnudaginn 4. janúar 1920 sem prentsmiðjueigendur í Reykjavík gáfu út Fréttablað Morgunblaðsins og Vísis og prentarar svöruðu þá með aukablaði af Prentaranum sama dag, en það var sagt prentað í Einkaprentsmiðju Prentarans, hvar svo sem hún hefur verið til húsa. Hins vegar var Fréttablað Morgunblaðsins og Vísis unnið af prentsmiðjustjórunum og nemum í Ísafoldarprentsmiðju. Það var strax farið að undirbúa verkfall og kosin verkfallsnefnd sem kölluð var „Brauðnefndin“. Í henni voru sjö prentarar úr stærstu prentsmiðjunum. Einnig var leitað til útlanda eftir stuðningi og var Steingrímur Guðmundsson seinna forstjóri Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg milligöngumaður félagsins og gekk hann á fund Dansk Typograf Forbund sem studdi íslenska félaga sína dyggilega í þessari deilu.
Þetta var tímamótadeila á margan hátt. Aðalmálið var að koma á átta stunda vinnudegi, en Oddur Björnsson prentsmiðjueigandi á Akureyri hafði boðið prenturum samninga við sig um þetta mál.
Kröfur prentara voru: 40% kauphækkun, hærra aukavinnuálag, átta stunda vinnudagur, sex daga sumarleyfi, og tólf veikindadagar á ári.
Prentsmiðjueigendur í Reykjavík gengu strax að launahækkuninni, en það sem stóð aðallega í þeim var stytting vinnudagsins.
Verkfall hófst og 5. janúar skarst forsætisráðherra í leikinn, en án árangurs. Hann kom því samt til leiðar að stjórnir félaganna hittust og samkomulag náðist um miðlunartillögu sem var samþykkt í báðum félögum og samningar síðan undirritaðir 6. janúar og vinna hófst daginn eftir.
Það sem náðist fram í verkfallinu var eftirfarandi:
1. 40% hækkun allra launa.
2. Aukavinna greidd með 35% álagi.
3. Sunnudaga- og helgidagavinna greidd með 55% álagi.
4. Veikindadagar urðu sex í senn og alls tólf dagar á ári.
5. Sex daga sumarfrí.
6. Uppsagnarfrestur styttur úr tveimur mánuðum í eina viku.
7. Skýlaust loforð um átta stunda vinnudag frá nýári 1921.