Ásprent
Akureyri 1975–1995 og 2006–
Samruni við Ásprent:
POB 1995
Stíll og Alprent 2003
Límmiðar Norðurlands og Prenttorg 2005
Stell 2006
Árni Sverrisson (1944–) prentari stofnaði prentsmiðjuna Ásprent á Akureyri árið 1975 og rak hana til ársins 1979. Þá keyptu prentsmiðjuna hjónin Rósa Guðmundsdóttir (1947–) og Kári Þórðarson (1945–) prentari. Prentsmiðjan var fyrst til húsa í Kaupvangsstræti og síðan í Brekkugötu. Árið 1988 var Ásprent flutt að Glerárgötu 28, þar sem fyrirtækið er rekið enn í dag.
Árið 1995 keypti Ásprent, Prentverk Odds Björnssonar (POB) en það var stofnað 1901. Starfsemi POB var þá flutt á Glerárgötu 28. Árið 2003 sameinuðust fyrirtækin Stíll og Ásprent undir nafninu Ásprent-Stíll hf, og Rósa og Kári hættu að reka fyrirtækið og seldu sína hluti. Synir þeirra þrír, Þórður (1965–), Ólafur (1968–) og Alexander (1975–) áttu 50% í fyrirtækinu á móti þeim og héldu áfram þátttöku. Sama ár var Alprent sameinað Ásprenti-Stíl. Þá voru fyrirtækin Límmiðar Norðurlands og Prenttorg sameinuð fyrirtækinu 2005 og fluttu einnig á Glerárgötu 28. Árið 2006 keypti það prentstofuna Stell á Akureyri, en hún var stofnuð 1989 af Halli Jónasi Stefánssyni (1961–) offsetprentara á Akureyri.
Margskonar prentun er framkvæmd í Ásprenti og má m.a. nefna: stafræna prentun, offsetprentun, límmiðaprentun og útfararskrár. Þá er boðið upp á alls konar skiltagerð, sandblástursfilmur, strigaprentun, stórprentun og bílamerkingar. Þá sér Ásprent einnig um grafíska hönnun og umbrot á ýmis konar prentverkum og myndvinnslu.
Ásprent-Stíll hlaut vottun norræna umhverfismerkisins Svansins árið 2017 og er það 35. fyrirtækið sem hlýtur Svansvottun á Íslandi og það fyrsta á Akureyri. Í dag er Ásprent í eigu KEA og þriggja starfsmanna, þeirra G. Ómars Péturssonar (1964–), Halls Jónasar Stefánssonar (1961–) og Einars Árnasonar (1955–). Framkvæmdastjóri er G. Ómar Pétursson.