GuðjónÓ
Reykjavík 1992–
Árið 1992 tóku nýir eigendur við Prentsmiðjunni GuðjónÓ hf og nefndu hana fyrst Hjá GuðjónÓ. Eigendurnir eru: Þórleifur V. Friðriksson (1948–), Ólafur Stolzenwald (1961–) og Sigurður Þorláksson (1942–). Í dag heitir hún GuðjónÓ — vistvæna prentsmiðjan og er til húsa að Þverholti 13. Prentsmiðja GuðjónÓ hf flutti í húsið í kringum 1978. Starfsemin hefur síðan eflst og blómstrað og eru starfsmenn hennar í dag orðnir 14 talsins. Vélakostur er hefðbundinn: Roland prentvél til bókaprentunar og fyrir stærri upplög. Heidelberg GTO og árið 2013 var tekin í notkun ný Xerox J75 Press stafræn prentvél. 2014 var keyptur stór plotter frá Canon sem tekur rúman meter í prentflöt og lengd eins og rúllan leyfir. Þá eru þeir með þrjá umslagamatara til að auka gæði og hraða í prentun umslaga. SM prentvélin sem er sú nýjasta í flota GuðjónÓ er notuð í gæðaprentun og getur lakkað með vatnslakki og þurrkað um leið. Auk þessa eru margskonar vélar fyrir frágang svo sem brotvél, skurðarhnífar og trukkvélar frá Heidelberg.
Fyrir utan alla almenna prentun hefur GuðjónÓ framleitt dagatalskubb í rúman áratug og hefur skapast sterk hefð fyrir kubbnum en útlit hans hefur verið eins frá byrjun. Þá framleiðir prentsmiðjan mánaðartöl, borðalmanök og umhverfisvænan jólapappír sem ber Svansmerkið. Prentsmiðjan Hjá GuðjónÓ var fyrsta umhverfisvæna prentsmiðjan á Íslandi árið 2000 og hlaut þá Svansvottun. Um 90% af pappírnum sem er notaður er Svansvottaður og kemur það vel út í stafrænu prentuninni, sem nú hefur verið tekin upp. Aðrar breytingar á umhverfissviðinu eru t.d. þær, að nú er hætt að nota filmur við plötugerð og framkalla prentplötur í vökva, sem var mjög hættulegur. Í staðinn eru prentplöturnar ‘laserbrenndar’ stafrænt án allra spilliefna.