Prenthúsið
Reykjavík 1976–
Prentararnir Árni Mogens Björnsson (1946–) og Reynir Hlíðar Jóhannsson (1946–) stofnuðu prentsmiðjuna Prenthúsið í Reykjavík 1976. Það var þá til húsa að Barónsstíg 11, en þeir fluttu nokkru seinna að Höfðatúni 12, á 1. hæð, þar sem Prentsmiðjan Leiftur hafði verið áður. Næst var prentsmiðjan flutt í eigið húsnæði að Faxafeni 12 og var þar í nokkur ár.
Árið 1991 var fyrirtækinu skipt upp á milli Árna og Reynis, Árni rekur prentsmiðjuna en Reynir fékk útgáfuna í sinn hlut. Sama ár flutti Árni með prentsmiðjuna í Skúlatún 6 og þar var hún rekin í níu ár. Þá var flutt að Hverfisgötu 103 og árið 2013 í Skeifuna 9. Síðan árið 2015 hefur prentsmiðjan verið til húsa að heimili Árna að Grundargerði 19 í Reykjavík.
Það má geta þess til gamans að þau átta ár sem Prenthúsið gaf út bækurnar um Ísfólkið (1983–1991) voru prentuð um 350.000 eintök af þeim, svo vinsælar voru þessar sögur.