Prentsmiðjan Edda
Reykjavík og Kópavogi 1936–1994
Prentsmiðjan Edda var stofnuð 1936 þegar nýtt hlutafélag keypti Prentsmiðjuna Acta sem hafði starfað frá árinu 1919. Aðalhvatamaðurinn að stofnun hennar var Sigurður Jónasson (1896–1965) forstjóri og bæjarfulltrúi í Reykjavík, en hluthafarnir voru alls þrettán.
Prentsmiðjan Edda var til húsa í Edduhúsinu að Lindargötu 9a í 44 ár eða til ársins 1982 að hún var flutt í nýtt húsnæði að Smiðjuvegi 3 í Kópavogi.
Hluthöfunum fjölgaði ört eftir stofnfundinn og urðu flestir 50 að tölu.
Fyrsta árið var Óskar Jónsson (1893–1944), prentsmiðjustjóri, en þá tók við Eggert P. Briem (1898–1947) til 1942, Eysteinn Jónsson ráðherra (1906–1993) til 1947, Þorsteinn Thorlacius (1886–1970) til 1960, Stefán Jónsson (1904–1995) til starfsloka í kringum 1980 og Þorbergur Eysteinsson (1940–) eftir að starfsemin flutti í Kópavog.
Undir það síðasta var Prentsmiðjan Edda orðin eign Sambands íslenskra samvinnufélaga að mestu, en það átti 91% hlutabréfa þegar hún sameinaðist G. Ben prentstofu árið 1994.