Björn Jónsson.

Björn Jónsson.

Ragnar Jónsson í Smára.

Ragnar Jónsson í Smára.

Haraldur Gíslason.

Haraldur Gíslason.

Hörður Óskarsson.

Hörður Óskarsson.

Víkingsprent

Reykjavík 1935–1991

Þessi prentsmiðja var stofnuð 1935 af þremur prenturum, þeim Birni Jónssyni (1895–1967), Stefáni Björnssyni (1905–1987) og Guðjóni Einarssyni Long (1905–2003). Þeir seldu síðan prentsmiðjuna árið 1939 samnefndu hlutafélagi og var Björn Jónsson prentsmiðjustjóri þar áfram til 1952.
Prentsmiðjan var þá í Garðastræti 15–17, í húsakynnum Ragnars Jónssonar í Smára (1904–1984) sem var eigandi prentsmiðjunnar og kallaði hann það Unuhús á titilblaði útgáfubóka sinna, en hið eiginlega Unuhús var þar við hliðina.

Haraldur Gíslason (1917–1999) var framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar í mörg ár, en hún var flutt um þetta leyti í Bókfellshúsið að Hverfisgötu 78. Prentsmiðjan var þar á þriðju hæðinni en hafði einnig aðstöðu bæði í kjallara hússins og á fjórðu hæð, en lyfta var á milli. Hörður Óskarsson (1923–2008) prentari var prentsmiðjustjóri. Síðast var Víkingsprent flutt á Veghúsastíg 7 þar sem Helgafell, bókaútgáfa Ragnars, var til húsa.

Seint á níunda áratugnum keypti Prentsmiðja GuðjónÓ hf (Sigurður Nordal) Víkingsprent og Umslag og var Sveinbjörn Hjálmarsson (1950–) ráðinn sem framkvæmdastjóri beggja fyrirtækjanna og voru þau rekin þar saman í þrjú ár.
Sveinbjörn keypti síðan Umslag 1991 og vélar Víkingsprents. Af þeim gaf hann blýsetningarvél, öll gömul tæki, letur o.fl. til Árbæjarsafns. Víkingsprent var síðan lagt niður en Umslag var rekið áfram í húsnæðinu að Veghúsastíg 7 þar til það var flutt árið 1997 í núverandi húsnæði að Lágmúla 5, bakhús.