Jón Svan Sigurðsson.

Jón Svan Sigurðsson.

Svansprent

Reykjavík 1967–1973 og Kópavogi 1973–

Prentsmiðjan Svansprent var stofnuð árið 1967. Stofnendur voru hjónin Jón Svan Sigurðsson (1931–2017) og Þuríður Ólafsdóttir (1935–) og hefur fyrirtækið verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi. Jón Svan nam setningu í Prentsmiðjunni Eddu 1947–1951 og fékk meistararéttindi 1955. Hann vann í Eddu til 1959 en gerðist þá prentsmiðjustjóri í Prentsmiðjunni Hilmi og vann þar til 1966.

Fyrstu sex árin var Svansprent til húsa í 100 fm húsnæði í Skeifunni 3 í Reykjavík en árið 1973 var fyrirtækið flutt í eigið húsnæði að Auðbrekku 12 í Kópavogi, þar sem það er ennþá til húsa. Fljótlega eftir flutningana var byggt við það og í dag er starfsemi fyrirtækisins í 2500 fm björtu og rúmgóðu húsnæði. Svansprent hefur stækkað smám saman í gegnum tíðina og hefur nú yfir að ráða fullkomnum tækjakosti fyrir fjölbreytt verk­efni. Lengst af unnu þar um 10 manns en nú eru starfsmenn 36 talsins í fjórum deildum, skrifstofu, undirbúningsdeild, prentun og bókbandi.
Svansprent hlaut vottun norræna umhverfismerkisins Svansins 24. nóvember árið 2010 til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum.