Hilmar A. Kristjánsson.

Hilmar A. Kristjánsson.

Axel Kristjánsson.

Axel Kristjánsson.

Prentsmiðjan Hilmir

Reykjavík 1959–1983

Hilmar A. Kristjánsson stofnaði Prentsmiðjuna Hilmi árið 1959. Nokkru áður hafði hann gerst formaður Svifflugfélags Íslands og var byrjaður að gefa út tímaritið Flugmál, sem gekk mjög vel. Hann hóf líka að gefa út Vikuna, sem brátt stækkaði og upplagið fór yfir 20 þúsund eintök. Vikan var prentuð í Steindórsprenti en þeir önnuðu þessu ekki því blaðsíðufjöldinn varð líka margfaldur. Hann ákvað því að stofna prentsmiðju og fékk eldgamla prentvél úr Félagsprentsmiðjunni, en setjaravél í Herbertsprenti, sem var að hætta um þetta leyti. Það var þó bundið því skilyrði að hann keypti alla prentsmiðjuna, sem hann og gerði.

Þetta gekk nú samt ekki þrautalaust fyrir sig, því honum var sagt að til þess að ná vélinni út úr húsinu í Bankastræti þyrfti að láta rífa hana í sundur. Þessu gat Hilmar ekki beðið eftir og ákvað að láta rífa þakið af húsinu og hífa vélina upp með krana frá Eimskip.

Þá hóf Hilmar að gefa út dagblaðið Mynd í ágúst árið 1962, en útgáfu þess var hætt fljótlega. Hilmar fór þá af landi brott (til S-Afríku), en faðir hans Axel Kristjánsson (1908–1979) í Rafha tók við stjórnartaumunum og var forstjóri Hilmis til starfsloka. Prentsmiðjan Hilmir var fyrst til húsa að Laugavegi 174, en var síðan flutt í Skipholt og seinna í Síðumúla. Árið 1983 hætti Hilmir sem sérstök prentsmiðja, en prentunin rann saman við starfsemi Frjálsrar fjölmiðlunar í Þverholti.