Ragnar Þ. Guðmundsson.

Ragnar Þ. Guðmundsson.

Guðmundur Kristjánsson.

Guðmundur Kristjánsson.

Steindór Hálfdánarson.

Steindór Hálfdánarson.

Gutenberg

Reykjavík 2002–2008

Steindórsprent-Gutenberg 1992–2002

Steindórsprent og Prentsmiðjan Gutenberg voru bæði gamalgróin prentfyrirtæki þegar þau sameinuðust 1992. Steindórsprent var stofnað 1934 og var til húsa í Miðbænum í Reykjavík, lengst af í Tjarnargötu 4, en flutti seinna inn í Múlahverfi í Ármúla 5. Prentsmiðjan Gutenberg var hins vegar enn eldri, stofnuð 1904 af forvígismönnum prentara í lok mikillar vinnudeilu um aldamótin. Þá reistu þeir gamla prentsmiðjuhúsið í Þingholtsstræti 6 og þar var prentsmiðjan allar götur síðan til 1974–75.

Það var upp úr annarri mikilli vinnudeilu 1971, að ríkissjóður sem hafði keypt prentsmiðjuna 1930 þótti ástæða til að endurnýja húsnæði sitt.* Þá keypti hann húseignir Prentsmiðju Jóns Helgasonar og Félagsbókbandsins í Síðumúla 16. Ragnar Þ. Guðmundsson (1921–1984) setjari var prentsmiðjustjóri á þessum tíma. Flutt var endanlega inn í nýja staðinn í október 1975 í 2000 fm húsnæði. Ríkisprentsmiðjan var síðan gerð að hlutafélagi 1991 og seld Steindórsprenti sem áður sagði 1992. Eftir lát Ragnars tók Guðmundur Kristjánsson (1944–) við sem prentsmiðjustjóri. Árið 1994 var Prentsmiðja Árna Valdemarssonar sameinuð Steindórsprent-Gutenberg í húsnæðinu að Síðumúla 16.

Árið 2000 keypti Prentsmiðjan Oddi, Steindórsprent-Gutenberg og árið 2002 var Grafík sameinuð Steindórsprent-Gutenberg undir nafninu Gutenberg. Fyrirtækið var samt rekið áfram sem sjálfstæð eining til ársins 2008 en þá var starfsemi Gutenbergs sameinuð Prentsmiðjunni Odda undir nafni Odda.

*Magnús Kjartansson (1919-1981) sem var iðnaðarráðherra 1971 skipaði nefnd um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg 28. desember 1971 til að endurskoða rekstur hennar, miðað við að tryggja prentsmiðjunni húsakost, vélbúnað og aðra aðstöðu til að gegna sem best verkefnum sínum í þágu Alþingis, stjórnarráðsins og Háskóla Íslands. Þetta var m.a. eitt af því sem hafðist upp úr vinnudeilunni 1971, að bókagerðarmenn í Gutenberg fengu viðunandi húsnæði og betri vinnuaðstöðu eftir þessa samninga.