Þorsteinn J. Víglundsson.

Guðmundur Eggerz.

Prentsmiðja Víðis

Vestmannaeyjum 1929–1930

Eins og frá er sagt í skrifum mínum um Prentsmiðjuna Vestmannabraut 30 þá var nafni prentsmiðjunar breytt frá og með 6. tbl. Víðis, 21. desember 1929, og hún þá nefnd Prentsmiðja Víðis. Þetta var þó ekki einhlítt því ég er með undir höndum eintök af tímaritinu Blómið, sem Þorsteinn Þ. Víglundsson gaf út og 4. eintak þess sem var gefið út í október 1929 er sagt prentað í Prentsmiðju Víðis í Vestmannaeyjum.

Það hefur því verið eitthvað á reiki með prentsmiðjunafnið eins og Jóhann Gunnar Ólafsson segir líka í grein sinni í Helgakveri Rv. 1976. Þar stendur á bls. 90: „Meðan prentsmiðjan var í Viðey var hún ýmist nefnd Prentsmiðjan Vestmannabraut 30, Prentsmiðja Víðis eða Eyjaprentsmiðjan og síðan Eyjaprentsmiðjan hf.“. Hér mætti líka bæta við nafninu Víðisprentsmiðjan, en það var hún nefnd í blaðinu Víði frá 12. júlí 1930 til 29. nóvember 1930.

Þetta tímabil í sögu prentsmiðjunnar varir ekki nema í tæpt ár, en það verða ýmsar afdrifaríkar breytingar. Ólafur Magnússon hættir sem ritstjóri Víðis í lok febrúar 1930, en 4. nóvember þetta ár lést hann á Vífilsstaðahæli. Við ritstjórastarfinu tók Guðmundur Eggerz (1873–1957) fyrrverandi alþingismaður. Um sama leyti er smáfrétt í blaðinu Víði, þar sem sagt er frá því að Gísli J. Johnsen konsúll hafi framselt bú sitt til gjaldþrotaskipta.

Í grein Jóh. G. Ólafssonar í Helgakveri segir síðan á bls. 90: „Í lok ársins 1930 höfðu nokkrir menn keypt prentsmiðjuna af þrotabúi Gísla J. Johnsens og stofnuðu um hana hlutafélag, sem þó var ekki skrásett fyrr en 5. október 1932. Um sömu mundir keyptu þeir Prentsmiðju Vikunnar af Steindóri Sigurðssyni prentara, og steyptu þessum prentsmiðjum saman.“ Með þessum kaupum var nú hringnum lokað. Báðar stofnprentsmiðjurnar í Eyjum, Prentsmiðja Vestmannaeyja, sem Gísli J. Johnsen keypti 1917 og Prentsmiðja Guðjónsbræðra, sem Guðjón Ó. Guðjónsson kom með til Vestmannaeyja 1926 voru nú sameinaðar, þ.e.a.s. eldri hluti prentsmiðju Guðjóns Ó. Hinn hlutinn fór til Hólaprentsmiðjunnar í Reykjavík.

Við vitum ekki hverjir þessir „nokkrir menn“ voru, sem sameinuðu prentsmiðjurnar, nema það, að þarna voru sjálfstæðismenn að verki, sbr. grein Jóh. G. Ólafssonar á bls 94 í Helgakveri, en þeir eru ekki nafngreindir. Þetta varð til þess að nú þurftu „kommarnir“ að fara upp á land til að fá prentun sinna blaða eða að taka upp fjölritun á ný.