Gestur Einarsson.

Einar E. Sæmundsen.

Freysteinn Gunnarsson.

Prentsmiðja Þjóðólfs

Haga í Sandvíkurhreppi og Selfossi 1919–1920

Nú hefst nýr kafli í prentsmiðjusögu Árnesinga. Fyrri heimsstyrjöldinni er lokið og seint á árinu 1918 lést hinn djarfi forystumaður Árnesinga, Gestur Einarsson á Hæli úr Spænsku veikinni aðeins 38 ára að aldri. Það er komið fram í júni 1919. Prentsmiðja Suðurlands er flutt að bænum Haga í Sandvíkurhreppi, sem er nálægt Selfossi og þar er farið að prenta Þjóðólf að nýju. Að útgáfunni standa „Nokkrir Árnesingar“, en ekki er getið um nein nöfn og heldur ekki hver er prentari, en ritstjóri er Einar E. Sæmundsen (1885–1953) skógarvörður. Fyrsta blaðið kom út 27. júní 1919 og það er strax augljóst að þarna er um sömu prentsmiðju að ræða og var á Eyrarbakka 1910–1917. Alla vega er letrið það sama og var notað í gömlu prentsmiðjunni. Þetta er dálítið undarlegur prentsmiðjustaður, á sveitabæ, en sjálfsagt hefur húsnæðið hentað betur en það sem prentað var í á Eyrarbakka.

Í þessu fyrsta blaði Þjóðólfs sem prentað er í Haga er sagt að nú hafi margir menn heitið blaðinu stuðningi, en áður hafi aðeins einn bóndi staðið straum af kostnaði þess, þ.e. Gestur Einarsson á Hæli sem nú sé fallinn frá. Þjóðólfur er sagður afgreiddur fyrst um sinn í Haga í Sandvíkurhreppi og bendir það orðalag til þess að þetta sé til bráðabirgða. Þeir sem helst skrifuðu í blaðið voru ritstjórinn Einar E. Sæmundsen og Freysteinn Gunnarsson (1892–1976) sem skrifaði um Skólamálið. Í síðasta blaðinu sem prentað er í Haga 16. september 1919 er kvartað undan því að prentsmiðjan hafi alltaf verið í lamasessi, meira og minna bilað hvað eftir annað og því ómögulegt að prenta, en það er vonast til þess að hún komist í lag. Það er talað um að færri blöð hafi komið út en ætlað var og þess vegna hafi árgangur blaðsins verið lækkaður úr 5 kr. í 3 kr. Prentuð voru aðeins 5 tbl. af Þjóðólfi í prentsmiðjunni í Haga. Þá var prentsmiðjan flutt á Selfoss. Í lítilli frétt á bls. 3 (23) í Þjóðólfi 18. okt. 1919, í fyrsta blaðinu sem prentað er á nýja staðnum segir:
„Bankaútibúið á Selfossi er nú komið í sjálfsábúð. Er stofnunin nú flutt í nýbyggt hús, er bankinn lét reisa í sumar, norðan við flutningabrautina, nokkur hundruð faðma austur frá Ölfusárbrúnni. Byggingin er væn að viðum og rúmgóð, tvílyft, að grunnmáli um 14 x 24 álnir. Kjallari er undir öllu húsinu og er Prentsmiðja Þjóðólfs nú flutt þangað. Hefir flutningurinn frá Haga í þetta sinn valdið drætti á útkomu blaðsins.“

Í Landsbankaútibúinu á Selfossi voru síðan prentuð næstu sjö tölublöð Þjóðólfs á tímabilinu 18. október 1919 til 21. janúar 1920. Ritstjórinn var sá sami og í Haga, Einar E. Sæmundsen, en hann kom mjög við sögu Suðurlands. Þessi blöð voru jafnframt síðustu blöð þessa Þjóðólfs. Þeir sem skrifuðu helst í þessi síðustu blöð Þjóðólfs voru: Eiríkur Einarsson frá Hæli (1885–1951) þingmaður Árnesinga, Gísli Skúlason (1877–1942) prestur í Stokkseyrarprestakalli, Gunnar Sigurðsson frá Selalæk (1888–1962) og séra Magnús Helgason (1857–1940) skólastjóri Kennaraskólans í Reykjavík.

Prentverkið sem var orðið frekar lúið þegar það kom í Landsbankahúsið á Selfossi var nú ekki notað í nokkur ár, en það sem næst er vitað um það er að Guðjón Ó. Guðjónsson (1901–1992) prentari var orðinn eigandi að því og flutti það til Reykjavíkur að Laufásvegi 15 og byrjaði að prenta þar í febrúar 1926. Í júní sama ár flutti hann það til Vestmannaeyja og stofnaði Prentsmiðju Guðjónsbræðra, en síðan gekk það kaupum og sölum í Vestmannaeyjum næstu árin og sameinaðist Eyjaprentsmiðjunni árið 1930. Það má búast við því að lausaletrið sem Jón Ólafsson (1850–1916) keypti til Aldar-prentsmiðjunnar 1897 hafi verið orðið lélegt þegar hér var komið sögu, en það var upphafið að þessari prentsmiðju sem víða fór.