Guðjón Ó. Guðjónsson.

Þorbjörn Guðjónsson.

Prentsmiðja Guðjónsbræðra

Vestmannaeyjum 1926

Guðjón Ó. Guðjónsson (1901–1992) prentari keypti Eyrarbakkaprentsmiðju árið 1926 og setti hana upp að Laufásvegi 15 í Reykjavík. Var byrjað að prenta í henni þar í febrúar það ár. Prentsmiðjan hafði legið ónotuð í nokkur ár, en síðast hafði verið prentað í henni blaðið Þjóðólfur í Landsbankahúsinu á Selfossi um 1920. Guðjón lagfærði hana og jók tækjabúnað verulega.

Um þessar mundir var gerð svohljóðandi samþykkt á fundi í Verkamannafélaginu Drífanda í Vestmannaeyjum:
„Verkamannafjel. „Drífandi“ ákveður að gefa út vikublað hjer í Eyjunum og felur stjórn sinni að sjá um útgáfu og alla tilhögun þess fyrst um sinn“.
Í framhaldi af þessu fór stjórn félagsins þess á leit við bræðurna Guðjón Ó. Guðjónsson og Þorbjörn Guðjónsson (1891–1974) bónda og formann í Kirkjubæ í Vestmannaeyjum, en þeir áttu prentsmiðjuna saman, að þeir flyttu prentsmiðjuna til Vestmannaeyja. Frá þessu er sagt í 1. tbl. Eyjablaðsins 26. september 1926.

Prentsmiðjan var sett upp að Heimagötu 22 og var hún kölluð Prentsmiðja Guðjónsbræðra. Alls voru prentuð þar 13 tölublöð. Í október kom Vilhjálmur S. Vilhjálmsson blaðamaður til Eyja og tók að sér rekstur blaðsins og afgreiðslu. Hann var ábyrgðarmaður þess meðan hann dvaldi í Eyjum, fram í mars 1927. Síðasta blað af Eyjablaðinu, sem prentað var í Prentsmiðju Guðjónsbræðra, var prentað þar 12. desember 1926. Fyrst var afgreiðsla blaðsins í sama húsi og prentsmiðjan, Heimagötu 22, en frá 6. tbl. 25. október var afgreiðslan flutt að Heimagötu 20 (Carlsbergi).

Það sem er merkilegast við þessa útgáfu er litprentunin á forsíðu blaðsins, en þetta mun líklega vera fyrsta íslenska blaðið sem prentað er í tveimur litum. Undirtitillinn, Málgagn alþýðu í Vestmannaeyjum í rauðu sem undirstrikar líka að þetta eru allt blóðrauðir bolsar sem margir urðu seinna þjóðkunnir menn. Rauði liturinn gerir blaðið miklu líflegra og meiri líkindi eru til þess að menn kaupi það.