Ísleifur Högnason.

Prentsmiðja Eyjablaðsins

Vestmannaeyjum 1926–1927

Guðjónsbræður, þeir Guðjón og Þorbjörn, seldu Ísleifi Högnasyni og Verkamannafélaginu Drífanda hluta af prentsmiðju sinni í desember 1926. Prentsmiðjan var þá flutt í íbúðarhús Ísleifs Högnasonar að Helgafellsbraut 19 (Bolsastöðum). Fyrsta blaðið sem merkt var þessari prentsmiðju kom út 19. desember 1926 og var það 14. tbl. Eyjablaðsins. Vilhjálmur S. Vilhjálmsson blaðamaður var áfram ábyrgðarmaður blaðsins og hafði með höndum afgreiðslu þess, en ritstjórn önnuðust sömu menn og áður: Ísleifur Högnason, Haukur Björnsson og Jón Rafnsson.

Vilhjálmur S. Vilhjálmsson tók síðan við ritstjórn blaðsins í janúar 1927 og er til viðtals daglega á Vestmannabraut 3. Hann er síðan áfram ritstjóri og ábyrgðarmaður þar til hann flutti úr Eyjum, en síðasta blað hans kemur út 6. mars.

Þá er Jón Rafnsson ábyrgðarmaður blaðsins þar til það hætti að koma út 9. júlí þetta sama ár. Allir þessir menn áttu eftir að marka sín spor í sögu verkalýðshreyfingarinnar. Vilhjálmur gerðist blaðamaður við Alþýðublaðið og var brautryðjandi viðtalsformsins í íslenskri blaðamennsku og var þetta hans frumraun. Ekki er vitað hver tók við prentun blaðsins eftir að Guðjón Ó. hætti í desember 1926.