Björn Jónsson yngri.

Prentsmiðja Austurlands

Eskifirði 1907–1908

Prentsmiðja Thors E. Tuliniusar fékk nú nýtt nafn og var kölluð Prentsmiðja Austurlands því blaðið Austurland hóf göngu sína á Eskifirði í ágústmánuði 1907 og var prentað þar. Ritstjóri og útgefandi var Björn Jónsson yngri (1854–1920) prentari og ritstjóri á Akureyri, sem oft var kenndur við blaðið Fróða. Ekki er vitað hver hvatinn var að þessu eða hverjir stóðu að baki Birni. Í árslok segir þó í blaðinu að Thor E. Tulinius (1860–1932) eigandi prentsmiðjunnar hafi lánað félagi manna prentverkið en ekkert er sagt hvaða menn þetta voru.
Sænski prentarinn Axel M. Ström (1876–1948) sem prentaði Dagfara annaðist líka prentun Austurlands, og er nafn hans á öftustu blaðsíðu neðst í hægra horni fyrir neðan nafn Björns Jónssonar sem skráður er ábyrgðarmaður blaðsins. Þetta hefur Axel gert á þeim blöðum sem hann hefur prentað, en það er frá 2. tbl. 10. ágúst 1907 og til 27. tbl. 22. maí 1908 eða alls 27 tölublöð.
Austurland kom einungis út fram á árið 1908, alls 36 tölublöð auk eins aukablaðs. Prentsmiðjan stóð síðan ónotuð á Eskifirði til ársins 1910, en þá keypti Davíð Östlund prentverkið eftir að prentsmiðja hans brann í Reykjavík. Eftir þetta hefur ekki verið starfrækt prentsmiðja á Eskifirði.