Jónas Guðmundsson.

Vigfús Guttormsson.

Norðfjarðarprentsmiðja

Norðfirði 1927

Verkalýðsfélag Norðfjarðar hóf útgáfu á prentuðu blaði 1926 sem hét Jafnaðarmaðurinn. Það var prentað í prentsmiðju Sigurðar Þ. Guðmundssonar á Seyðisfirði. Ritstjóri var Jónas Guðmundsson (1898–1973) en hann var helsti forystumaður verkamanna á Norðfirði á þessum árum. Erfitt var að halda úti blaði á þennan hátt með prentsmiðjuna í öðrum firði svo Jónas og samherjar tóku sig til og réðust í prentsmiðjukaup 1927.

Þeir keyptu Norðanfaraprentsmiðjuna gömlu sem Skapti Jósepsson fékk frá Akureyri til Prentsmiðju Austra á Seyðisfirði 1895. Þetta var handsnúin pressa með heljarstóru svinghjóli. Hún var yfir 50 ára gömul og mjög slitin eins og kom á daginn. Jónas réð Vigfús Guttormsson (1900–1984) til starfa strax eftir að gengið var frá kaupunum. Hann var ekki lærður prentari en hafði verið prentnemi í Prentsmiðju Austra á Seyðisfirði árið 1917.

Prentsmiðjunni var komið fyrir í Gamla Templarahúsinu á Norðfirði og mikil bjartsýni ríkti um starfrækslu Norðfjarðarprentsmiðju, en það nafn var henni gefið. En vonbrigðin urðu mikil þegar farið var að setja hana upp. Þá kom í ljós að valsar hennar voru mjög slitnir og þegar blaðið var prentað var útkoman afar léleg. Letrið var sums staðar dauft en skýrt og greinilegt á öðrum stöðum.

Alls voru prentuð í vélinni átta tölublöð af Jafnaðarmanninum og kom síðasta blaðið út 30. júlí 1927. Ekki er vitað til þess að þessi fyrsta prentsmiðja á Norðfirði hafi prentað neitt annað en Jafnaðarmanninn. Afdrif prentsmiðjunnar voru þau að hún var tekin niður og flutt upp á efsta loft í svokölluðu Hafnarhúsi og þar var hún látin grotna niður og endaði á haugunum árið 1941.